Hvernig ætli sé að vera sérsveitarmaður á Íslandi? Situr maður bara á kaffistofunni allan daginn í litlu rúllukragapeysunni sinni að reyna að blaða í gegnum leiðbeiningabækling fyrir hálfsjálfvirka riffilinn með gamlar Steven Seagal-myndir í gangi í bakgrunninum bíðandi í von og óvon um að það sé einhver sem þurfi að draga út á nærbuxunum í dag? Svo blikkar loksins sérsveitarmerkið á bringunni (ég geri bara ráð fyrir því að þetta sé alveg eins og í Hvolpasveitinni) og maður stekkur upp, rennir sér niður sérsveitarsúluna, smeygir lambhúshettunni yfir höfuðið og áður en maður veit af er maður kominn upp í mastur á gömlu hvalskipi að hrifsa bakpoka með vatnsbrúsa og samloku úr fanginu á friðsælum mótmælanda.
Það er gott að þrátt fyrir allan mönnunarvandann og fjármagnsleysið geti sérvitrir milljarðamæringar enn treyst á að lögreglan sendi fullan trúðabíl af beinstífum gaurum að leika Securitas-verði í hvert skipti sem einhver ónáðar þá.
En mannlegi hrúðurkarlinn Kristján Loftsson er þá loksins búinn að bóna á sér skutulbyssuna og tilbúinn að skjóta úr henni á hverja þá lífveru sem er nógu óheppin að vera nálægt þessum 85 ára gömlu ryðdöllum hans. Skilaboðin frá yfirvöldum eru skýr; það er óskorðaður réttur Íslendinga að nýta hverja þá auðlind sem er nógu óheppin að svamla í gegnum íslenska lögsögu. Vonandi er bara enginn að synda Viðeyjarsundið rétt á meðan Hvalur 8 siglir út Faxaflóann svo viðkomandi eigi ekki á hættu að vera skutlaður, mulinn niður og seldur með gríðarlegu tapi í standpínupillur einhvers staðar í annarri heimsálfu.
Bænahringurinn í kringum Kristján
Auðvitað fór þetta svona. Útgerðin, áhrifamesti þrýstihópur landsins, myndaði órjúfanlegan bænahring í kringum Kristján og stóru íhaldsflokkarnir notuðu bannið sem stökkpall til að berja á atvinnufrelsistrommuna í von um að klóra til baka einhver af þessum fjölmörgu prósentum sem hafa hrunið af þeim síðustu mánuði. Auðvitað getur ekkert af þessu fólki í hjarta sínu verið fylgjandi áframhaldandi hvalveiðum, enda er þetta fráleitur iðnaður sem er nánast hvergi stundaður á plánetunni, blæðir peningum og er almennt hræðilegt fyrir ásýnd landsins út á við.
Eins og svo margt í umræðunni snýst þetta um eitthvað allt annað. Fyrir útgerðina er þetta bara lína í sandinum; það ógnar enginn frelsi hennar til þess að gera nákvæmlega það sem hún vill. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru auðvitað byggðir upp á því að hossa útgerðinni og nýta í leiðinni tækifærið til þess að mála sig upp sem skjaldbera atvinnufrelsis og vin litla mannsins sem vill bara fá að mæta í vinnuna án þess að einhverjir skítugir hippar séu búnir að tjóðra sig við mastrið á frumstæða morðskipinu þeirra.
Afleidd, en velkomin áhrif af þessu er líka að þessi umræða sogar til sín allt súrefni í herberginu. Allt pólitíska landslagið og athygli fjölmiðla snúast núna um þessa pínulitlu heimskulegu atvinnugrein og á meðan þurfa yfirvöld ekki að ræða um eða svara fyrir neitt annað á meðan. Þetta er auðvitað gamalgróin pólitísk taktík; tala um allt annað en brennandi húsið á bak við þig. Það er kannski auðveldara að skora pólitísk stig í tilfinningaríkum málefnum heldur en að díla við fullkomlega ósamstíga hugmyndafræði í öllu nema löngunina til að halda vinnunni. Berjum aðeins á Borgarlínunni, fáum Vilhjálm Árnason til að stinga upp á jarðgöngum undir Kársnesið eins og hann sé á mála hjá moldvörpu-djúpríkinu. Sendum nokkra fatlaða hælisleitendur úr landi, potum aðeins í transfólk og dustum svo lýsið af Kristjáni Loftssyni. Aukum aðeins á skautunina í samfélaginu og á meðan þurfum við ekki að tala um hluti sem við virðumst vera algjörlega ófær um að stjórna.
Mávar að stela pulsupökkum
Þessi áætlun virðist reyndar vera að virka fullkomlega ef markmiðið var að rústa algjörlega lífskjörum tekjulægri hópa og einangra ungt fólk á fullkomlega ónýtum leigumarkaði þar sem samningsstaða leigjenda er engin. Fólk getur auðvitað freistað þess að komast í eigið húsnæði. Ekkert mál. Eina sem maður þarf að gera er að eiga 15 milljónir í peningum og þá getur maður valið um að taka óverðtryggt lán og borga af því allar ráðstöfunartekjur sínar, eða verðtryggt lán, borga minna núna, en svona 900 milljónir þegar allt kemur til alls. Samt hækkar fasteignaverð bara og verðbólgan stefnir enn upp. Engin bönd á hagnað eða arðgreiðslur stórfyrirtækja, engin bönd á leigumarkaðinn, engar takmarkanir á ferðaþjónustu eða minnstu tilraunir til þess að stýra hamslausu flæðinu, bara græða meira núna strax.
Í sumar tók hópur máva yfir hverfið mitt. Allt einu sveimuðu þeir eins og hrægammar yfir bakgörðum, trampólínum og girnilegum grilluðum pylsum sem snarkaði í á ótal grillum. Ég stóð einu sinni á svölunum og horfði á einn pattaralegan sílamáv stinga sér niður og grípa heilan pakka af pylsubrauði sem lánlaus fjölskylda hafði litið af eitt andartak, rífa hann upp og gleypa hvert einasta brauð í einum munnbita áður en hann skildi plastpakkningarnar eftir óflokkaðar í garðinum. Ég skildi hann vel; hver veit hvenær hann kæmist næst í óopnaðan pulsupakka.
Það sagði mér eitt sinn sjómaður ósmekklega sögu af því hvernig einn hásetinn hafði skemmt sér á sjónum. Hann hafði fyrir tilviljun komist að því að ef maður sletti smá slori á einn mávinn sem sveimaði í kringum skipið myndu allir hinir mávarnir ráðast á hann, tæta hann í sig og éta upp til agna. Svo héldu þeir bara áfram að sveima í bið eftir næsta slorbita.
Mér líður stundum eins og afstaða Íslendinga til fjármála sé genetísk afleiðing árhundraða undirokunar; bara prentað inn í erfðaefnið í okkur að við vitum aldrei hvenær næstu krónur koma inn og þess vegna sé fyrir öllu að hamra og hámarka og kreista hverja einustu krónu sem dettur úr vasanum á leigjendum, neytendum og fjölskylduföðurnum frá Michigan sem álpaðist til að kaupa bjór á 2.500 krónur því hann var ekki alveg kominn með gengisútreikninginn á hreint. Fórnarlömb örvæntingarfullra sílamáva sem kunna ekki að endurforrita sínar lægstu hvatir, tilbúnir að tæta í sig hvern þann sem fær á sig minnstu slorslettu. Eða lítur smá út eins og pattaralegt pylsubrauð í Laugarnesinu.
Athugasemdir (1)