„Þeir hafa verið ótrúlega skemmtilegir, krefjandi og langir. Ég er spennt fyrir því sem mín bíður,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um fyrstu dagana á stóli formanns.
Alma Ýr var kjörin formaður Öryrkjabandalagsins á aðalfundi réttindasamtakanna í byrjun mánaðarins. Hún hefur starfað á skrifstofu ÖBÍ í sjö ár sem lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum og réttindum fatlaðs fólks og fannst formennskan rökrétt næsta skref. „Við erum að berjast með aðildarfélögunum okkar og svo erum við að veita ráðgjöf og þá fékk maður þetta beint í æð hvað það er sem er raunverulega að gerast. Það endurspeglast af götunni inn á borð til okkar. Það er það sem fékk mig til að hugsa að kannski maður ætti að láta reyna á þetta, vitandi og hafandi og búandi að þessari reynslu og þekkingu.“
Alma Ýr var 17 ára gömul þegar hún fékk blóðsýkingu í kjölfar heilahimnubólgu sem olli því að hún missti báða fótleggi og framan af fingrum. Tólf árum eftir veikindin fékk hún hlaupafætur frá Össuri sem breyttu lífi hennar. Hún segir reynsluna skipta máli í starfi hennar sem formaður ÖBÍ. „Ég hef ákveðna sýn inn í þennan raunveruleika. Ég veit hvernig það er að mæta hindrunum og fordómum og kerfinu, þó svo að ég geti talað um mig sem algjöra forréttindakonu í þeim efnum, þá veit ég alveg hvað felst í þessu. Þú gætir aldrei verið í þessu ef þú ættir ekki þá reynslu að baki.“
Formannskjörið var æsispennandi, Alma Ýr hlaut 57 atkvæði en Rósa María Hjörvar, doktorsnemi í bókmenntafræði og stjórnarkona í stjórn Blindrafélagsins, 56. Það kom Ölmu Ýri ekki á óvart hversu jöfn baráttan var. „Það er pínu lúxusvandamál hjá ÖBÍ að hafa tvo frambærilega frambjóðendur sem gerði þetta enn þá meira spennandi og gaf meiri vigt inn í aðildarfélögin og baráttuna að þetta sé staða sem fólk sækist eftir. Maður fer ekkert í svona nema að hafa brennandi áhuga og gera þetta af hugsjón og virðingu við málaflokkinn. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir ótrúlega fjölbreyttum og stórum hópi sem í raun telur 15 prósent af þjóðinni.“
„Það er engin hallarbylting í gangi“
Alma Ýr ætlar að halda áfram á þeirri vegferð sem ÖBÍ var undir stjórn Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur. „Það er engin hallarbylting í gangi. Þetta eru alltaf ákveðnar stoðir sem þarf að fylgja fast áfram. Stærsta stoðin er alltaf framfærsla og lífskjör, almannatryggingakerfið. Það er ákveðin vinna í gangi og við munum halda áfram í henni og gefa ekkert eftir í þeim efnum.“
Eitt af helstu baráttumálum Ölmu Ýrar í kosningabaráttunni voru málefni barna en hún hefur miklar áhyggjur af fötluðum börnum. „Gífurlegar áhyggjur. Og það endurspeglast kannski mest í því að það er ekki fyrir hendi viðeigandi stuðningur og þjónusta sem þyrfti að vera. Hvernig stendur á því að það eru svona margir biðlistar og það eru svona mörg börn á biðlistum? Hvað veldur þessum biðlistum? Hvað þýðir það að vera á biðlista? Þetta er ótrúleg flækja sem þarf að greiða úr. Ég trúi því ekki að þetta þurfi að vera svona.“ Alma Ýr segir farsældarlöggjöfina ekki ná að greiða úr þessari flækju. „Þetta er kynslóðin sem kemur til með að taka við af okkur og ég vil ekki sjá þetta svona. Ég mun beita mér mjög mikið fyrir þessu.“
Athugasemdir (1)