„Það er svolítið skrýtið að standa fyrir friðarráðstefnu þessa dagana þegar það er svona ófriðsamlegt í heiminum,“ segir Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Alþjóðleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs fór fram í síðustu viku og er þetta í sjöunda sinn sem ráðstefnan er haldin. Þörfin hefur líklega aldrei verið meiri en nú að sögn Piu. „Eins og einhver sagði á ráðstefnunni, þá er þetta náttúrlega tíminn sem við eigum að vera að tala um frið.“
Pia viðurkennir að það hafi óneitanlega verið þungt yfir þegar ráðstefnan hófst á þriðjudag. „Það var svolítið erfitt að byrja ráðstefnuna, ef ég á að segja alveg eins og er, með svona hræðilegar fréttir dynjandi á okkur af ástandinu úti um allan heim og síður en svo minnkandi átök.“
„Það er skrýtið að standa fyrir friðarráðstefnu þegar það er svona ófriðsamlegt í heiminum“
Átök milli Ísraels og Palestínu stigmögnuðust 7. október þegar Hamas-samtökin í Palestínu gerðu eldflaugaárás á Ísrael sem er sú mannskæðasta í áratugi. „Maður fann fyrir alvarleikanum og hvað við þurfum að reyna að standa saman. Ekki bara fólk sem er í pólitík og ákvarðanatöku, heldur þurfum við sem sinnum rannsóknarvinnu og fræðimennsku að hjálpa til við að finna lausnir og greina ástandið og hversu mikilvægt það er,“ segir Pia.
Átökin bætast í hóp annarra yfirstandandi stríða og átaka, svo sem stríðsins í Úkraínu, átaka í Súdan, baráttunni um sjálfstætt Nagorno-Karabakh hérað, mótmæli í Íran og stríðið í Jemen. Og svo mætti lengi telja. Pia segir aukna skautun koma til með að hafa áhrif á umræðuna um ástandið í heiminum. „Sá grunntónn og rauði þráðurinn í þessari umræðu er að fólk geri sér grein fyrir því að við erum á þeim tímum núna og stefnum inn í, ábyggilega til nánustu framtíðar, mjög erfiða tíma með aukinni skautun og kannski mun minna umburðarlyndi fyrir mismunandi afstöðu fólks. Þetta allt saman hefur svo mikil áhrif.“
Aðalræðumaðurinn á friðarráðstefnunni í ár var Amina J. Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Meðal þess sem fram kom í hennar máli er að vantrú á stofnanir og lítil þátttaka í kosningum muni ýta undir óstöðugleika í heiminum.
„Hún er að benda á að við verðum að komast til baka í þau gildi sem við vildum standa vörð um með því að stofna Sameinuðu þjóðirnar til að byrja með, sem eru auðvitað stofnaðar í kjölfar stríðs til að reyna að hindra að það komi til stríða aftur. Það hefur, eins og við vitum, ekki tekist þó að það hafi ekki orðið stríð á sama skala og heimsstyrjöldin. En það verður samt einhvern veginn að hugsa þetta upp á nýtt,“ segir Pia.
Friðarráðstefnan í ár var haldin í samstarfi við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla megi norrænt samstarf í þágu friðar.
„Við erum að stofna til frekara samstarfs við norrænar friðarrannsóknastofnanir og erum að vona að í framhaldinu verði til góður samstarfshópur. Mér finnst við hafa fullorðnast svolítið með þessari ráðstefnu, við erum komin með sterkara bakland og þetta samstarf er eitthvað sem við teljum að muni vaxa og dafna. Það er þörf á þessu,“ segir Pia.
Athugasemdir