Góðar fréttir! Allir sjálfmenntuðu veiru- og faraldsfræðingar landsins eru núna orðnir eldfjallafræðingar og meira en tilbúnir til að segja okkur hversu hratt við ætlum að sjóða bandarísku millistjórnendurna sem enn fljóta grandalausir í Bláa lóninu, makandi á hvert annað punghárakísilleðjunni okkar sem hefur verið að safnast síðustu 40 árin. Þessa mikilvægu þjónustu veita þau í krafti menntunar sinnar í að lesa Wikipedia-færslur og horfa í gervihnattamyndir.
Það er auðvitað fátt íslenskara en að hafa haldið eins lengi og mögulegt var í fasta opnunartíma sundlaugar sem kostar 12.000 krónur ofan í án þess að hafa fyrir því að upplýsa gestina um að þau væru að baða sig ofan á mjög virku eldfjalli áður en stjórnendur voru nauðbeygðir til að loka í smá stund. Það þarf auðvitað einhver að hugsa um aumingja hluthafana, hvers eiga þeir að gjalda?
Einhver hluti sófasérfræðinga landsins ákvað að sleppa jarðfræðinni og gerast í staðinn sérfræðingar í málefnum Mið-Austurlanda. Það gleður mig að tilkynna ykkur að ég er einn slíkur sérfræðingur, enda með menntun frá einum áfanga í sögu Mið-Austurlanda frá því á vorönn 2003 í MH, þaðan sem ég útskrifaðist með hátt í 8 í einkunn fyrir þriggja blaðsíðna ritgerð um sex daga stríðið.
„Það er auðvitað krefjandi að taka við nýju starfi, sérstaklega þegar maður hefur byggt allan sinn feril á því að svara fyrir sig með innihaldslausu orðasalati og vera hortugur við blaðamenn“
Ég hef í rauninni bara eina mjög róttæka skoðun á þessum átökum: það er ekki í lagi að myrða börn. Ég vissi raunar ekki að þetta væri sérstaklega róttæk skoðun fyrr en um daginn þegar það kom í ljós að ef maður ætlar að mótmæla barnamorðum þá þurfi að fylgja því ýmsir mjög greinargóðir fyrirvarar; „Ég mótmæli morðum á börnum mjög harðlega, en viðurkenni þó skýlausan rétt þeirra sem myrða börnin til þess að verja sig, vonandi án þess að þeir myrði mikið fleiri börn“, „Ég krefst þess að gætt verði meðalhófs í áframhaldandi morðum á börnum og fordæmi einnig hryðjuverkaárásirnar sem urðu til þess að öll þessi börnin voru myrt“. Púff, það er greinilega mjög flókið að vera í utanríkispólitík. Það þarf að vanda orðin vel á meðan stríðsglæpirnir eru framdir sleitulaust, allan sólarhringinn á meðan.
Afsakað með orðasalati
Nýjum utanríkisráðherra er kannski smá vorkunn. Það er auðvitað krefjandi að taka við nýju starfi, sérstaklega þegar maður hefur byggt allan sinn feril á því að svara fyrir sig með innihaldslausu orðasalati og vera hortugur við blaðamenn. Hjáseta Íslands við atkvæðagreiðslu um kröfu Sameinuðu þjóðanna um „mannúðarhlé“ á öllum þessum barnamorðum var auðvitað afsökuð með orðasalati; við styðjum auðvitað mannúðarhlé, en það vantaði aðeins upp á orðalagið og meðvirknina, þannig að við gátum ekki stutt hana. Þetta hefði kannski komið betur út hefðu Norðmenn ekki rétt upp hönd og sagt, „Ehh, við erum tilbúin að biðja um að öllum þessum barnamorðum verði hætt þótt tillagan hafi ekki verið borin fram með 12 punkta letri og tvöföldu línubili“.
Það er erfitt að horfast í augu við hryllinginn sem er að eiga sér stað í Gaza. Það er erfitt að raungera hann í hugum okkar og setja hann í eitthvert samhengi sem við skiljum. Áratugafréttaflutningur af „ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs“ hefur afnæmt okkur fyrir einhvers konar hlutlægum veruleika. Þetta er bara fréttamál, myndefni sem ekki er við hæfi barna. Mannfall, eldflaugaárásir, ófriður. Orðasalat.
Meðalaldur íbúa Gaza er 18 ár. 70% íbúa er undir þrítugu. Þetta eru reyndar tölur frá því áður en 10.000 íbúar létu lífið, þar af fleiri en 4.000 börn, þannig að þetta hefur líklega eitthvað hliðrast. Þetta er eins og það sé verið að senda sprengjuregn á skátamót við Úlfljótsvatn, varpa hvítum fosfór yfir Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Það er eiginlega ekki hægt að sprengja eldflaug í Gaza án þess að myrða barn; hvað þá þegar eldflaugaregni er beint að spítölum, skólum, sjúkrabílum og flóttamannabúðum. Viðstöðulausar árásir sem virðast gera engan greinarmun á óbreyttum borgurum og svokölluðum hernaðarskotmörkum, allt í nafni þess að hryðjuverkamenn séu þeirra á meðal. Það má vel vera. En það þýðir samt ekki að það megi myrða börn. Tugi barna á hverjum degi. Alþjóðasamfélagið hefur ótrúlegt en satt fest það í lög að það megi ekki myrða börn og saklausa borgara, það megi ekki gera þau að skotmörkum. En alþjóðasamfélagið virðist algjörlega ófært um að framfylgja nokkurs konar viðurlögum við þessum síendurteknu og viðvarandi stríðsglæpum.
Börn falla ekki í átökum
Stóru iðnríkin hafa sinn bagga að bera þegar kemur að þessum heimshluta; Bretar sem eru þjóða sekastir í uppbroti Palestínu á sínum tíma og við þurfum svo sem ekkert að tíunda hvers konar taugaáfalli Þjóðverjar eru í. Það er samt óskiljanlegt að Ísland þurfi að elta þessa meðvirkni stöðugt. Að ráðamenn okkar séu eins og blautir hundar á alþjóðasviðinu að muldra eitthvað um meðalhóf og mannúðaraðstoð þegar við höfum öll tækifæri til að standa keik og fordæma að verið sé að fremja þjóðarmorð undir verndarvæng alþjóðasamfélagsins. Ísland er kannski ekki stórt og máttugt, en orð hafa áhrif og sama hversu marga samstöðufundi við höldum, sem eru frábærir, þá er ríkisstjórnin okkar málpípa okkar út í heiminn. Afstaða okkar á að vera afdráttarlaus, sér í lagi þar sem við höfum viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Palestínu (sem var gert árið 2011 í tíð einu ríkisstjórnarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki setið í síðan 1991. Megið lesa í það sem þið viljið).
Til hvers erum við partur af alþjóðasamfélaginu ef við getum ekki verið afdráttarlaus í fordæmingu okkar á barnamorðum? Af hverju þarf því alltaf að fylgja einhvers konar meðvirkni með orðræðu stríðsglæpamanna? Ætlum við bara að leggja fram okkar litlu bókanir og kvitta upp á sem minnst og vona að sem fæstir taki eftir okkur? Og fjölmiðlar. Ekki taka þátt í orðasalatinu. Börn falla ekki í átökum. Börn eru myrt. Þetta er ekki flóknara.
Ég veit að það er ekki hægt að taka allt myrkur heimsins inn á sig. Ísland getur ekki bjargað allri veröldinni. Það minnsta sem við getum gert er að leyfa okkur að sjá hvað er að gerast, vera meðvituð um það, leyfa okkur að finna fyrir því. Samlíðunin er sársaukafull. Það er sársaukafullt að reyna að setja morð á þúsundum barna í samhengi við eigin tilveru hér á þessari litlu máttvana eyju. En ef við ætlum að vera einhvers konar partur af alþjóðasamfélaginu þá er það óhjákvæmilegt. Það verður að setja þrýsting á yfirvöld að sýna einhvers konar fordæmi í alþjóðasamfélaginu, annars erum við jafnsek í áframhaldandi afmennskun á heilli þjóð og sinnuleysi gagnvart því þjóðarmorði sem á sér stað akkúrat núna með okkar blessun. Það er auðvitað auðveldara að reyna að pæla sem minnst í þessu, leyfa þessu bara að halda áfram að vera eitthvert orðasalat í kvöldfréttunum. Svo getum við öll bara sameinast fyrir framan sjónvarpið í maí og horft á Ísrael flytja enn einn tímalausan poppslagarann í Eurovision í nafni friðar og samtakamáttar tónlistarinnar. En þá þurfum við í það minnsta að spreyja yfir þessa ömurlega hræsnisfullu Friðarsúlu sem mengar hér næturhimininn ár hvert án nokkurrar innistæðu.
Athugasemdir