„Nei, það hefur ekki neitt slíkt komið inn á borð til okkar,“ svarar Tómas Ingi Torfason, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi, spurður hvort á hans borð, stjórnar eða annarra innan samtakanna hafi borist í formi orðróms eða ábendinga að stofnandinn séra Friðrik Friðriksson hafi níðst á drengjum.
„Ég hef verið hér framkvæmdastjóri í níu ár, þar á undan var ég formaður,“ segir Tómas Ingi. „Þannig að ég er búinn að vera í forystusveit félagsins frá því 2005. Á þessum árum höfum við ekki fengið neitt [um séra Friðrik]. Við höfum þó alltaf verið viðbúin því, þegar upp hafa komið einhver mál, að það myndi ýfa upp eitthvað gamalt, því KFUM er svo ofboðslega gömul hreyfing. En það hefur aldrei neitt slíkt komið inn á borð, hvorki til mín eða stjórnar.“
Engar sögusagnir, enginn grunur og þá alls engar formlegar ábendingar?
„Nei, ekki neitt á þessum nótum um séra Friðrik.“
Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og blaðamaður, hefur gefið út bók um ævi og störf Friðriks þar sem meðal annars er að finna frásögn karlmanns á áttræðisaldri sem segir Friðrik hafa káfað á sér er hann var barn. Maðurinn segir enn fremur frá því að fleiri hafi lent í því sama – verið leiddir einir inn til séra Friðriks eftir sunnudagaskóla félagsins. Árið 2018 leitaði maðurinn sér aðstoðar hjá Stígamótum. Drífa Snædal, talskona Stígamóta, greindi svo frá því í Kastljósi í gær að fleiri karlmenn hefðu leitað til samtakanna vegna séra Friðriks.
Það er talað um verst geymda leyndarmál Íslandssögunnar, sagði Drífa Snædal, talskona Stígamóta, í Kastljósi í gær um að séra Friðrik hafi níðst á drengjum. Hvað segir þú við því?
„Það kom mér mjög á óvart,“ svarar Tómas, „ég verð að viðurkenna það. Að hún hafi látið þetta út úr sér þarna. Við sem störfum í þessum félagsskap erum þá í einhverjum svakalegum bergmálshelli ef það er.“
Svo segir Drífa að fleiri karlmenn hafi leitað til Stígamóta. Hvernig bregstu við því, er einhver ástæða til að efast um að þetta hafi átt sér stað?
„Ég veit ekki hvaða yfirlýsingar ég á að vera með, svoleiðis lagað. Í sjálfu sér höfum við ekkert við þetta að bæta annað en það sem var í yfirlýsingunni frá okkur í gær. Það er ekkert nýtt komið fram sem kallar á það. Við viljum bara vanda okkur, þetta er gamalt mál og þetta er viðkvæmt mál.“
„Að sjálfsögðu stöndum við með þolendum ofbeldis. Það er að sýna sig í okkar starfi og hefur gert síðustu tuttugu árin.“
Kanna bakgrunn og fræða
Tómas ítrekar að á síðustu tuttugu árum, frá því að kynferðisbrot gegn börnum hófu að komst upp á yfirborðið í íslensku samfélagi, hafi samtökin lagt mikið upp úr því að vinna að öryggi barna i æskulýðsstarfi. Þau hafi m.a. haft forgöngu um stofnun æskulýðsvettvangsins, sem er sameiginlegur vettvangur KFUM, skátanna, UMFÍ og Landsbjargar. Bakgrunnskönnun á fólki sem vildi starfa með samtökunum var tekin upp og námskeið sett á laggirnar í samvinnu við yfirvöld barnaverndarmála. Siðareglur voru settar og þær brýndar fyrir öllu starfsfólki.
KFUM og KFUK sendi út yfirlýsingu í gær þar sem m.a. kom fram að forystu samtakanna væri brugðið við að heyra frásögn um að séra Friðrik hafi brugðist trausti þeirra sem hann starfaði fyrir. „Það hryggir okkur meira en orð fá lýst.“ Var fólki sem orðið hefur fyrir kynferðislegri áreiti eða ofbeldi á vettvangi samtakanna bent á að tilkynna um það.
Hafa borist einhverjar ábendingar um séra Friðrik eftir að þið senduð út tilkynninguna?
„Það var fólk sem kom að bókinni hjá Guðmundi sem fannst nauðsynlegt að hringja í okkur eftir þetta viðtal í Kiljunni,“ svarar Tómas.
Og hvað var þetta fólk að segja?
„Að bókin miði öll að því að gera séra Friðrik tortryggilegan. Ég var að tala við mann sem er kominn yfir áttrætt sem varð svo reiður að heyra þetta. Hann hafði verið í Vatnaskógi og sendur til séra Friðriks og talar um þennan mann sem alveg ofboðslega hlýjan og góðan. Sem klappaði strákum alltaf á kollinn og svo framvegis.
Hann gerði nú alla vega meira en það við þennan mann [sem fram kemur í bókinni]. Og í henni eru líka mjög sérstakar lýsingar Friðriks sjálfs á drengjum, sem í ljósi þessa virðast mjög annarlegar. Hvað finnst þér um það?
„Þetta er allt saman teiknað upp með þeim hætti en ég ætla ekkert að fara út í þá sálma.
Laglegir, fallegir, myndarlegir, yndislegir
Í bók Guðmundar er m.a. vitnað til endurminninga séra Friðriks sjálfs og bréfa hans þar sem hann lýsir drengjum sem fallegum, myndarlegum, yndislegum, dásamlegum og þar fram eftir götunum. „Hvar sem hann kemur er laglega stráka að finna og skrifar hann oft niður nöfn þeirra og fæðingardag og ýmsar athugasemdir um þokka þeirra,“ skrifar Guðmundur m.a.
Friðrik stofnaði KFUM á Íslandi árið 1899 eftir margra ára veru í Danmörku þar sem hann hafði kynnst þessu kristilega starfi. Hann er oftast kallaður æskulýðsleiðtogi og hefur verið á stalli sem slíkur í hugum margra. Styttur og kapella í hans nafni er m.a. til marks um þau áhrif sem hann hafði. Borgarstjóri segir koma til greina að „færa“ styttuna af séranum og drengnum sem stendur við Lækjargötu en margt annað minnir á manninn, ekki síst hjá íþróttafélögunum sem hann kom að því að stofna og auðvitað KFUM.
Getur þú sagt mér hver ykkar næstu skref verða? Nú er séra Friðrik alltumlykjandi í starfinu, söngvarnir hans, sagan hans, orðin hans.
„Næstu skref okkar eru að flýta okkur hægt,“ segir Tómas Ingi. Hann hafi ekki haft ráðrúm til að lesa bók Guðmundar frá upphafi til enda. „Þannig að við höfum í sjálfu sér ekkert um það að segja akkúrat núna,“ segir hann um frekari viðbrögð. Stjórn KFUM og KFUK var boðuð á fund síðdegis í dag.
Ef hægt er að leiða í ljós
Í yfirlýsingunni sem samtökin sendu frá sér í gær segir að „ef hægt er að leiða í ljós að stofnandi samtakanna hafi gerst sekur um brot gagnvart börnum, teljum við slíkt uppgjör nauðsynlegt“.
Hvað eigið þið nákvæmlega við með því?
„Eins og þarna kemur fram ætlum við ekkert að hylma yfir söguna eða sannleikann með neinum hætti,“ svarar Tómas. „Það er þá eitthvað sem við þurfum bara að horfast í augu við.“
En getur eitthvað meira komið í ljós en að meint fórnarlömb hans stígi fram?
„Við erum að óska eftir því, það er það sem við erum að hvetja til, að einstaklingar stigi fram með þessi mál. Þangað til verðum við líka aðeins að halda að okkur höndum. Gefa þeim svigrúm. Þetta eru svo viðkvæm mál. Það eru svo margir sem geta átt um sárt að binda.“
En þarna eru drengirnir hans Friðriks og einhverjir þeirra hafa greint frá þessu áreiti eða ofbeldi. Eigið þið ekki að standa fyrst og fremst með þeim?
„Ég veit ekki hvert þú ert að fara með þetta samtal. Að sjálfsögðu stöndum við með þolendum ofbeldis. Það er að sýna sig í okkar starfi og hefur gert síðustu tuttugu árin.“
Veist þú meira um málið? Hafðu samband við sunna@heimildin.is
Athugasemdir (3)