„Þennan dag er ljóst að Sólar mun veita lágmarksþjónustu og í ákveðnum tilvikum enga þjónustu. Við hjá Sólar óskum því eftir stuðningi ykkar í þessari baráttu og erum þakklát fyrir sýndan skilning,“ sagði í bréfi sem Einar Hannesson forstjóri ræstingafyrirtækisins Sólar ehf sendi viðskiptavinum sínum fyrir rúmri viku.
Hjá fyrirtækinu starfa í kringum 400 manns við ræstingar ýmissa fyrirtækja og stofnana. Lang stærstur hluti, eða um 85 prósent, eru konur. Fyrirtækið tilkynnti jafnframt starfsmönnum sínum að laun yrðu greidd á kvennaverkfallsdaginn.
Í dag eru einungis 30 manns við störf hjá fyrirtækinu, flestir í störfum á heilbrigðisstofnunum, sem nauðsynlega varð að manna.
Einar sagðist í samtali við Heimildina þakka það góðu samstarfi við viðskiptavini og starfsfólk að hægt hafi verið að lágmarka viðveru í dag. Konur og kvár sem ekki mæti fái auk daginn greiddan, ekki eingöngu þann tíma sem skipulögð dagskrá er vegna verkfallsins.
Það gera ekki öll fyrirtæki, eins og fram hefur komið. Fyrirtækið Dagar hf., sem er eitt stærsta sinnar tegundar í ræstingaþjónustu og sinnir meðal annars mörgum stofnunum ríkis og sveitarfélaga, ætlar ekki að greiða laun sinna starfskvenna- og kvára í dag, nema þá rétt á meðan á skipulagðri dagskrá stendur á boðuðum útifundum. Þetta var tikynnt starfsmönnum en jafnframt sagt að „reynt yrði eftir fremsta megni“ að verða við því, vilji starfsfólk sækja slíka fundi. Starfsfólk er beðið að ræða útfærslu þess við næsta yfirmann sem fyrst.
Athugasemdir