Örlítið þreytt og úrill eftir andvökunótt með barninu mínu hugsaði ég: „Erum við ekki komin lengra en þetta?“ Af hverju, þróunarfræðilega, hefur manneskjan ekki bombað meiri slagkraft í tanntökur og vaxtarkippi á daginn svo foreldrar hvílist á nóttunni? „Það er svo mikið í húfi, hvað með örugga tengslamyndun?!“ sagði ég upphátt við sjálfa mig og steytti hnefanum í átt að loftinu. Þarna sat ég, úrill, með funheita fartölvu í kjöltunni að klára pistlaskrif – við hlið mér sat barnið mitt, sem er nógu ungt til að vera enn á brjósti og nógu gamalt til að nota það sem sjálfsala, og horfði á afþreyingu á öðrum skjá á meðan.
Hugur minn leitaði til kvennaverkfallsins og hvort ég hefði nokkru við umræðuna að bæta. Verkfallið sjálft hófst á miðnætti kvöldið áður en einmitt um það leyti hófst þriðja vaktin mín, sem ekkert fær stöðvað, og síst af öllu ég sjálf. Þriðja vaktin er eins og þriðja heilahvelið á rándýrri og orkufrekri sjálfsstýringu, sem heldur utan um heilan ættbálk með hugrænum gögnum. Rannsóknir sýna að konur eru í eðli sínu ekki betri í að sinna mörgum verkefnum í einu. Við erum hins vegar flest alin upp eins og þetta sé óumflýjanleg staðreynd. Ég óska engri konu eða kvár þess hlutskiptis að vera kallað ofurkona eða ofurkvár. En líkt því að vera ofurhetja eins og Ofurmaðurinn er þriðja vaktin kryptónítið okkar. Og ef, eins og rannsóknir sýna fram á, karlmenn ofmeta framlag sitt til heimilis og konur vanmeta það, þá breytist kryptónítíð í andefni og heimilið bara springur í loft upp.
Litla barnið mitt sleit sig svo hratt af brjóstinu að yfir lyklaborð og skjá sprautaðist brjóstamjólkin. Þá var tímabært að halda áfram því mikilvægasta, að sinna öruggri tengslamyndun á meðan þriðja vaktin suðar í bakgrunninum, jú og þrífa fartölvuna. Erum við ekki komin lengra en þetta?
Athugasemdir (2)