Það var létt yfir Lars Fruergaard Jørgensen aðalframkvæmdastjóra Novo Nordisk þegar hann kynnti uppgjör annars ársfjórðungs þessa árs fyrir tíu dögum. Og framkvæmdastjórinn hafði ríka ástæðu til að brosa breitt, reksturinn hefur aldrei gengið betur. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hagnaðist Novo Nordisk um 19,8 milljarða danskra króna og um 19,4 milljarða á öðrum ársfjórðungi. Þetta jafngildir um það bil 760 milljörðum íslenskra króna, eftir skatta. Framkvæmdastjórinn sagði að það væri gaman að fagna aldarafmæli fyrirtækisins með þessum hætti.
Fjórmenningarnir í Toronto
Frederick Banting, Charles Best, James Collip og John Mcleod. Þessi nöfn klingja kannski ekki bjöllum en fjórmenningarnir á bak við þau eiga heiðurinn af því sem oft er kallað ein merkasta uppfinning á sviði læknavísindanna á síðustu öld, insúlín. Efninu sem gjörbreytti lífi og lífslíkum sykursjúkra. Áður en insúlínið kom til sögunnar var sykursýki banvænn sjúkdómur.
Árið 1869 hafði Þjóðverjinn Paul Langerhans uppgötvað eyjafrumur í brisinu sem framleiddu insúlínhormónið. Margir reyndu að einangra virka efnið sem brisið framleiðir en það var ekki fyrr en árið 1921, sem það tókst. Þeir sem það gerðu voru áðurnefndir fjórmenningar sem allir störfuðu við háskólann í Toronto í Kanada. Ári síðar, 1922, var efnið talið nægilega þróað til að hefja tilraunir hjá mönnum.
Samið var við lyfjafyrirtækið Eli Lilly & Co um framleiðslu efnisins. Fyrsti sjúklingurinn sem sprautaður var með insúlíni var Leonard Thompson, 14 ára drengur sem var nær dauða en lífi þegar hann fékk fyrstu sprautuna. Hann lifði svo í 13 ár, en lést úr lungnabólgu í apríl 1935.
Nóbelsverðlaunin
Uppgötvun fjórmenninganna við Toronto háskólann vakti mikla athygli víða um lönd. Nóbelsnefndin í Stokkhólmi var fljót að átta sig á mikilvægi uppgötvunar vísindamannanna í Kanada, og veitti árið 1923 þeim Banting og Macleod Nóbelsverðlaunin í læknisfræði.
Athygli vakti að samstarfsmanna þeirra Banting og Macleod, þeim Best og Collip, var að engu getið. Í kjölfarið hófust miklar deilur um hverjum bæri mestur heiður af þróun lyfsins, þeim lauk með því að þeir Banting og Macleod deildu verðlaununum með Best og Collip. Nóbelsnefndin afsakaði sig með því að hún hefði ekki haft upplýsingar um þá Best og Collip og hreinlega ekki vitað að þeir hefðu komið við sögu. Ekki voru allir jafntrúaðir á þær skýringar.
Danir voru fljótir til
Eins og áður var nefnt vakti uppgötvun fjórmenninganna í Toronto mikla athygli víða um heim. Danski lífeðlisfræðingurinn August Krogh, sem hlotið hafði Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 1920 brá sér vestur um haf árið 1922 og kom til baka með einkaleyfi til framleiðslu og sölu á þessu nýja undralyfi (orðalag danskra blaða) í Skandinavíu.
Árið 1923 stofnaði August Krogh ásamt eiginkonu sinni Marie, Hans Christian Hagedorn og August Kongsted fyrirtæki sem fékk heitið Nordisk Insulinlaboratorium, síðar nefnt Nordisk Gentofte. Marie og Hans Christian voru læknar og August Kongsted lyfjafræðingur. Hann hafði ásamt öðrum manni stofnað Løvens Kemiske Fabrik (heitir nú Leo Pharma) og Løvens apotek árið 1908. Þess má geta að Marie Krogh, sem hafði fengið sykursýki árið 1920, var meðal þeirra fyrstu sem notuðu „danska“ insúlínið.
Strax eftir að „danska“ insúlínið kom á markaðinn kom í ljós að mikil eftirspurn var eftir þessu „undralyfi“ eins og það var stundum kallað. Árið 1930 voru dönsk insúlínlyf í boði í 40 löndum.
Pedersen bræðurnir
Skömmu eftir stofnun Nordisk Insulinlaboratorium réðst Harald Pedersen, tæknimenntaður vélstjóri, til fyrirtækisins og Thorvald bróðir hans skömmu síðar. Vegna ósamkomulags hætti Thorvald fljótlega og Harald hætti í kjölfarið. Þeir bræður stofnuðu árið 1924 eigið fyrirtæki Novo Terapeutisk Laboratorium, það fékk síðar heitið Novo Industri A/S. Fyrirtæki þeirra bræðra og Nordisk Insulinlaboratorium áttu í harðri samkeppni um árabil og haft var eftir einum fyrrverandi forstjóra að sú samkeppni hefði einungis leitt til góðs, „það þýddi ekki að sofa á verðinum“.
Stærsti framleiðandi insúlíns í heiminum
Saga þessara tveggja fyrirtækja verður ekki rakin hér en árið 1989 sameinuðust þau undir heitinu Novo Nordisk A/S og til varð stærsti insúlínframleiðandi í heimi.
Novo Nordisk hefur vaxið og dafnað, aðaláherslan er eins og í upphafi framleiðsla insúlíns en einnig framleiðir fyrirtækið önnur lyf. Í dag eru starfsmenn um það bil 55 þúsund, þaraf 18 þúsund í Danmörku, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru. Framleiðslan fer fram í 16 verksmiðjum í 8 löndum auk Danmerkur eru verksmiðjur í Alsír, Brasilíu, Kína, Frakklandi, Japan, Bandaríkjunum og Rússlandi (a.m.k til skamms tíma). Þróunar- og rannsóknarstofur eru í Danmörku, Indlandi, Kína, Bretlandi og Bandaríkjunum. Lyf sem Novo Nordisk framleiðir eru seld í að minnsta kosti 170 löndum.
Nýjustu mjólkurkýrnar
Þótt rekstur Novo Nordisk hafi gengið vel gegnum tíðina verður yfirstandandi ár algjört metár, ef svo fer fram sem horfir. Eins og fyrr var nefnt nemur hagnaðurinn fyrstu sex mánuði ársins jafngildi 760 milljarða íslenskra króna.
Ástæðurnar fyrir þessari góðu útkomu eru einkum tvær Annars vegar lyf sem heitir Wegovy, stungulyf sem ætlað er fólki sem glímir við ofþyngd og vill léttast. Eftirspurnin er svo mikil að Novo Nordisk hefur ekki undan við framleiðsluna. Hins vegar er sykursýkislyfið Ozempic, stungulyf sem notað er einu sinni í viku. Ozempic er á markaðnum hér á landi en Wegovy er ekki, enn sem komið er, fáanlegt hér á Íslandi.
Í umfjöllun danska útvarpsins DR fyrir skömmu kom fram að 13 prósent af öllum útflutningstekjum Dana á síðasta ári komu frá Novo Nordisk og fyrirtækið er hið langstærsta í landinu. Í viðtali við danska útvarpið sagði Lars Fruergaard Jørgensen aðalframkvæmdastjóri Novo Nordisk að stjórnendur fyrirtækisins væru vel meðvitaðir um þá miklu ábyrgð sem hvíldi á herðum þeirra í dönsku efnahagslífi. Hann greindi jafnframt frá því að fyrirtækið hefði tekið ákvarðanir um áframhaldandi uppbyggingu í Danmörku. „Við gleymum ekki upprunanum og hér eftir sem hingað til verður Danmörk móðurskipið í allri okkar starfsemi.“
Fékk August Krogh þá bara einkaleyfi í tveimur af sex af norðurlöndunum noregi og svíþjóð en ekki í sínu heimalandi danmörku ?