Þegar ég var unglingur var ég ákveðin í að verða kennari. Ekki veit ég hvaðan mér kom sú hugmynd, það var enginn kennari í nánustu fjölskyldu. Ætli ég hafi ekki bara verið þokkalega ánægð með kennarana mína fram að því og ákveðið að það væri fínt að feta í fótspor þeirra?
Þegar ég kláraði stúdentinn langaði mig enn að verða kennari. En ég þorði ekki.
Samtökin '78 voru stofnuð tveimur árum áður en ég lauk stúdentsprófinu. Umræður í samfélaginu á þessum árum voru sannarlega ekki hófstilltar, hinsegin fólk var kallað öllum illum nöfnum og sameiginlegi þráðurinn var alltaf sá að við værum svo óskaplega hættuleg börnum. Samkynhneigð væri alveg bráðsmitandi og flest voru sannfærð um að við hefðum það efst á stefnuskránni að smita sem flest börn. Og ekki nóg með það, í hugum margra var eitt og hið sama að vera samkynhneigð og að vera barnaníðingar. Börnin voru í hættu, þau voru ekki einu sinni óhult í almannarými eins og t.d. í sundlaugunum. Samkynhneigðir voru ónáttúruleg skömm sem bar að uppræta.
Tvítuga lesbían sá fram á að í hópi þeirra sem hæst létu væru foreldrar barna sem hún myndi kenna, færi hún þá leið að verða kennari. Og ég þorði ekki.
Svo liðu árin og staðan varð sífellt betri hjá okkur samkynhneigða fólkinu. Við máttum skrá okkur í staðfesta samvist og seinna giftast, við máttum ættleiða börn og lesbíur máttu sækja sér aðstoð heilbrigðiskerfisins til að verða barnshafandi. Samfélagið virtist hafa vanist okkur hreint ágætlega og afskaplega fáum datt í hug að halda því fram að við værum að smita börn eða beita þau ofbeldi.
Þróunin var ekki bara svona hér á landi. Í Bandaríkjunum lentu íhaldssamir pólitíkusar í stökustu vandræðum að fylkja fólki að baki sér með upphrópunum um að samkynhneigðir væru að eyðileggja hjónabandið og ganga af hefðbundnum fjölskyldugildum dauðum. Skoðanakannanir sýndu að um 80% landsmanna, hvar í flokki sem það fólk stóð, voru hreint ágætlega sátt við þetta samkynhneigða fólk.
Svona mátti þetta ekki ganga lengur. Hægrið í Bandaríkjunum reiðir sig á stuðning ýmissa kirkjulegra söfnuða og sameiginlegt baráttumál varð að finna. Þungunarrof, sem einu sinni kallaði fram afskaplega sterk viðbrögð, dugði ekki almennilega lengur. En það var þó hægt að hræra upp í þeim tilfinningum einu sinni enn og það tókst sums staðar svo vel að réttindum kvenna hefur verið kippt áratugi aftur í tímann.
Allra best reyndist þó að tala um örlítinn hluta hinsegin fólks, spila á þekkingarleysið sem elur fordómana og vekja upp óttann sem hefur dugað svo mörgum til að komast til valda: Trans fólk. Þar var óvinurinn fundinn.
Þau eru því miður mörg sem dreymir um heiminn eins og hann var fyrir baráttu kvenna, svartra, fatlaðra, hinsegin og annarra minnihlutahópa. Þegar eina rétta formúlan var hvítur karl, hvíta konan hans og hvítu börnin þeirra á millistéttarheimilinu. Þetta er þessu fólki fagur draumur en okkur hinum svæsnasta martröð. Við munum allt of vel hvernig það var að tilheyra ekki því samfélagi sem okkur var ætlað að búa í. Og við vonuðum að sá tími kæmi aldrei aftur.
Þessi tími er hins vegar runninn upp fyrir trans fólk. Í anda endurvinnslu þurfti ekki einu sinni að finna upp ný slagorð, bara dusta rykið af þeim gömlu frá 8. og 9. áratugnum. Trans fólk er ónáttúruleg skömm, stefnir að því leynt og ljóst að gera sem flest börn trans og er þeim beinlínis hættulegt. Þar við bætist, að trans konur eru enn ein ógnin við öryggi kvenna. Sumir virðast jafnvel trúa því að til séu kynferðisafbrotamenn sem ákveði að ganga í gegnum kynleiðréttingarferli til að laumast í hóp kvenna og eiga þannig greiðari leið til að brjóta á þeim! Hugmyndaflugið í bullinu er nánast aðdáunarvert. Kynferðisafbrotamenn hefur aldrei skort tækifæri til að brjóta á konum, því miður, og fullkomlega ástæðulaust að tengja þá hegðun trans konum.
„Hvers vegna lærum við aldrei?“
Hvernig stendur á því að það er svona auðvelt að vekja upp óttann og fordómana, með nákvæmlega sömu aðferðum og áður fyrr? Hvers vegna lærum við aldrei? Hvarflar ekki að nokkrum þeim, sem nú láta sig hafa það að éta upp falsfréttir um trans fólk, að velta fyrir sér hvernig það gafst að veita samkynhneigðum réttindi til jafns við annað fólk? Fór heimurinn helvítis til? Eða reyndist fólk bara búa í þokkalegri sátt og brúklegu samlyndi við annað fólk?
Þið sem hafið núna sem hæst og eigið eftir að vera dæmd harkalega af sögunni: Hvers vegna óttist þið trans fólk og reynið að draga upp mynd af því sem hættulegu ofbeldisfólki? Hvers vegna eruð þið svo óttaslegin og óörugg? Er ekki rétt að þið finnið svarið við því og hættið að ólmast á minnihlutahópi sem hefur ekkert gert ykkur? Viljið þið láta nota ykkur til að færa mannréttindi aftur um áratugi? Gætið ykkar, því slík réttindaskerðing gæti hitt ykkur sjálf og ástvini ykkar fyrir.
Ég er löngu búin að sætta mig við að hafa ekki orðið kennari. Lífið hefur tekið mig í margar áttir, upp, niður og allt um kring og oftast hef ég stýrt þeirri för sjálf. Ég ætla aldrei aftur til þess tíma þegar ég óttaðist fordóma annarra. Hatrið sem beinist að trans fólki núna beinist líka að mér, því þetta er sama hatrið og við héldum að við hefðum náð að kæfa. Að þessu sinni verðum við að tryggja að það liggi áfram dautt í gröf sinni.
Athugasemdir (2)