Vinnustaðaeftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sendi þrjár tilkynningar til mansalsteymis lögreglu á síðasta ári, en um var að ræða mál þar sem rökstuddur grunur var um að aðstæður starfsfólks væru svo slæmar að það gæti talist til mansals. Málin þrjú vörðuðu fyrirtæki í veitinga- og hótelrekstri og starfsfólkið frá Evrópu og Asíuríkjum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ASÍ um vinnumarkaðinn þar sem sérstök áhersla er lögð á erlent launafólk og vinnumarkaðsbrot sem það verður fyrir af hálfu atvinnurekenda hér á landi.
Þar segir að reynslan sýni að það sé gjarnan í vinnustaðaeftirliti sem upp kemst um alvarlegustu brotin gegn launafólki, enda eru eftirlitsfulltrúar í lykilstöðu til að koma auga á vísbendingar um misneytingu og mansal á vinnustöðum, þar sem slíkt fyrirfinnst. Þar sé lykilatriði að eftirlitið fer fram í nærumhverfi þolandans, enda þekkt að þolendur ofbeldis leita sér ekki alltaf aðstoðar að fyrra bragði og því þarf að bjóða aðstoðina sérstaklega fram.
Ungt fólk verður frekar fyrir brotum
Í skýrslunni er að finna ítarlega greiningu á íslenskum vinnumarkaði, samsetningu hans og þróun. Sérstök áhersla er lögð á innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði og stöðu þeirra. Þá er byggt á gögnum frá aðildarfélögum Alþýðusambandsins auk sérgreiningar Vörðu - rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.
Skýrslan sýnir að árið 2022 var rúmlega helmingur launakrafna gerður fyrir félagsfólk af erlendum uppruna. Á sama tíma var erlent verkafólk um fimmtungur þess fjölda sem var á vinnumarkaði. Í greiningu Vörðu kveðast 56% innflytjenda hafa orðið fyrir vinnumarkaðsbrotum á síðustu 12 mánuðum. Ungt fólk er mun líklegra en hinir eldri að verða fyrir brotum á vinnumarkaði.
Alvarleg misneyting
Eftirlitsfulltrúar ASÍ og stéttarfélaganna fóru í 692 heimsóknir á síðasta ári og ræddu við 2.541 einstaklinga í þeim heimsóknum. Algengustu ágallar sem fram komu í vinnustaðaeftirliti vörðuðu laun og önnur kjör og voru að jafnaði leyst hjá stéttarfélögunum, með samþykki og umboði þess sem óskaði aðstoðar. Þótt tölur skorti um algengi slíkra ágalla fyrir landið allt segir í skýrslunni að óhætt sé að fullyrða, af reynslu vinnustaðaeftirlitsins og stéttarfélaganna, að ágallar á borð við rangt greidda yfirvinnu, rangt vaktaálag eða skort á skriflegum ráðningarsamningi eru algengir.
Í skýrslunni segir að vísbendingar úr vinnustaðaeftirliti á árinu 2022 gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stöðu fólks frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) sem starfar gjarnan hér á landi á tímabundnum atvinnuleyfum. Alvarlegustu misneytingarmálin sem komu inn á borð vinnustaðaeftirlits ASÍ frá stéttarfélögunum sneru oftar en ekki að einstaklingum með slík leyfi.
Reynsla vinnustaðaeftirlitsins sýnir að einstaklingar sem eiga á hættu að missa atvinnuleyfi sitt og þar með dvalarleyfi ef þeir missa vinnuna eru líklegri til að sætta sig við slæmar aðstæður í vinnu.
Hótunum beitt til að kúga
Fjölmörg atvinnuleyfi eru bundin við sérstaka atvinnurekendur, en ekki til dæmis starfsvið. Eru því miklir hagsmunir í húfi fyrir þann sem hér starfar á slíku atvinnuleyfi að missa ekki starf sitt - allt lífsviðurværi getur verið undir. Þetta á sérstaklega við um fólk frá ríkjum þar sem efnahagsaðstæður eru slæmar. Þá eru dæmi þess að fólk hafi skuldsett sig í heimalandinu til að komast hingað í vinnu, að því er fram kemur í skýrslunni.
Í þeim málum er vörðuðu alvarlega misneytingu fólks frá ríkjum utan EES á árinu hafði atvinnurekandi nánast undantekningarlaust beitt hótunum um brottvísun gagnvart þolendunum. Hótunum var beitt til þess að kúga og tryggja vald yfir einstaklingunum. Þolendur bjuggu því við þann ótta að leituðu þeir réttar síns myndu þeir missa atvinnu- og þar með dvalarleyfi sitt.
Ef horft er til alvarlegra misneytingarmála sem komu upp í vinnustaðaeftirliti, eða í kjölfar þess, á síðasta ári, eiga þau það langflest sameiginlegt að starfsfólk bjó í húsnæði á vegum atvinnurekanda. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur leitt til þess að atvinnurekendur fara í auknum mæli með hlutverk leigusala gagnvart starfsfólki sínu, segir í skýrslunni.
Skipt um lás þegar fólk skrapp frá
Reynsla stéttarfélaganna er sú að staða fólks sem riftir eða segir upp ráðningarsambandi eða er sagt upp getur hratt orðið mjög slæm ef það býr í húsnæði á vegum atvinnurekanda. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að bola fólki úr húsnæði sem það á þó rétt á að dvelja í. Má meðal annars nefna raunveruleg dæmi sem hafa ratað inn á borð ASÍ og stéttarfélaganna þar sem líkamlegum og sálrænum hótunum hefur verið beitt til að tryggja að fólk fari þá þegar úr húsnæði, án lögbundins uppsagnarfrests.
Í skýrslunni segir að dæmin séu því miður fleiri en ætla mætti „og má þar nefna starfsfólk sem hefur verið borið út úr húsnæði meðan það skrapp frá um stund, kom að eigum sínum fyrir utan húsnæðið og búið að skipta um lás, starfsfólk sem var skipað að fara úr húsnæðinu meðan staðið var yfir því sökum þess að það leitaði til stéttarfélags síns svo og starfsfólk sem hefur beinlínis haft áhyggjur af öryggi sínu og sofið með stól fyrir dyrunum.“
Þá gangi atvinnurekendur langt til þess að ganga á öll almenn réttindi starfsfólks síns sem leigjendur. „Í einu tilviki leigði hóteleigandi starfsfólki sínu hótelherbergi eina nótt í senn til lengri tíma. Enginn leigusamningur var til staðar og atvinnurekandinn ætlaði sér með þessu fyrirkomulagi að komast hjá því að fylgja öllum skyldubundnum lágmarksreglum húsaleigulaga,“ segir í skýrslu ASÍ sem má nálgast hér.
Athugasemdir