Stundum segi ég sögur handa börnum í huganum um samtímann okkar. Það er alveg voðaleg lífsreynsla.
Ég þekkti einu sinni mann sem viðhélt svokallaðri „úreltri ævintýramennsku“. Hann elskaði að láta aðra drepa stór og tignarleg spendýr í útrýmingarhættu. Hann einangraðist alveg frá umheiminum og varð að ógurlegum þorpara. Honum var alveg sama hvað öðrum fannst, enda svakalega ríkur af peningum en fátækur af ást. Þegar hann talaði opinberlega þá herptist röddin og hann dró augað í pung. Alveg eins og alvöru þorpari. Hann elskaði að skrökva um mikilvægi hvaladrápa fyrir þjóðarbúið. Alltaf að gera sitt besta.
Svo þekkti ég einu sinni stjórnmálafólk sem var svakalega duglegt við lagatúlkun. Það setti ógurlega ríka konu í valdastöðu sem átti að sannfæra fólk um að lögin væru mikilvægari en velferð fólks, jafnvel þótt hún hafi einu sinni skrifað heilan pistil um að fólk kæmi fyrst, kerfið svo. Hún ólst upp í dísætri sykurverksmiðju sem allir á Íslandi elskuðu. Hennar fyrsta verk var best fyrir flokkinn og með herpta rödd og augað dregið í pung. Það var nefnilega þannig að flokkurinn hennar vildi safna einni tegund spendýra, manneskjunni, saman á einn stað þvert gegn vilja þeirra, eins og fangelsi. Kannski langaði hana meira að vera bara heima og borða rjómaís eins og þegar hún var lítil, en hún gerði sitt besta og sagði fólkinu að lögin væru frábær, fangabúðirnar væru sko bara „búsetuúrræði“ sem stuðla skyldi að farsælli heimkomu manneskjunnar, jafnvel þó hún vildi bara eiga heima á Íslandi.
Hvalamaðurinn og konan í valdastöðunni vissu þó bæði innst inni, að farsæl heimkoma þessara spendýra væri ein og sú sama. Að vera dregin, sundurtætt og blóðug, á óþekktar slóðir lands með sprengiskutul í heila eða hjarta. Þau voru bara að gera sitt besta. Þeirra besta var bara ekki fyrir öll spendýrin. Aðeins fá, aðeins hin útvöldu.
Athugasemdir (1)