Ég skrifaði einu sinni grein fyrir Kjarnann sem hét Stafrænir flassarar: siðferðisskortur og siðleysi í samskiptum. Greinin fjallaði meðal annars um hvernig flassararnir í Lauga- og Elliðaárdalnum sem áreittu grunlausar konur og varnarlaus börn í gamla daga væru nær alfarið búnir að færa brotavettvang sinn yfir á netið. Ég hafði áhyggjur af því hve erfitt var að ná utan um þennan sístækkandi brotavettvang og öryggi barna í kjölfarið. Fólk virtist deila þessum áhyggjum mínum og greinin fékk yfir höfuð mjög jákvæð viðbrögð. Ein ummæli í athugasemdakerfi fréttavefmiðils fangaði hins vegar athygli mína. Maður að nafni Einar fann sig knúinn til að skrifa KOLKLIKKUÐKUNTA!!! við grein mína og lét ælukall fylgja. Viðurnefninu og ælukallinum fylgdi enginn frekari rökstuðningur. Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér mönnum eins og Einari og hugsanlegri ástæðu hegðunar þeirra.
„Stuttu síðar barst mér nafnlaus póstur sem var þess eðlis að ég fann mig knúna til að leita til lögreglunnar“
Eftir þær vangaveltur skrifaði ég greinina KOLKLIKKUÐKUNTA: Orðræðu- og atferlisgreining andfélagslegrar hegðunar á samskiptamiðlum og fór þar skýrt og skilmerkilega yfir helstu greiningarviðmið þegar kemur að andfélagslegri hegðun og röskun. Sú grein vakti enn meiri athygli og fór ég í útvarpsviðtal til að ræða sérstaklega hegðun þeirra sem stílbragð Einars aðhyllast í rafheimum. Í kjölfarið af þeirri umfjöllun fóru mér að berast óþægileg og nafnlaus bréf á vinnupóstinn minn þar sem viðkomandi fannst ég vega vægðarlaust að aumingja Einari og ætti ég því ekkert gott skilið. Stuttu síðar barst mér nafnlaus póstur sem var þess eðlis að ég fann mig knúna til að leita til lögreglunnar. Það var óþægilegur andskoti að upplifa og ég var hvött til að hafa varann á. Velunnari Einars gafst að lokum upp á bréfaskriftum en það er aldrei að vita hvort þau hefjist að nýju eftir þessa grein því að Einar andfélagslegi er kominn aftur á kreik. Nú í athugasemdakerfi fjölmiðils í tilefni af Íslendingahátíðinni í Gimli í Manitoba, Kanada.
Saga Íslendinga í Norður-Ameríku er stórmerkilegur partur af sögu okkar
Miklar breytingar áttu sér stað í Evrópu á tímum fólksflutninga Íslendinga til Norður-Ameríku. Evrópubúum fjölgaði frá árunum 1800–1930 úr 150 milljónum í 450 milljónir. Vesturferðirnar alþjóðlegu frá lokum Napóleonsstyrjaldanna 1815 og fram til kreppunnar miklu 1930, eru mestu samfelldu fólksflutningar sögunnar. Talið er að tæplega 52 milljónir Evrópumanna hafi flutt til Vesturheims á þessum tíma.
Vesturheimsferðirnar áttu sér stað hérlendis á árunum 1870–1914. Þær leystu fólksfjölgunar- og byggðavandamál heima fyrir, komu hreyfingu á þjóðfélagið og komu með von inn í samfélagið. Vestufaraskrá telur 14.268 Íslendinga en talið er að hátt í tuttugu þúsund manns, eða einn fimmti hluti þjóðarinnar á þeim tíma, hafi flutt út með von um betra líf. Fólksflutningar Íslendinga til Vesturheims og stofnun séríslenskrar nýlendu þar eru einstæðir atburðir í Íslandssögunni því hvorki fyrr né síðar hafa Íslendingar farið af landi brott í svo stórum stíl og gerst innflytjendur í ókunnu landi.
Kunta í Kanada
Ég vann í nokkur ár sem fararstjóri á Vestur-Íslendingaslóðum í Manitoba í Kanada. Það var einstök upplifun fyrir ungan mannfræðinginn sem heillaðist af öllu því sem fyrir augu bar. Þetta er stórmerkilegt samfélag og mikilvægur menningararfur sem hefur haft margvísleg áhrif á sjálfsmynd Íslendinga, beggja vegna hafsins. Ég naut mín í Manitoba á þessum árum og varð vitni að mörgum sérstæðum menningarvenjum. Ég hitti eldra fólk sem voru þriðja kynslóð innflytjenda og töluðu enn íslensku. Ég sá að sum íslensku bæjarheitin voru í þágufalli því Jón og Gunna komu frá Ósi og þar með var það skrásett þannig og aldrei leiðrétt. Mér fannst alltaf ákveðinn sjarmi yfir því. Ég lærði að þú gast ekki kallað þig Vestur-Íslending með rentu nema að eiga pönnukökupönnu og að vestra heitir kakan Randalína eða Lagkaka, Vínarterta. Ég lærði að meta kímnigáfu Káins og sá hvernig tungumálið breyttist í ljóðum Stephans G. Hann orti: „Ég fór út á Main street með fimm dala check og forty eight riffil mér keypti“ og átti þannig sinn þátt í að séríslensk menning mótaðist keik innan um aragrúa annarra menningarheima í heimsálfunni sem allir vildu kalla sína eigin.
Ég upplifði í fjölmörg skipti bæði Íslendingahátíðina í Mountain í Norður-Dakóta og Íslendingahátíðina í Gimli í Manitoba og keyrði með smekkfullar rútur af Íslendingum um byggðirnar og hlustaði á Baggalút syngja um sólskinið þar á bæ. Að vera borin og barnfædd á Íslandi en upplifa menningarheiminn sem fylgir því að vera Íslendingur í Kanada er einstök tilfinning og samgleðst ég því öllum þeim sem upplifa þessa menningarhátíð.
„Einar fann sig knúinn til að skrifa við þessa mynd „Helvítis litla hóran“ og lét ælukall fylgja með.“
Ég deili því með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla, -iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hafa tekið þátt í skrúðgöngunni í Gimli á Íslendingadaginn sjálfan. Hún var gestur á hátíðinni og skjalfesti um leið mikilvægan vinnudvalarsamning ungum Íslendingum til hagsbóta. Það er því ekki skrýtið að vel hafi legið á Áslaugu á Íslendingadaginn. Hún var mynduð í skrúðgöngunni þar sem hún sat í rauðum blæjubíl, klædd í einum af þjóðbúningum íslenskra kvenna og bar sig vel. Hún brosti breitt og veifaði til fjöldans. Ég sá myndina á Facebook-síðu íslensks fréttamiðils og samgladdist henni innilega þrátt fyrir að vera henni ekki flokkshuga. Ég renndi yfir athugasemdirnar við myndina og þær voru nær allar jákvæðar, enda ærið tilefni til að vera uppbyggilegur í ummælum á hátíðardögum. Því rak mig í rogastans þegar ég rakst á ummæli Einars okkar góðkunna. Einar fann sig knúinn til að skrifa við þessa mynd „Helvítis litla hóran“ og lét ælukall fylgja með.
Meltingarvandræði Einars
Líkt og áður fylgdi ummælunum og ælukallinum enginn frekari rökstuðningur. Ég fór í kjölfarið að velta aftur fyrir mér mönnum eins og Einari og af hverju þessi andfélagslegi tónn sé honum svona tamur þegar kemur að konum, og af hverju honum sé alltaf svona óglatt. Margir vilja sjúkdómsvæða andfélagsleg frávik á borð við orð Einars. Allir vilja að skýring fylgi fráviki og er það svo að heimsmyndin okkar hrynji ekki. Við viljum lifa í réttlátum heimi þar sem allir eru í eðli sínu góðir og þeir sem eru það ekki eru veikir. Þetta er það sem kallast staðreyndarfælni. Mannkostir eru ekki eitthvað sem við fæðumst með. Við lærum þá, þróum þá og beitum í hegðun með ásetningi um velvild í eigin garð og annarra. Þetta er ævilangt ferli og endalaus lærdómur. Mannkostaskertir einstaklingar nenna þessu lærdómsferli ekki. Þeir eru sjálfhverfir með eindæmum og upplifa því ekki hegðun sína sem fjandsamlega. Þeir lifa oft í þeirra trú að skoðun þeirra sé jafngild niðurstöðum rannsókna og eigi erindi sem víðast.
Geðþóttaskoðanir á borð við ummæli Einars eru ekki burðugur grunnur til uppbyggilegra skoðanaskipta. Fræðasamfélagið leggur áherslu á sannreyndar, margreyndar og gagnreyndar staðreyndir og talar út frá þeim. Einar virðist með ummælum sínum vera ósammála þeirri leið til þekkingaröflunar. Konur virðast vera óvættur í augum Einars og veldur það mér töluverðu hugarangri og Einari augljóslega ógleði. Fáfræðin dansar og hatrið dillar sér á meðan „kolklikkuðkunta“ og „helvítis litla hóran“ reyna bara að vinna vinnuna sína.
Ummælin um Áslaugu Örnu voru síðar falin af ritstjórn fréttamiðilsins þar sem þeim fannst hún viðbjóðsleg. Réttilega svo. Ég þakkaði þeim fyrir það en fór síðan að velta því fyrir mér hvort svona ummæli ættu kannski að fá að standa til að fólk upplifði andfélagslegan fjarstæðuleika þeirra svart á hvítu. Í kjölfarið fór ég hins vegar að velta því fyrir mér að ef svona orð fá að standa mótstöðulaust, hvort þau öðlist eitthvert vald og gildi. Nýju fötin keisarans komu upp í huga mér. Sinnu- og afskiptaleysi hjarðarinnar getur nefnilega aukið vald erkifíflsins.
Að gefnu tilefni
Fjandsamleg ummæli eru í eðli sínu andfélagsleg. Andfélagsleg hegðun (e. Antisocial behavior/ Sociopatic behavior) vísar til hegðunar sem einkennist af viðvarandi tillitsleysi og hunsar réttindi og tilfinningar annarra. Hávær og grimmdarleg meðhöndlun á öðru fólki og yfirgnæfandi tilvistarréttur hljómar hátt. Sterk andfélagsleg einkenni eru m.a:
-
Vanvirðing og skeytingarleysi fyrir samfélagsreglum
-
Ákafi, tortryggni og virðingarleysi gagnvart öðru fólki
-
Yfirgengilegur hroki
-
Ofmat á eigið ágæti, tilfinning um vitsmunalega yfirburði og óhófleg skoðanagleði
-
Hvatvísi og skipulagsleysi
-
Ógnandi hegðun og óheiðarleiki
-
Fjandsemi í garð annarra og óhóflegur pirringur
-
Léleg tilfinninga- og hvatastjórn
-
Yfirgangur og ofbeldisfull hegðun
-
Skortur á samkennd
-
Óþarfa áhættutaka og tillitsleysi varðandi öryggi annarra
-
Ábyrgðarleysi gagnvart áhrifum og afleiðingum gjörða sinna
Lítið þýðir að höfða til mannkosta þessara einstaklinga þar sem þeir eru bæði innihaldsrýrir og byggðir á brothættum grunni. Einnig eru andfélagslegir einstaklingar ekki líklegir til stórra afreka á vettvangi iðrunar og eftirsjár.
Lokaorð
Kunta, hóra, mella, tík og tussa. Viðurnefni þessi hafa fylgt valdbeitingu í garð kvenna löngu fyrir mína tíð. Ummæli Einars andfélagslega í rafheimum eru ekkert einsdæmi. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á ummæli Þorkels nokkurs Íslandssonar sem skrifaði „Þetta eru bara mellur“ við umfjöllun fréttamiðils um kvenkyns aðgerðarsinna sem voru að mótmæla hvalaveiðum hérlendis. Síðasta fíflið virðist því miður ekki enn vera fætt.
Hvort ég fái einhver nafnlaus skilaboð í kjölfarið á þessari grein verður bara að koma í ljós. Heigullinn felur sig á bak við nafnleysið og iðar sjálfsagt í skinninu eftir því að geta valdið ugg í brjósti konu út í bæ. Smeyk kona mín spurði mig í kjölfarið af þessum greinarskrifum hvort það væri nokkuð viturlegt að vera að pota í björninn. Eðlileg spurning í sjálfu sér. Ég staldraði við og fór yfir kvenréttindabaráttu íslenskra kvenna og allar þær jarðýtur sem hún hefur alið. Ég hef séð hvernig samstaðan í átt að útrýmingu ofbeldis hefur verið knúin áfram úr krafti kvenna. Kvenlægi krafturinn kveikir bál og valdeflingin logar. Réttlát reiði brýst út og ryður úr vegi sjálfgefnu valdi þeirra sjúklega sjálfhverfu. Þær virðast vera óstöðvandi núna. Þannig til að svara smeyku konunni: „Björn þessi er orðinn að birnu, og já, ég tel það óviturlegt að vera að pota í hana.“
Við eigum að bera virðingu fyrir skoðunum og viðhorfum annarra. Það fylgir viðurkenndum viðhorfum um lýðræði. Hvað kemur okkur við lífstíll eða lífsviðhorf annarra sem eru öðru vísi en okkar? Við erum eins ólík eins og við erum mörg og það er hluti af mannréttindum okkar að vera ekki alveg eins og aðrir.