Reglulegt og endutekið þema í bókum og kvikmyndum er að hetja sögunnar ákveður að stíga inn í slæma atburðarás og breyta henni þrátt fyrir að við ofurefli sé að etja. Sem dæmi má nefna þríleikinn Matrix þar sem hetjan Neo rís alltaf upp aftur og aftur eftir að hafa tapað bardaga við gervigreindarvondakallinn Mr. Smith. Þegar Mr. Smith spyr Neo hvers vegna hann gefist ekki upp, hann viti nú þegar að hann tapi í hvert sinn, svarar Neo: „Því ég vel að gera það (Because I choose to).“
Eftir nokkrar vikur verður árlegur fundur aðila loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna haldinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Conference of the Parties (COP). Sá verður tuttugasti og áttundi slíki fundurinn og kemur í kjölfar nýjustu svörtu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, þeirrar sjöttu. Í henni kemur fram að nú sé loka-lokaviðvörun til að bregðast við hættulegum loftslagsbreytingum af mannavöldum, en nefndin hefur áður lýst niðurstöðum sínum sem lokaviðvörun. Þessar skýrslur hafa orðið skýrari með hverri útgáfu og líka dekkri.
Skýrslurnar og fundirnir hafa ekki skilað árangri. Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu vex ár frá ári með örfáum undantekningum tengdum kreppum. Þá lítur út fyrir að árið 2024 verði það langhlýjasta frá því að mælingar hófust þar sem nú koma saman hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og veðurfyrirbrigðið El Nino. Við getum því átt von á enn verri hamförum á næsta ári þar sem viðkvæmustu hóparnir sem minnsta ábyrgð bera á loftslagshamförum greiða með öllu lífsviðurværi sínu, eða sínu lífi og barna sinna fyrir mengun þeirra ríku og valdamiklu.
Tilefnið er því ærið til þess að ætla að fundur aðila loftslagssamnings SÞ í næsta mánuði ætti að vera örvæntingarfull síðasta tilraun til þess að grípa til harðra, umfangsmikilla, umbreytandi og árangursríkra aðgerða. En sú er ekki raunin. Fundurinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er strax orðinn skrípaleikur og merkileg tilraun til þess að snúa sannleikanum um stöðu og aðgerðir í loftslagsmálum á haus. Ekki nóg með að fundurinn sé haldinn í landi þar sem mannréttindi eru að engu höfð, að ævintýralegur auður landsins byggi á sölu jarðefnaeldsneytis og misskipting þar sé gríðarleg, heldur er forseti fundarins líka forstjóri ríkisolíufyrirtækis landsins. Eins og öll vita er bruni jarðefnaeldsneyta stærsti orsakavaldur hamfarahlýnunar af mannavöldum. Forseti fundarins vill ekki að notkun jarðefnaeldsneyta verði hætt, heldur aðeins að dregið verði úr henni og að það verði ekki gert fyrr en orkuframleiðsla án jarðefnaeldsneyta geti alveg komið í staðinn. Þetta þýðir í raun engar breytingar og engar lausnir heldur enn hraðari hlýnun og enn meiri ósjálfbær nýting náttúruauðlinda næstu áratugi.
Í þessu ljósi er rétt að spyrja hvort loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna og ráðstefnur aðila að honum (COP-ráðstefnur), þjóni einhverjum tilgangi eða hvort þær séu jafnvel að gera illt verra. Valdhafar sem ráðstefnuna sækja hafa hingað til ekki náð að koma neinum böndum á bruna jarðefnaeldsneyta og val á staðsetningu og forseta næstu COP-ráðstefnu gefur tilefni til þess að spyrja hvort það sé e.t.v. ekki einu sinni tilgangurinn. Það er hið minnsta ljóst að ekki stendur til að umbreyta efnahagskerfum heimsins þannig að þau geti starfað í þágu samfélaganna án þess að rústa náttúru og umhverfi sem samfélögin hvíla á.
Með öðrum orðum, staðan hefur aldrei verið jafnslæm, aldrei hafa jafnmargir jarðarbúar fengið að kenna á afleiðingum loftslagshamfara og aldrei hafa jafnmörg verið meðvituð um vandann. Á sama tíma er ekkert sem bendir til þess að valdhafar taki vandann nógu alvarlega til að fara í umbreytingar sem draga raunverulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
„Nei, það er ekki best að gefast upp því það er einfaldlega ekki hægt“
Þá er eðlilegt að spyrja hvort það sé ekki bara best að gefast upp. Við ofurefli er að etja, fjármagnseigendur og stjórnmálafólk vilja halda í óbreytt kerfi þrátt fyrir augljósar og hryllilegar afleiðingar þess sem versna með hverju árinu. Þau sem hafa getu til að bregðast við gera það ekki, með hinum ýmsu afsökunum. Alltaf virðast þó vera til auðlindir til að ráðstafa í stríðsrekstur og björgunarpakka fyrir fjármálakerfin.
Mitt svar og það sem ég hef lært eftir að hafa fylgst með loftslagsmálum í 30 ár er: Nei, það er ekki best að gefast upp því það er einfaldlega ekki hægt. Leiðin til þess að halda baráttunni áfram, blóðga sig við að berja hausnum í steininn við að fá valdhafa til þess að bregðast raunverulega við, er að horfa á málstaðinn og spyrja hvort hann sé baráttunnar virði. Málstaðurinn er fyrst og fremst að forða dýrum og plöntum frá útrýmingu, forða hruni vistkerfa og forða fátækasta hluta mannkyns frá frekari hörmungum af völdum loftslagshamfara. Að draga úr þjáningu af mannavöldum. Að sýna að mannkynið hefur getu og hæfni til þess að bregðast við, þróast áfram og umbreyta kerfum og samfélögum til hins betra bæði fyrir náttúruna og fyrir hvert annað. Líkast til er þó rétt að gefa upp á bátinn trú á að COP-ráðstefnurnar skili einhverjum árangri.
Við sitjum öll í þessum báti sem er hriplekur og skipstjórinn vitfirrtur krefst fullrar ferðar áfram beint á ísjakann (sem er að vísu að bráðna). Við munum sökkva með skipinu ef við gefumst upp á að reyna að koma vitinu fyrir skipstjórann og já, það eru miklar líkur á að skipið sökkvi en án inngrips er það gefið.
Ef við getum ekki valið að berjast fyrir besta og mikilvægasta málstað sem hægt er að finna, bara vegna þess að líkurnar á sigri eru ekki okkur í hag, eigum við skilið að sökkva með skipinu. Það eru engar aðrar leiðir en að velja baráttu fyrir betri heimi fram yfir uppgjöf. Því annars er maður bara lítið skítseiði. Betra er að sökkva með skipinu og eiga það ekki skilið en að sökkva með skipinu og eiga það skilið. Verðum því eins og hetjur sagnanna, tökum þátt í að koma valdhöfum í skilning um að lífvænleg framtíð fyrir öll börn, líka þau fátæku, plöntur og dýr er það eina sem kemur til greina. Með því hugarfari öðlumst við orku og getu til aðgerða til að halda áfram.
Athugasemdir