Systkinasambönd eru eins mismunandi og þau eru mörg en eitt eiga þau þó sameiginlegt og það er að hafa einhver áhrif á líf okkar, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð.
Íris Eik Ólafsdóttir er félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og sáttamiðlari. Hún á stofuna Samskiptastöðina, sérhæfða meðferðarstöð fyrir einstaklinga, fjölskyldur, pör og vinnustaði.
Aðspurð hvað einkenni heilbrigt systkinasamband segir Íris Eik það vera virðingu og vináttu.
„Virðing felst í því að fólk leyfi systkini sínu að vera eins og það er. Með vináttu er hægt að vera stuðningur fyrir systkini og sömuleiðis deila gleðistundum saman. Síðan fá systkini alls konar sameiginleg hlutverk upp í hendurnar og þurfa oft að komast að niðurstöðu um flókin málefni,“ útskýrir Íris Eik.
Skilningur og umburðarlyndi
Fjölskyldufræðingurinn segir umburðarlyndi skipta lykilmáli í samskiptum systkina, og fjölskyldumeðlima yfir höfuð. „Þó að systkini deili bæði erfða- og umhverfisþáttum ásamt minningum, að þá í rauninni geta þau verið rosalega ólík og persónueinkenni eins ólík og hjá manneskjum sem eru ekki skyldar.“
Óalgengt er að systkini upplifi bernskuna, atlæti frá foreldrum eða heimilislíf á nákvæmlega sama hátt, enda skynjum við öll heiminn á okkar eigin máta. Íris Eik undirstrikar mikilvægi þess að því sé sýndur skilningur í samskiptum systkina.
„Gott er að átta sig á því að hinn aðilinn skilur hlutina ekki alltaf eins og maður sjálfur. Viðkomandi er ekki endilega að vera með leiðindi, heldur er upplifun hvers og eins hans sannleikur. Við erum ekki að leita að einum réttum sannleika sem gildir fyrir öll, heldur að ræða það sem fólk upplifir og áhrif þess á samskiptin."
„Gott er að átta sig á því að hinn aðilinn skilur hlutina ekki alltaf eins og maður sjálfur“
Einnig getur aldursröð og jafnvel fæðingarár systkina haft áhrif á mismunandi upplifun af sama heimili eða atburði. „Það geta verið ólíkar aðstæður á heimilinu milli ára,“ segir Íris Eik. „Segjum sem svo að það sé þriggja til fimm ára aldursbil milli systkina. Á þeim tíma geta foreldrar verið í námi og þar með í annarri fjárhagsstöðu eða að takast á við áskoranir líkt og veikindi.“
Að takast á við deilur
„Það eru mikil tengsl sem felast í systkinasambandi og þau endast ævilangt hjá flestum,“ segir Íris Eik. En þrátt fyrir að systkini geti verið góðir vinir eiga þau það til að velta sér of mikið upp úr lífi hvert annars.
„Það eru mikil tengsl sem felast í systkinasambandi og þau endast ævilangt hjá flestum“
„Mörg eiga í fallegu systkinasambandi, en stundum er einum of mikil áhersla á hvernig hitt lifir lífinu. Þá er gott að slaka á í þeim skoðunum vegna þess að fólk ræður sér sjálft.“
Upp geta komið deilur meðal systkina og er þá ráð að setjast niður til að ræða málin en Íris Eik mælist til þess að fólk tali frekar við hvað annað, í staðinn fyrir að tala um hvað annað.
Fjölskyldufræðingar líkt og hún sjálf geta veitt fagaðstoð í aðstæðum þar sem deilurnar verða miklar.
„Það er best að einn tali í einu. Ef fólk á erfitt með þetta er hægt að vera með bolta og sá sem er er með boltann talar og hinir hlusta.“ Þetta getur verið gagnlegt til að systkini hlusti á hvert annað í stað þess að bíða óþolinmóð eftir að fá sjálf orðið.
Íris Eik bendir á að ef skoðunum fólks er sýndur áhugi er líklegra að áhuginn sé sýndur til baka. Þess vegna getur verið vænlegt til árangurs að vera forvitin, spyrja og rannsaka skoðanir annnarra með það að markmiði að öðlast dýpri skilning á systkini sínu, sér í lagi ef skoðanirnar eru fjarri hver annarri. Þannig má einnig komast hjá því að stunda hugsanalestur, enda er hann ómögulegur í framkvæmd.
„Ef manni finnst þau hafa sérkennilegar hugmyndir um fyrirbæri eða ákvörðun er gott að líta á sig sem rannsóknarlögreglu í samtalinu. Þá er hægt að rannsaka af hverju systkini manns hefur sterka skoðun á einhverju máli þegar þú ert sjálf kannski á hinum pólnum.“
Einfaldleikinn og aðstoðin
Til þess að viðhalda góðum systkinatengslum á fullorðinsárum er mikilvægt að vera í sambandi. „Það virðast allir vera rosalega uppteknir, hafa lítinn tíma og því fylgir mikil streita. Þá er maður ekki endilega að hugsa um að fara í heimsókn til systkini síns,“ bendir Íris Eik réttilega á en nútímasamfélagi fylgir oft og tíðum mikill hraði.
Hún hvetur fólk hins vegar til þess að mikla ekki fyrir sér samskiptin því að þau þurfi ekki að vera flókin eða hátíðleg.
„Stundum snýst þetta um að hringja símtalið og taka púlsinn á hvert öðru.“ Sömuleiðis nefnir Íris Eik að heimsóknir þurfi ekki að taka nokkra klukkutíma heldur séu korter eða tuttugu mínútur stundum nóg til að ná ágætis tengingu.
„Samfélagsmiðlar spila stórt hlutverk í því að fólk upplifi að það sé í miklum tengslum. En ég held að samfélagsmiðlar komi nú seint í staðinn fyrir það að setjast niður með góðan kaffibolla við eldhúsborðið hjá systkini sínu.“ Á samverustundum er síðan tilvalið að rifja upp gamla tíma sem veita gleði ásamt því að sýna væntumþykju og áhuga í garð systkinisins.
„Stundum snýst þetta um að hringja símtalið og taka púlsinn á hvert öðru“
Sniðugt er að hittast reglulega, hvort sem það er í kaffibolla, matarboði, útilegu eða einfaldlega í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum með börnin eins og Íris Eik segir. „Það er nefnilega líka mikilvægt fyrir systkini að láta börnin sín kynnast börnum systkina sinna.“
Þó að systkinasambönd veiti almennt gleði má þó ekki horfa framhjá því að lífinu fylgja erfiðleikar. Í slíkum aðstæðum getur stuðningur systkina við hvert annað oft verið þýðingarmikill. „Bjóðum fram aðstoð eða látum vita að við sjáum að það séu erfiðleikar í gangi,“ segir Íris Eik en bætir við að ráð sé að passa sig á að vera ekki með stjórnsemi því að hún er jú skaðleg.
„Við getum ekki stjórnast í lífi annars fólks, en við getum góðlátlega bent á eitthvað sem má betur fara. Aðallega er þó gott að spyrja hvað systkini manns þurfi á þessum tíma.“ Félagsráðgjafinn tekur dæmi af spurningum á borð við, er eitthvað sem ég get gert til að létta undir eða er eitthvað sem þú þarft?
Ólíkar systur en bestu vinkonur
Systurnar Eva Kristín og Katla Sól Sigurðardætur eru 25 ára og 22 ára. Um þessar mundir eru þær staddar í litlum bæ við strönd Portúgal sem heitir Tavira. Þar hafa systurnar dvalið ásamt foreldrum sínum og yngri systur, Tinnu, í tvo mánuði. Fjölskyldan ákvað að verja tíma saman í Portúgal og njóta systurnar því lífsins áhyggjulausar í sól og hita.
„Ég er mjög þakklát fyrir að eiga systur til að deila lífinu með,“ segir Katla Sól, sólbrún og sæl. Hún lýsir sambandinu við systur sínar tvær sem mjög góðu og lítur á þær sem bestu vinkonur sínar.
Eva Kristín, aldursforseti systranna, tekur undir. „Við höfum alltaf átt gott samband og ég sé ekki fram á að það breytist.“
Frá því stelpurnar muna eftir sér hefur þeim líkað vel í félagsskap hvor annarrar, og Tinnu eftir að hún bættist í hópinn og fullkomnaði þríeykið. Katla minnist þess að Eva hafi verið henni eins konar verndari á yngri árum. „Maður sér það á myndum. Þegar við vorum litlar var Eva alltaf að passa upp á mig.“
„Ég er mjög þakklát fyrir að eiga systur til að deila lífinu með“
Þrátt fyrir að vera bestu vinkonur og með sömu gildi eru þær Eva Kristín og Katla Sól afar ólíkar í persónuleika. „Katla er jarðbundnari,“ útskýrir Eva Kristín og bætir við: „Ég er meira svona í skýjunum.“
Katla Sól samsinnir því. „Eva lætur sig dreyma en ég er meira excel-skjal og vil hafa næstu skref ákveðin. Þó það sé alveg gaman að fylgja ekki plani að vissu leyti, þá líður mér betur ef ég veit hvað við erum að gera næst. Ég þarf líka oft að hafa eitthvað fyrir stafni, annars er ég eirðarlaus. En Eva á auðveldara með að slaka á.“ Þessi síðasta setning fær Evu Kristínu til að skella gleðilega upp úr. Kötlu Sól finnst þær þó, þegar allt kemur til alls, nokkuð líkar í grunninn. „Við eigum það sameiginlegt að elska að ferðast og verja tíma með fjölskyldu og vinum.“
Þessi munur á persónuleikum þeirra sem Katla Sól lýsti kristallast í fæðingarsögum systranna. Þær voru nefnilega settar sama dag, 30 maí, nema Eva Kristín árið 1998 og Katla Sól árið 2001. „Eva lét bíða eftir sér í fæðingunni eins og í mörgu öðru,“ segir Katla Sól og uppsker á ný hlátur frá systur sinni sem fæddist tveimur vikum eftir settan dag. Sjálf fæddist Katla Sól deginum eftir settan dag, þann 31. maí. „Hún var að flýta sér,“ segir Eva Kristín og glottir.
Hreinskilin samskipti mikilvæg
Í dag líta þær á sig, og Tinnu sem er 15 ára, sem jafningja. Eva Kristín segir þær eiga auðvelt með að tengja við hver aðra þrátt fyrir aldursmuninn. „Ég segi Kötlu og Tinnu allt það sama, enda er Tinna mjög þroskuð miðað við aldur.“
Þegar Katla Sól fer að tala um að Eva Kristín sé nú reynslumeiri í lífinu grípur Eva Kristín orðið af systur sinni og útskýrir: „Ég hef náttúrlega reynslu af vinnu og námi erlendis en fyrir utan það myndi ég segja að reynsla okkar tveggja sé frekar sambærileg.“
„Ef það er eitthvað sem kemur upp á er mikilvægt að eiga í góðum og hreinskilnum samskiptum“
Systurnar Eva Kristín og Katla Sól upplifa sig heppnar með hvað þeim kemur vel saman. Þær veigra sér þó ekki við því að ræða málin ef upp kemur einhvers konar ágreiningur eða pirringur. „Ef það er eitthvað sem kemur upp á er mikilvægt að eiga í góðum og hreinskilnum samskiptum,“ tekur Eva Kristín fram. „Þá leysum við það,“ samsinnir Katla Sól.
Nú eru stelpurnar komnar yfir tvítugsaldurinn og búnar að ná sér í háskólagráður. Eva Kristín í sálfræði og Katla Sól í viðskiptafræði. Þær finna fyrir örlitlu stressi í garð þess að flytja endanlega úr foreldrahúsum og vera ekki sjálfkrafa saman á daginn.
Þær ræða málið aðeins sín á milli áður en Katla Sól stingur upp á lausn. „Það er kannski sniðugt þá að vera með eitthvað systratengt sem við gerum einu sinni í viku saman. Það getur verið að horfa á mynd eða bara eitthvað allt annað.“ Eva Kristín tekur vel í þessa hugmynd og bætir við að þær myndu líka hringja í hver aðra ef þær væru ekki á sama landsvæði. Systurnar átta sig á því að þær gætu farið sitthvora leið er varðar vinnu og nám en það breytir því ekki að þær eiga hvor aðra alltaf að.
Eftir dvölina í Portúgal hafa stelpurnar fengið nægan tíma til góðrar samveru. Þegar Heimildin náði tali af þeim voru þær nýbúnar að fara á brimbretti með Tinnu og föður sínum. Það fannst þeim æðislegt. „Við erum að skapa minningar sem við munum alltaf eiga,“ segir Katla Sól ánægð. „Það er búið að vera svo gaman og styrkjandi fyrir systkinasambandið að vera hér saman, öll fjölskyldan, í þennan tíma.“
„Já, ég er svo sammála,“ svarar Eva Kristín brosandi. „Ég vildi að allir ættu svona góðar systur og gott systkinasamband.“
Engin ein aðferð
Nokkrir borgarar á ferðinni um Mjóddina svöruðu spurningum um systkinasambönd sín og deildu því hver uppskriftin að góðu systkinasambandi á fullorðinsárum er.
Eiríkur Helgason er næstelstur af sex systkinum. Hann á í góðum samskiptum við hópinn og leggur sig fram um að hitta þau reglulega.
„Ég held það sé engin ein aðferð,“ segir hann aðspurður hvað þurfi að gera til að viðhalda góðu systkinasambandi á fullorðinsárum.
„En við systkinin tölumst mikið við í síma og við hittumst. Síðast var það bara núna af því að eiginkona mín var erlendis, að þá hömuðust þau systkinin við að bjóða mér í mat,“ segir Eiríkur ánægður.
Næst á dagskrá hjá systkinahópnum er stór fögnuður um helgina í tilefni af 100 ára afmæli móður þeirra. „Þá mæta allir og makar.“
Systkinin eru á breiðu aldursbili og er Eíríkur í hópi þeirra sem eru eldri. „Þessi systkinahópur er svolítið tvískiptur. Við erum þrjú elst og svo eru þrjú yngst. Ég á systur sem er 81 árs og systur sem er sextug. Þannig að sjáið þið nú bara muninn sko, þetta spannar allt.“
Væntumþykja bróðurins í garð hinna systkinanna leynir sér ekki. „Ég kvarta ekki yfir þessu. Þetta er bara mjög gott,“ segir Eiríkur með hlýju í hjarta og heldur áfram út í daginn.
Mikilvægt að hafa samband
„Ég fæ að stjórna pínulítið,“ segir elsta systkinið Valdís Gestsdóttir og brosir. Hún á fjögur yngri systkini.
Að hennar mati skiptir máli að halda sambandi ef ætlunin er að eiga gott systkinasamband á fullorðinsárunum. „Ég á einn bróður sem hringir í mig á hverjum degi, svo það er mikilvægt að hafa samband.“
Valdís svarar því hvað sé það besta við að eiga í samskiptum við systkini sín. „Það er best að eiga sína fjölskyldu sem maður getur leitað til.“
„Það er best að eiga sína fjölskyldu sem maður getur leitað til“
Sjö systkini
Magnús Gunnarsson á ekki bara eitt, tvö eða þrjú systkini heldur sjö. „Ég á engin alsystkin en ég á hálfsystkini. Þau eru sjö, við vorum átta.“ Af þessum stóra hópi er Magnús elstur. „Svo á ég tvö hálfsystkini frá föður í viðbót.“
Á fullorðinsárum hefur Magnús notast við síma og samfélagsmiðla til að viðhalda samskiptum þar sem öll systkinin búa ekki á Íslandi. Það er Magnúsi því kært að njóta tímans sem hann á með systkinum sínum til fulls þegar þau ná að hittast.
„Það er bara albesta sem til er að eiga svona mörg systkini á öllum aldri. Ég er mjög tengdur þeim, sérstaklega þessum yngri. Við náum mjög vel saman,“ segir Magnús og útskýrir nánar: „Nú eru þau farin að flytjast út í heim, það eru ekki allir á Íslandi en þá er bara að halda góðu sambandi. Maður veit aldrei hvað maður hefur langan tíma, um að gera að njóta tímans meðan hann er.“
„Maður veit aldrei hvað maður hefur langan tíma, um að gera að njóta tímans meðan hann er“
Ólík en lík
„Ég er elstur af þessum sem eru á lífi enn þá,“ segir Hreiðar Gíslason, en hann á þrjár systur á lífi. „Sá elsti er dáinn, systir mín er á elliheimili og yngri systir mín er bara í fullu fjöri.“
Hreiðar er duglegur að hitta systur sínar enda skipti það hann máli til að viðhalda góðum samskiptum á fullorðinsárum. „Við hittumst reglulega, tölum saman um daginn og veginn og það sem er að gerast hverju sinni.“
Aðspurður hvort þau systkinin séu lík finnur Hreiðar sumt sem er líkt með þeim, en annað sem er ólíkt. „Það er svona margt í okkur sameiginlegt en vantar eitthvað upp á að við séum öllsömul lík. Ég er til dæmis sjúkur í íþróttir og golf. Systur mínar tvær, þær hafa nú lítinn áhuga á því,“ segir Hreiðar og brosir.
Athugasemdir