Lengi var litið á Ísland sem afar jafnt samfélag og því jafnvel haldið fram að ójöfnuður væri varla til staðar. Fræðafólk hefur bent á að þrátt fyrir að launaójöfnuður á Íslandi sé tiltölulega lítill í alþjóðlegu samhengi, hefur slíkur ójöfnuður ávallt verið til staðar. Þannig hefur Stefán Ólafsson bent á að ójöfnuður hefur aukist og dregist saman á víxl síðustu áratugi. Slíkar breytingar gerast ekki af tilviljun heldur eru afleiðing af ákvörðunum sem teknar eru og skipta ákvarðanir stjórnvalda þar miklu máli. Það eru ýmsar leiðir færar til að draga úr launaójöfnuði en ein sú algengasta er að beita skattakerfinu. Hér á landi hafa verið notuð skattþrep þar sem greiddur er ríflega 30% skattur af tekjum upp að u.þ.b. 410.000 krónum en hlutfallið er rúmlega 46% af tekjum sem fara yfir rúmlega 1,1 milljón. Eðlilega eru mismunandi skoðanir á hvernig skattakerfið eigi að vera og á meðan sumum finnst skattheimta of há heyrast háværar raddir um að þeir efnamiklu greiði ekki nægilega til samfélagsins og hefur þar verið bent á að fjármagnstekjuskattur er verulega lægri en tekjuskattur. Þannig greiðir einstaklingur sem fær 2 milljónir á mánuði í gegnum vaxtatekjur minna af þeirri upphæð heldur en sá sem vinnur fyrir sömu upphæð á vinnumarkaði.
Í lýðræðisríkjum eiga stjórnvöld að vinna í þágu almennings og því er mikilvægt að skilja viðhorf almennings til þeirra ákvarðana sem teknar eru. Við höfum staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum (Alþjóðlega viðhorfakönnunin, www.issp.org) sem tengjast brennandi málefnum í samfélaginu í meira en áratug. Könnun með sérstaka áherslu á ójöfnuð var fyrst lögð fyrir 2009 og síðan endurtekin 2020. Í nýjustu könnuninni kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga, rúmlega 80%, telja að tekjumunur sé of mikill og rúmlega 70% telja það ábyrgð stjórnvalda að draga úr tekjumun. Við sjáum líka að mjög lágt hlutfall, einungis um 7%, telur að stjórnvöld hafi náð árangri við að draga úr tekjumun og hugsanlega má að einhverju leyti skýra það með þeirri trú almennings að flest stjórnmálafólk skeyti ekki um að draga úr tekjumun há- og láglaunafólks, en tæplega 61% svarenda eru sammála því. Í þessum könnunum er einnig spurt um viðhorf til hátekjuskatts, bæði hvort slíkir skattar séu of lágir eða of háir sem og réttlæti þess að fólk með háar tekjur greiði hærra hlutfall en þeir sem eru með lágar tekjur. Hér á eftir rýnum við í niðurstöður þessara tveggja spurninga, annars vegar samanburð á afstöðu Íslendinga til þeirra 2009 og 2020 og hins vegar hvort greina megi hópamun í viðhorfum árið 2020.
Greiðir hátekjufólk nægilega mikið til samfélagsins?
Mynd 1 sýnir niðurstöður fyrir spurninguna um hvort skattar fyrir hátekjufólk séu of lágir, passlegir eða of háir. Niðurstöðurnar sýna að stór hluti þjóðarinnar telur að slíkir skattar séu of lágir. Hlutfallið var ríflega 46% árið 2009 en tíu árum síðar er það meira en helmingur sem telur svo vera. Að sama skapi er það frekar lágt hlutfall sem telur að slíkir skattar séu of háir en árið 2009 var um fimmtungur á þeirri skoðun en það hlutfall hafði lækkað í tæp 16% tíu árum síðar. Niðurstöðurnar eru því skýrar, mikill meirihluti er fylgjandi hátekjuskatti þar sem flestir telja að hátekjufólk borgi of lítið og þar á eftir koma þeir sem telja að skattarnir séu passlegir í núverandi kerfi.
Rannsóknir sýna að oft fara viðhorf eftir stöðu, hagsmunum og/eða hugmyndafræði einstaklinga. Niðurstöður okkar sýna að eldra fólk er líklegra til að telja að skattar á hátekjufólk séu of lágir en tekjuhærri svarendur síður líklegir til að álíta slíka skatta of lága. Varðandi hugmyndafræðilega þætti er nærtækast að skoða hvort stjórnmálaskoðanir, mældar með því hvaða flokk svarendur kusu síðast (vísar til kosninganna 2017 í okkar gögnum) mótar viðhorf til hátekjuskatts. Mynd 2 sýnir líkurnar á að stuðningsfólk þeirra stjórnmálaflokka sem nú sitja á þingi sé sammála þeirri staðhæfingu að skattar á hátekjufólk séu of lágir. Þar kemur ekki á óvart að stuðningsfólk flokka sem eru lengra til vinstri eru líklegri til að vera sammála þessari staðhæfingu en stuðningsfólk flokka til hægri er ólíklegra til þess. Þannig eru 73% líkur á að svarandi sem kaus VG í síðustu kosningum sé sammála því að skattar á hátekjufólk séu of lágir en einungis 24% líkur fyrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Stóra myndin er sú að stjórnmálaskoðanir skipta verulegu máli varðandi viðhorf til hátekjuskatts og raðast nokkurn veginn eftir vinstri og hægri væng stjórnmálanna.
Er réttlátt að þeir tekjuháu greiði meira?
Mynd 3 sýnir niðurstöður um hvort tekjuháir eigi að borga stærri, minni eða sama hluta af launum sínum í skatt og tekjulágir. Niðurstöðurnar sýna afgerandi stuðning við að tekjuháir greiði stærri hluta, en árið 2009 voru rúmlega 75% sammála því og var það hlutfall komið upp í tæp 78% tíu árum síðar. Nánast enginn er sammála því að tekjuháir eigi að greiða minna hlutfall en tekjulágir, sem getur þó orðið raunin þegar tekið er tillit til þeirra sem nánast eingöngu hafa fjármagnstekjur.
Þegar hópamunur er skoðaður kemur fram að eldra fólk er líklegra til að segja að tekjuháir eigi að greiða stærri hlut, en ekki koma fram marktæk áhrif kyns, menntunar eða tekna. Aftur er það hugmyndafræðileg afstaða út frá stjórnmálaskoðunum sem mótar viðhorf til þrepaskipts skattakerfis. Mynd 4 sýnir líkurnar á því að svarendur séu sammála því að tekjuhærri eigi að greiða stærra hlutfall í skatta en tekjulágir eftir því hvað þau kusu í síðustu kosningum. Þar sést að þau sem kusu Vinstri græn hafa 94% líkur á að vera sammála því að tekjuháir greiði stærra hlutfall og kjósendur Framsóknar og Samfylkingar eru ekki langt undan.
„Mikill meirihluti Íslendinga vill jafnara samfélag þegar kemur að tekjum heldur en þeir upplifa.“
Hins vegar hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins 59% líkur á að vera sammála því að tekjuháir eigi að greiða stærra hlutfall í skatt. Það er greinilegt að viðhorfin raðast að einhverju leyti eftir hvar flokkarnir raðast á skalann frá vinstri til hægri og þó að skýr munur eftir stjórnmálaflokkum komi fram, er stóra myndin sú að yfir helmingur kjósenda allra flokka telur eðlilegt að þau sem eru tekjuhá greiði stærri hluta til samfélagsins en þau sem eru tekjulág.
Hvað finnst Íslendingum um skattakerfið?
Niðurstöður okkar sýna að Íslendingar eru fylgjandi þrepaskiptu skattakerfi og vilja að þau sem hafa hærri tekjur leggi meira til samfélagsins. Það er afgerandi stuðningur við að tekjuháir greiði stærri hluta og meirihluti þjóðarinnar telur að tekjuháir greiði of lítið í skatt í núverandi kerfi. Stjórnmálaskoðanir, út frá því hvaða flokkur var valinn í síðustu kosningum, skipta miklu máli við að móta viðhorf og raðast út frá hugmyndafræðilegri nálgun flokkanna varðandi ójöfnuð og velferðarkerfið. Það má einnig sjá að það er verulegur ágreiningur á milli stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna, sem er líklegt til að valda erfiðleikum í stjórnarsamstarfinu þegar kemur að umræðu um hvernig samfélag við viljum skapa og hvernig samfélagi við viljum búa í. Það er þó greinilegt að mikill meirihluti Íslendinga vill jafnara samfélag þegar kemur að tekjum heldur en þeir upplifa og telja skattakerfið eðlilega leið til að ná því takmarki.
Jón Gunnar Bernburg er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Athugasemdir