Við heyrum mikið talað um jafnréttisparadísina Ísland, við séum fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnrétti kynjanna og eigum að vera stolt af sögu kvennabaráttu á Íslandi. Og það erum við sannarlega. Kvennafrídagurinn 1975 markaði þáttaskil í jafnréttisbaráttu á Íslandi og sterk kvennasamstaða hefur skilað okkur mörgum mikilvægum áföngum í átt að auknu jafnrétti. En við búum enn í samfélagi þar sem ójafnrétti þrífst á flestum sviðum samfélagsins og því er enn verk að vinna.
Baráttan fyrir jafnrétti er leiðarljós í allri starfsemi BSRB, en konur eru um 70% félagsfólks. Ef Ísland á að verða raunveruleg jafnréttisparadís verður að grípa til róttækra og framsækinna aðgerða – og um það snýst kvennaverkfallið næsta þriðjudag.
Leiðréttum vanmat á störfum kvenna
Launajafnrétti var leitt í lög fyrir áratugum síðan en við eigum enn mjög langt í land. Við vitum að helsti orsakavaldur launamunar kynjanna á Íslandi er hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er, þar sem konur og karlar gegna ólíkum störfum á vinnumarkaði. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks á opinberum vinnumarkaði, í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntakerfinu og laun þeirra eru í engu samræmi við mikilvægi starfa þeirra vegna sögulegrar og kerfisbundinnar mismununar. Þessar konur halda uppi velferðarkerfinu og það er eins og samfélagið telji sjálfsagt að þær geri það á afsláttarkjörum. Krafa BSRB, og annarra aðstandenda kvennaverkfallsins, er að laun kvennastétta verði leiðrétt út frá raunverulegu verðmæti þeirra og mikilvægi þeirra í samfélaginu.
Brúum umönnunarbilið
Konur sinna enn ólaunaðri vinnu í mun meira mæli en karlar. Þar er átt við umönnun barna og ættingja, ýmis störf inni á heimilum og svokölluðu þriðju vaktina. Mikið framfaraskref var tekið þegar fæðingarorlof var lengt í 12 mánuði, en konur taka enn töluvert lengra fæðingarorlof en karlar og eru því lengur frá vinnumarkaði eftir að hafa eignast barn. Eftir að fæðingarorlofi lýkur tekur svo við umönnunarbilið, það er tíminn þangað til barn kemst inn á leikskóla eða í aðra örugga dagvistun. Fyrir stærstan hluta fjölskyldna er sá tími talinn í mánuðum eða árum og konur minnka frekar við sig vinnu eða taka sér hlé frá vinnumarkaði til þess að brúa þetta bil. Konur verða þannig frekar af tekjum og starfstækifærum en karlar. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin þar sem börn eiga ekki lögbundinn rétt til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi. Fullu jafnrétti verður ekki náð nema við brúum bilið, metum ólaunuð störf kvenna að verðleikum og að karlar taki á sig ábyrgð að minnsta kosti til jafns við konur á annarri og þriðju vaktinni.
Útrýmum ofbeldi og áreitni
Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi er faraldur á Íslandi, á heimilum, í samfélaginu og á vinnustöðum. Um þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Ofbeldið er ekkert minna hér í jafnréttisparadísinni en þeim löndum sem við berum okkur saman við. Sumir hópar eru í meiri hættu en aðrir, eins og fatlað fólk, kynsegin fólk og konur af erlendum uppruna. Hættan er einnig meiri fyrir konur og kvár í þjónustu- og verslunarstörfum og í umönnunarstörfum. Þetta hefur allt verið staðfest með rannsóknum. Ótalmargar #metoo sögur kvenna af áreitni og ofbeldi á vinnustöðum segja sömu sögu. Við verðum að hætta að líta á ofbeldi og áreitni sem einangruð samskipti milli gerenda og þolenda og einblína á rótina, misrétti og valdaójafnvægi sem birtist í vinnustaðamenningu sem er beinlínis hættuleg fyrir konur og kvár. Þá er nauðsynlegt að fara að setja þá sem beita ofbeldi í brennidepil í baráttunni gegn kynbundnu- og kynferðisofbeldi.
Aðgerðir strax!
Það er sorglegt og óþolandi að kröfur aðstandenda kvennaverkfallsins 2023 séu að mörgu leyti þær sömu og árið 1975. Við sem samfélag virðumst vera orðin samdauna stöðunni og teljum annaðhvort að fullu jafnrétti sé náð eða að það komi með tímanum. BSRB er stoltur aðstandandi kvennaverkfalls, ásamt á fjórða tug samtaka kvenna, launafólks og hinsegin fólks og við hvetjum allar konur og kvár sem mögulega geta til þess að leggja niður launuð sem ólaunuð störf í heilan dag næsta þriðjudag til að knýja fram jafnrétti strax.
Sjáumst í baráttunni!
Athugasemdir