Nýr fjármálaráðherra telur eitt af mikilvægustu verkefnum sínum að klára sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Nú veit alþjóð að hingað til hefur þetta ekki gengið sem allra best og vonandi hafa þeir hnökrar sem upp hafa komið kennt okkur hvað ber að varast.
Þeir sem hafa fylgst með innlendum verðbréfamarkaði á síðustu áratugum eru flestir sammála um eitt. Okkur hefur aldrei tekist að auka erlent eignarhald sem neinu nemur en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við er erlent eignarhald á verðbréfamarkaði regla frekar en undantekning. Þannig er til dæmis erlent eignarhald á stærstu bönkum á Norðurlöndunum umtalsvert og þá eiga erlendir fjárfestar stóran hluta af útgefnum skuldabréfum opinberra aðila. Hérlendis hefur hins vegar ekki tekist að fá erlenda aðila til að dreifa þeirri áhættu sem felst í að eiga áhættufjármagn í atvinnurekstri (fyrir utan að sjávarútvegurinn og orkufyrirtækin skulda erlendum bönkum einhverjar fjárhæðir). Skuldir opinberra aðila eru síðan svo til eingöngu í eigu innlendra aðila.
„Nú veit alþjóð að hingað til hefur þetta ekki gengið sem allra best“
Margir sem hafa fylgst með þessari þróun eru líka sammála um hvernig á þessu standi. Svarið er íslenska krónan – örmynt sem erlendir aðilar hafa ekki áhuga á að fjárfesta í. Erlendum fjárfestum finnst í góðu lagi að eiga skuldir sjávarútvegsins og orkufyrirtækjanna enda eru þetta útflutningsfyrirtæki með tekjur í erlendri mynt. Þannig hefur gengi íslensku krónunnar á hverjum tíma engin áhrif á afborganir þessara lána. Hluti af þeim tekjum sem þessi fyrirtæki fá í erlendri mynt fara beint til þessara lánardrottna. Engin gjaldmiðlaáhætta.
Í fyrri einkavæðingu bankanna rétt eftir aldamót voru uppi raddir sem kölluðu á erlent eignarhald og töldu sumir að það hefði tekist að hluta þegar Búnaðarbankinn var seldur. Nú þegar seinni einkavæðing er hafin með sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og hugmyndum um að ríkið eigi að selja hluta af Landsbankanum er rétt að halda þessum hugmyndum um erlent eignarhald á lofti.
Ágætis áminningu um þetta má finna í ávarpi stjórnarformanns Íslandsbanka á aðalfundi 2019:
Svo mörg voru orð Friðriks Sophussonar.
Í þessu ljósi – og hvernig til hefur tekist með fyrri sölur á eignarhlutum í bankanum – er eðlileg krafa að áframhaldandi einkavæðing eigi aðeins að fara fram ef hægt verður að finna erlenda langtímafjárfesta. Fjárfesta með þekkingu, reynslu og sambönd á sviði bankarekstrar ásamt óaðfinnanlegu orðspori hvað stjórnarhætti varðar og sem eru tilbúnir til að skuldbinda sig til lengri tíma hvað eignarhaldstíma varðar.
Ef slík útfærsla kallar á tilteknar lagabreytingar þá skulum við muna að lagabálkar eru mannanna verk og því gerlegt að breyta þeim ef áhugi er fyrir hendi.
Höfundur er hagfræðingur
Meinar þú ekki hvort ríkisÓstjórnin eigi að selja bankann OKKAR ?
Því við þjóðin (fólkið í landinu), erum ríkið.
Ég og 80% af „ríkinu“ þjóðinni segjum NEI!
☻g við þurfum engann hagfræðing til að diskútera það fyrir okkur hvernig það sé best að losa okkur við vel mjólkandi kýr.