„Ég heiti Mikael Sigurðsson og er fæddur í Hrísey, það eru örugglega ekkert margir lifandi í dag sem eru fæddir hérna og eiga heima hérna. Ég er ekki viss um að það sé neinn bara. Ég er nýorðinn áttræður og er þakklátur fyrir góða heilsu, það er það sem skiptir öllu máli, sérstaklega þegar maður þekkir hvernig það er að vera heilsulaus. Maður er búinn að lenda í svo mörgu um dagana, búinn að brotna oft og vera skorinn upp. Það er númer eitt, tvö og þrjú að geta gengið.
Ég þekki ekkert annað en að búa í Hrísey. Mér líður alltaf langtum best hérna, það er kyrrðin. Þó að við séum með íbúð inn frá, á Akureyri, þá efast ég um að við séum búin að sofa í hálfan mánuð í íbúðinni, það eru frekar barnabörnin sem nota hana. En hún er þá til.
Það var eitt mjög erfitt ár, 1959, þegar flugslysið varð á Vaðlaheiði. Þá fórust þrír héðan, þar af fermingarbróðir minn og annar vinur sem var ári eldri, við vorum mjög miklir vinir. Það var mjög erfitt. Þarna voru hjón sem misstu tvo stráka.
„Eina skiptið sem mér hefur fundist ég vera innilokaður er þegar ég var í Grímsey“
Við höfum aldrei verið einangruð hérna. Eina skiptið sem mér hefur fundist ég vera innilokaður er þegar ég var í Grímsey, ég fór oft út í Grímsey þegar ég var í fiskvinnsluvélunum, og þegar ég var þar einu sinni og gisti þá gerði norðvestan, alveg brjálað veður, við komumst varla neitt. Við vorum þarna í þrjá daga. Það gat ekkert skip komið upp að bryggjunni. Engin flugvél. Það er í eina skiptið sem ég hef fundið fyrir innilokunarkennd.“
Athugasemdir