Síðastliðið vor birti Heimildin grein eftir mig þar sem ég fjallaði um hvalveiðar út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Ég hafði þá nýlega haldið erindi þar sem ég leitaðist við að greina hvort hvalveiðar féllu að hefðbundnum rökum sem réttlæta skotveiðar á spendýrum. Þegar ég skrifaði greinina var eftirlitsskýrsla MAST um veiðar Hvals árið 2022 ekki komin út og í sjálfu sér var ég ekki að hugsa um veiðar fyrirtækisins á Íslandi þegar ég samdi erindið sem greinin var svo unnin upp úr. Mig óraði ekki fyrir þeirri atburðarás sem átti eftir að fara í gang á næstu vikum og bjóst svo sem við að vertíðin 2023 yrði ekki frábrugðin fyrri árum, ef fyrirtækið ætlaði yfirleitt að halda til veiða. En eins og allir vita sem fylgst hafa með fjölmiðlum í sumar átti ýmislegt eftir að eiga sér stað. Þessi grein sem birtist hér er nokkurs konar tilraun mín til að fara yfir og gera upp einkennilegan tíma sem mig grunar að eigi eftir að hafa töluverð áhrif á næstu misserum og árum.
Áður en ég fer yfir atburði sumarsins langar mig til að fara hratt yfir niðurstöður mínar frá því í fyrri grein. Niðurstöðurnar voru þær að veiðar á stórhvelum eins og langreyði væru ekki réttlætanlegar. Hvalkjöt er ekki mikilvæg fæða fyrir okkur, hvorki næringarlega né menningarlega, við þurfum ekki að grisja stofninn og langreyðar geta ekki talist „meindýr“ í íslensku vistkerfi. Þá ræddi ég einnig hliðarskilyrðið um mannúðlegar veiðar sem þarf að vera til staðar þannig að önnur rök séu gild í umræðunni. Vopn þurfa að vera þannig úr garði gerð að þau tryggi skjóta aflífun, skytta þarf að vera vön og á öruggu undirlagi, tryggja þarf að mögulegt sé að skjóta umsvifalaust aftur ef fyrra skot dugir ekki, veiðitímabil þarf að valda sem minnstum skaða og álagi á dýrin, og að lokum þarf að vera hægt að ákvarða fyrirfram kyn og aldur þeirra dýra sem stendur til að fella. Ekkert af þessum atriðum eru sérstaklega umdeild og hélt ég að fyrirlestur minn yrði kannski helst gagnrýndur fyrir að innihalda fullmikið af sjálfsögðum sannindum og varla upplýsandi. Öll þessi atriði eru vel þekkt í umræðu um veiðar á stórhvelum og ástæður þess að næstum öll lönd heimsins hafa látið af þessum veiðum. Alþjóðahvalveiðiráðið er ekki samansafn af vitleysingum, eins og Íslendingum var talin trú um árum saman.
Eftirlitsskýrsla MAST og frestun hvalveiða
Eftirlitsskýrsla MAST sem birtist loks seint í vor eftir að Hval hafði verið gefinn langur frestur til að koma með svör og viðbrögð, gaf ágæta innsýn inn í hvernig veiðar á langreyðum fara fram. Seint í maí barst svo fagráði um velferð dýra beiðni um að svara einfaldri spurningu um hvort mögulegt sé að tryggja mannúðlega aflífun stórhvela við veiðar. Eftir lestur eftirlitsskýrslunnar, áhorf á myndbönd frá vertíðinni 2022, og viðtöl við sérfræðinga um hvalveiðar (meðal annars norskan ráðgjafa Hvals um veiðarnar) komst ráðið að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að tryggja mannúðlega aflífun stórhvela eins og langreyða með skotvopnum. Sú niðurstaða er ekki óvænt enda vitnaði ráðið meðal annars í vísindagrein eftir ráðgjafa Hvals þar sem hann staðfestir að ekki sé hægt að tryggja mannúðlega aflífun hvala. Staðfesti hann þá skoðun sína á fundi með ráðinu. Eins og allir vita taldi matvælaráðherra sig ekki geta annað en frestað veiðum Hvals eftir að þessi gögn lágu fyrir enda frumskylda ráðherra að hlíta rökum í þeim málum sem liggja á hennar borði.
Ákvörðunin um framhald veiða mun því einungis hvíla á herðum ráðherra.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa og grunar mig að margir þeirra sem höfðu hæst um ákvörðun ráðherra muni í framtíðinni ekki líta vel út þegar við ræðum sumarið 2023. Óvæntustu aðilar gerðust stjórnsýslufræðingar og höfðu uppi stór orð um fagráðið („hið svokallaða fagráð“, eins og það var nefnt) án þess að kynna sér hlutverk þess eða verkefni að ráði. Að minnsta kosti þrír ráðherrar opinberuðu að þeir skilja ekki muninn á nauðsynlegum og nægjanlegum skilyrðum þegar þeir héldu því fram að sjálfbærni veiðanna væri ástæða til að stunda þær. Vissulega er möguleiki á því að langreyðakvótinn uppfylli það nauðsynlega skilyrði að vera sjálfbær en það getur ekki talist nægjanlegt skilyrði til að leyfa veiðar. Maður gerir sér ekki grein fyrir því hvernig umhverfisráðherra ætlar að standa að friðun vissra fuglategunda á Íslandi ef nóg er í hans huga að stinga upp á sjálfbærum kvóta til að leyfa veiðar. Að lokum fóru talsmenn sjávarútvegsins á Íslandi hamförum yfir ákvörðun matvælaráðherra. Það þarf þó ekki að fara mörgum orðum um þá orðræðu enda var hún stundum með eindæmum mótsagnakennd. Skemmtilegast þótti mér þó að sjá skrautlegan málflutning framkvæmdastjóra SFS. Stuttu eftir að hafa blásið upp mikilvægi sumarstarfa á hvalveiðivertíð þurfti sami framkvæmdastjóri að tala niður mikilvægi sumarstarfa á strandveiðum, enda væru slíkar veiðar bara „spennandi áhugamál“ fyrir strandveiðimenn.
Einn angi þeirra viðbragða sem komu fram eftir að ráðherra hafði frestað upphafi hvalveiða kom mér sérstaklega á óvart. Eftir að Kristján Loftsson hafði lokað sig af í nokkra daga með ráðgjöfum sínum og neitað að tala við fjölmiðla birtist hann loks með þau skilaboð að ráðherra væri kommúnisti og að ég hafi verið vanhæfur til að svara spurningunni sem beint var til fagráðsins. Það var kannski ekki við því að búast að Hvalur vildi ræða efnislega niðurstöðu fagráðsins eða einstök atriði úr eftirlitsskýrslu MAST, en það kom mér á óvart að viðbrögðin voru ekki á hærra plani. Fagráðið tók enga ákvörðun í þessu máli og var bara yfirvöldum til ráðgjafar. Fagráðið gefur vissulega stundum út leyfi til dýratilrauna og þarf þá að huga að strangri stjórnsýslu. En ráðið er einnig nýtt til stuðnings og ráðgjafar við yfirvöld, enda ráð sérfræðinga um velferð dýra. Fyrirtækið Hvalur sótti ekki um leyfi til dýratilrauna til fagráðsins síðastliðið sumar. Ráðinu barst bara einföld spurning sem svarað var á eins einfaldan máta og mögulegt var. Eftir að nokkrum síðum hafði verið eytt í laugardagsblaði Morgunblaðsins í að gera mig og fagráðið tortryggilegt með útúrsnúningum gat ég ekki orða bundist og birti grein á Vísi þar sem ég frábað mér fleiri feilskot úr tölvu Kristjáns Loftssonar.
Sumarið og haustið 2023
Umræðan hélt svo áfram í allt sumar og snerist hún oftar en ekki minnst um hvalveiðarnar sjálfar og meira um íslensk stjórnmál og ríkisstjórnarsamstarfið. Fjöldi íslenskra stjórnmálamanna reyndi að færa okkur aftur á nítjándu öld með því að tala um villt spendýr sem „auðlind“. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að sjá slíkt orðalag í samtímanum. Og fleira kom fram í umræðunni sem maður hefði ekki getað ímyndað sér áður en vertíðinni var frestað. Þar bar kannski hæst furðuleg tilraun til að halda því fram að veiðar á stórhvelum gætu stutt Ísland í að standa við loftslagsmarkmið. Til að byrja með reyndi fólk að leiða þessa tilraun hjá sér og gera ástandið ekki vandræðalegra en orðið var, en þegar leið á sumarið gat helsta vísindafólk landsins ekki setið lengur á sér og birti svar sem vonandi endanlega lokaði á fleiri slíkar tilraunir í framtíðinni.
Undir lok ágúst fékk svo matvælaráðherra í hendurnar skýrslu starfshóps sem skipaður hafði verið til að fara nánar í saumana á hugmyndum Hvals um hvernig mætti bæta veiðarnar. Skýrslan var að mörgu leyti mjög góð og heiðarleg. Ég svaraði því til í sjónvarpsviðtali að þarna hefðu kurteisir embættismenn farið ítarlega yfir hugmyndir Hvals um hvernig mætti bæta veiðarnar og tekið ágætlega í sumar tillögurnar. Sem betur fer settu þau niður kurteisisgrímuna og slógu endanlega út af borðinu fjarstæðukenndar hugmyndir Hvals um að nota rafmagn við veiðarnar. Jafnvel helsti ráðgjafi fyrirtækisins um hvalveiðar hefur í fræðilegri grein tekið af allan vafa um að slíkar hugmyndir séu ekki til að eltast við. Niðurstaða skýrslu starfshópsins var á þá leið að vissulega væri hægt að bæta ýmislegt í veiðum Hvals. Skýrslan staðfestir þó niðurstöðu fagráðs um velferð dýra og heldur því hvergi fram að með úrbótum sé hægt að tryggja mannúðlega aflífun stórhvela. En í ráðuneytinu var spurningin frá í byrjun sumars ekki lengur sú mikilvægasta. Nú var ekki lengur spurt hvort það væri hægt að tryggja mannúðlega aflífun heldur einungis hvort mögulegt væri að bæta veiðarnar. Og nýtt Íslandsmet var sett í að stökkva frá skýrslu til reglugerðar, sem leiddi til þess að frestun hvalveiða var ekki framlengd. Veiðar á langreyðum hófust aftur í september undir nýrri reglugerð.
Í viðtali við Heimildina spáði ég því að vertíð í september myndi kannski skila einhverjum tugum hvala. Mig grunaði að þeir yrðu nálægt 40 en sem betur fer rættist ekki sú spá, mögulega meðal annars vegna aðgerðasinna sem töfðu veiðar um nokkra daga. Hvalirnir urðu 24, og vilja sumir meina að talan 25 sé réttari enda fékk heimsbyggðin að sjá næstum fullvaxta kálf leka út úr kvið móður sinnar á skurðarplaninu. Eftirlitsskýrsla um þessa stuttu vertíð 2023 er enn ekki komin út. Við vitum þó sitthvað um það sem gengið hefur á. Reglugerðin sem skrifuð var í flýti sannaði þrátt fyrir allt gildi sitt. Hvalur 8 fór ekki til veiða í nokkra daga eftir að gerðar voru athugasemdir við eitt drápið. Maðurinn sem hafði árum saman fengið að ganga út og inn um ráðuneyti sjávarútvegs á Íslandi eins og honum sýndist ákvað að svara þessum eðlilegu viðbrögðum MAST með því að kalla fagfólk stofnunarinnar „stimpilelítu“. Hver veit nema honum svíði að geta ekki lengur látið ráðherra stimpla allt sem honum kemur í hug.
Það er ómögulegt að segja hvað næstu misseri bera í skauti sér varðandi hvalveiðar Íslendinga. Septembervertíðin var of stutt til að það sé nokkuð hægt að læra af henni og því mun eftirlitsskýrslan aldrei verða eins mikilvægt gagn og eftirlitsskýrslan frá árinu 2022. Frávik við veiðarnar áttu sér stað en fólki mun greina á um hvort þau hafi í raun verið fleiri eða færri en búast mátti við. Gefa þarf út nýtt leyfi til að veiðar geti haldið áfram á næsta ári. Hendur ráðherra verða ekki lengur bundnar af útgáfu fyrra leyfis. Fyrir Alþingi liggur tillaga um að banna hvalveiðar. Það er ólíklegt að sú tillaga geri mikið meira heldur en að hvetja kjörna fulltrúa okkar til að ræða um veiðar á stórhvelum. Ákvörðunin um framhald veiða mun því einungis hvíla á herðum ráðherra. Ef dýravelferðarsjónarmið verða höfð í huga þá er ljóst að nýtt leyfi verður ekki gefið út og engar langreyðar veiddar næsta sumar. Svo má ekki heldur gleyma því að það eru til fjölmörg önnur rök heldur en dýravelferðarrök gegn hvalveiðum. En maður veit þó aldrei hvað gerist. Úreltar hugmyndir um villt spendýr sem auðlind, hugsanaruglingur um nauðsynleg og nægjanleg skilyrði fyrir veiðum, gamaldags hagsmunagæsla, nýjar spurningar sem snúast ekki um hvort hægt sé að tryggja mannúðlega aflífun, og fjölmörg önnur atriði gætu að lokum orðið ofan á í matvælaráðuneytinu.
Athugasemdir