Um daginn láðist mér að borga reikning fyrir íþróttaiðkun barnsins míns upp á 20 þúsund krónur. Eftir nokkrar vikur var reikningurinn orðinn 16 þúsund krónum hærri vegna innheimtugjalda. Í stuttu máli var um rangan reikning að ræða, sem ég hafði aldrei átt að fá, en eftir stendur að fjölmargir foreldrar eiga eflaust í erfiðleikum með að greiða reikninga eins og þennan og hvað þá eftir tæplega tvöföldun.
Í innheimtulögum er tekið fram að innheimta megi ekki „valda óþarfa tjóni“. Þar er tekið fram að innheimtukostnaður skal vera það sem „hóflegur getur talist“. Þessi kostnaður frá Greiðslumiðlun, systurfélagi Motus, sem er hluthafi í og samstarfsaðili appsins Sportabler sem flest íþróttafélög nota nú í samskiptum við börn og foreldra, féll innan þeirra marka sem er skilgreindur hóflegur í reglugerð ráðherra.
Fyrir nokkrum árum var ég nýlega fráskilinn með tvö börn og að basla við að halda íbúðinni, með því að leigja hana út í sumarfríinu og gista hjá ættingjum. Mér varð á að taka ekki eftir því að tryggingareikningur hafði ekki greiðst af greiðsluþjónustu. Auðvitað ber maður ábyrgð á sjálfum sér, en stundum glatast yfirsýnin vegna sérstakra aðstæðna eða fyrir misskilning. Tryggingarfélagið mitt setti kröfuna fyrir tryggingunum í innheimtu hjá mismunandi innheimtufyrirtækjum. Krafan var brotin upp eftir tegundum trygginganna og sett sem þrjár kröfur í innheimtu hjá mismunandi innheimtufyrirtækjum. Þetta margfaldaði kostnaðinn, þannig að innheimtukostnaðurinn einn og sér varð 80 þúsund krónur að núvirði vegna þessa eina tryggingareiknings. Milliinnheimtan svokallaða telur nefnilega eftir fjölda en ekki bara upphæð kröfu og því verður kostnaðurinn, eða tekjur innheimtufyrirtækisins, meiri eftir því sem kröfurnar eru fleiri. Með þessari aðferð náði tryggingafélagið sannarlega að „valda óþarfa tjóni“. Þetta þýddi að peningur sem átti að vera fyrir ferðalagi um landið með börnin um sumarið var ekki lengur til.
Sem betur fer náði ég að fá tryggingarfélagið til að fella niður innheimtukostnaðinn með því að skrifa bréf til félagsins, þar sem ég lýsti misskilningnum og sagði að ég hefði skipt við félagið til þess að forðast tjón frekar en að verða fyrir tjóni.
Við skiptum okkur óformlega eða formlega í hópa. Við erum við en hin eru hin. Við tölumst við en tölum um hin. Forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins í dag - „Tekjur af innheimtu á uppleið“ – kemur af sjónarhóli þess sem er í hópi þeirra fjársterku og horfir niður til hinna, andlagsins, þeirra sem kosta til teknanna með vandræðum sínum sem aukast enn við vaxandi tekjur innheimtufyrirtækjanna. Auðvitað er þetta viðskiptafrétt og fjallar um rekstur fyrirtækis í tölum, frekar en siðferði eða sálfræði út frá sjónarhóli tekjulindarinnar. Þarna birtist hinn einfaldi og kaldi, samfélagslegi sannleikur innheimtufyrirtækjanna. Viðmælandinn, framkvæmdastjóri Inkasso-Momentum, glímdi við tap í fyrra, aldrei þessu vant, en boðar nýliðun í tekjulindinni. Eigandi og stjórnarformaður félagsins, Skorri Rafn Rafnsson, hefur áður verið brautryðjandi í smálánastarfsemi.
Innheimtukostnaður leggst yfirleitt á fólk sem er í tímabundnum vandræðum með að ná utan um líf sitt eða hreinlega gerir mistök. Sjaldnast er það ásetningur um að hlaupast undan ábyrgð, eins og sést af verri afkomu innheimtufyrirtækja þegar efnahagsástand er gott. Hins vegar er það einmitt fólkið sem er í vandræðum sem verður fyrir mesta tjóninu af völdum óhóflegra innheimtuaðgerða, bæði fjárhagslegu og sálrænu. Það eru ekki bara tölur á blaði þegar maður sér fram á að geta ekki farið í sumarfrí með börnin vegna innheimtukostnaðarins, hvað þá þegar fólk hefur ekki efni á að borða. Sama upphæðin hefur allt aðra og dýpri merkingu fyrir fólk í fjárhagsvanda en fjármagnseigendur.
Hóflegi innheimtukostnaðurinn sem er skilgreindur í reglugerð ráðherra er hámark innheimtukostnaðar, út frá kostnaði við innheimtu. Innheimtufyrirtækjum og fyrirtækjum almennt er því fullfrjálst að hafa hann lægri en hámarkið, enda hefur kostnaður við innheimtu og samskipti lækkað með tækniframförum. Samkvæmt reglugerð um innheimtu tekur innheimtukostnaðurinn „mið af kostnaði kröfuhafa“. Út frá því er vafasamt að innheimtufyrirtæki séu rekin með teljandi hagnaði.
Eins og alltaf reyna fyrirtæki að hámarka hagnað sinn og því munu innheimtufyrirtæki alltaf reyna að græða sem mest á fólki í greiðsluerfiðleikum. Rétt eins og Greiðslumiðlun Íslands, félag í sömu samstæðu og innheimtufélagið Motus, sem hefur undanfarin ár hagnast um liðlega hálfan milljarð á ári, fyrir utan síðustu tvö, þegar niðursveifla var í vanskilum, að hagnaðurinn var um aðeins 200 milljónir á ári, en munurinn var helst minni hagnaður Motus. Bjartari tíð virðist þó runnin upp á þeim sjónarhóli. Ef fólk upplifir hins vegar að viðskiptafyrirtæki beitir það mestu mögulegu þvingunum er full ástæða til að íhuga hvort það sé í réttu viðskiptasambandi.
Athugasemdir (1)