Umhverfið og almenningur er ekki sett í öndvegi í niðurstöðum starfshópa Auðlindarinnar okkar sem áformað er að nýta við smíði nýrra heildarlaga á sviði fiskveiðistjórnunar. Þess í stað eru hagsmunir stórra útgerða „heilt yfir“ í fyrirrúmi, segir í ítarlegri umsögn stjórnar Landverndar um niðurstöðurnar sem matvælaráðuneytið hefur lagt fram til kynningar í Samráðsgátt.
Landvernd segir „sterkar réttlætingar“ að finna í tillögunum um óbreytt aflamarkskerfi og að veiðigjöld séu sanngjörn óbreytt. Jafnframt skorti á umfjöllun um skattaskjól, arðrán í Namibíu og mútumál sem upp hafi komið á síðustu árum sem hafa orðið til þess að almenningur er tortrygginn í garð sjávarútvegsfyrirtækja. Þá eru að mati samtakanna aðgerðir og umfjöllun um raunverulega sjálfbærni og verndun hafsins í miklum minnihluta. Gagnrýnt er að starfshóparnir ræddu ekki við umhverfisverndarfólk í vinnu sinni „í ljósi þess að stóru áskoranir mannkyns á næstu árum og áratugum eru á sviði umhverfismála og að vistspor sjávarútvegsins er vissulega stórt“. Setur Landvernd að auki stórt spurningarmerki við að tillögur um umhverfismál séu hlutfallslega fáar en að fjölmargar þeirra fjalli hins vegar um markaðssetningu fiskafurða.
„Til dæmis hefði verið eðlilegt að fjalla um notkun íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á skattaskjólum og skúffufyrirtækjum á erlendri grund sem eru siðlaus, ganga gegn sjálfbærnimarkmiðum og ýta undir vantraust almennings á fyrirtækjunum“
Landvernd kallar í umsögn sinni m.a. eftir hærri mengunargjöldum á sjávarútveginn, að botnvörpuveiðar verði að mestu bannaðar innan fiskveiðilögsögunnar og sjávarútvegurinn hætti að hafa eftirlit með sjálfum sér í úrgangsmálum.
Hefur eftirlit með sjálfum sér
Í tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar kemur m.a. fram að ekki sé talin ástæða til átaks stjórnvalda varðandi úrgang sem fellur til í sjávarútvegi þar sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sjái um skráningu og söfnun á úrgangi. Þetta er ekki ásættanlegt að mati Landverndar sem gagnrýnir þá ráðstöfun að útvegurinn sjái um eftirlit með sjálfum sér að þessu leyti. Það stuðli ekki að betri umgengni við hafið. „Stór hluti þess úrgangs sem finnst í hafinu og rekur á strandir kemur frá skipum þannig að mörg sjávarútvegsfyrirtæki virðast ekki sýna þá ábyrgð sem er forsenda fyrir því að fela þeim umsjón með þessum málum.“
Landvernd styður að öll botnvörpuveiði verði bönnuð innan 12 mílna landhelgi líkt og lagt er til í niðurstöðum Auðlindarinnar okkar. Slík veiðarfæri valdi mikilli eyðileggingu á einstöku lífríki á hafsbotni sem bindi mikið kolefni og sé auk þess mikilvæg uppeldisstöð fiskistofna. Landvernd vill þó ganga mun lengra og að nú þegar verði sett fram tímaáætlun um að botnvörpuveiðar verði bannaðar með öllu í íslenskri lögsögu, a.m.k. fyrir veiðar á þeim tegundum sem hægt er að veiða á annan hátt.
Fyrirtæki þurfa hvata og gjöld
OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa gefið út að kolefnisgjald verði að hækka til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Í umsögninni rifjar Landvernd upp að hækkun kolefnisgjalds, t.d. í Svíþjóð, hafi haft mjög jákvæð áhrif á samdrátt í losun án þess að hafa neikvæð áhrif á efnahaginn.
Þá telur stjórn Landverndar nauðsynlegt að koma á skýrri áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi – burtséð frá áformum um orkuskipti. „Reynsla er ólygnust um það að fyrirtæki draga ekki sjálfviljug úr losun“, benda samtökin á og að hvatar, gjöld og reglur séu forsendur þess að árangur náist.
Landvernd styður að stofnaður verði sjóður í þessum tilgangi en telur tillögur um samfjármögnun ekki nógu lýsandi. „Þótt slíkur sjóður ætti að vera í umsjón ríkisins telur Landvernd óeðlilegt að ríkið leggi fjármagn inn í svo stóra og umdeilda atvinnugrein.“
Fjármagna ætti sjóðinn í gegnum mengunargjöld á sjávarútveginn sjálfan „þannig að þeir sem losa mest borgi mest“. Ef gjaldinu yrði dreift aftur til greinarinnar í loftslagsvænar aðgerðir sé líklegt að atvinnuvegurinn sjálfur tæki það í sátt.
Það skýtur að mati Landverndar skökku við að þrátt fyrir að almenningur telji að veruleg spilling og skortur á heiðarleika sé viðvarandi í sjávarútvegi sé ekki að finna tillögur í lokaniðurstöðum starfshópa sem taki á slíku. „Til dæmis hefði verið eðlilegt að fjalla um notkun íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á skattaskjólum og skúffufyrirtækjum á erlendri grund sem eru siðlaus, ganga gegn sjálfbærnimarkmiðum og ýta undir vantraust almennings á fyrirtækjunum“, segir í umsögninni. Þá rýri það lokaniðurstöðurnar að ekki sé fjallað um meintar mútugreiðslur, möguleg lögbrot og arðrán íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum löndum. Í raun séu siðferðiskröfur til sjávarútvegsins ekki að finna í lokaniðurstöðum starfshópanna.
Tilraunir til að réttlæta óbreytt veiðigjald
„Þær deilur sem staðið hafa um sjávarútveginn kjarnast í því að kvótahafar greiði ekki nægjanlega til samfélagsins heldur hagnist sjálfir ævintýralega“, segir stjórn Landverndar. Veiðigjöld þurfi að standa undir þjónustu sem ríkið veitir greininni en einnig að vera sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar.
Alls 83% aðspurðra í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar telja að veiðigjaldið eigi að vera hærra. „Þrátt fyrir þetta eru gerðar tilraunir í lokaniðurstöðu hópanna til að réttlæta óbreytt veiðigjald og óbreytt kvótakerfi. Þá er því haldið fram að vegna sölu á kvóta hafi auðlindarentu þegar verið komið í verð og hún greidd til einkaaðila og ekki hægt að sækja hana til núverandi kvótahafa.“ Þessi fullyrðing veikir að mati Landverndar mjög trúverðugleika vinnu við Auðlindina okkar „og benda því miður til þess að stórar útgerðir ráði óeðlilega miklu um lokaniðurstöður starfshópa“.
Athugasemdir (5)