Nú þegar áhugi á kvennafótbolta færist sífellt í aukana á Englandi, vegna frábærs árangurs landsliðsins á alþjóðamótum undanfarin misseri, þá er gaman að minnast þess að þvert ofan í það sem margir halda, þá er þetta alls ekki í fyrsta sinn sem kvennabolti hefur náð vinsældum í þessu fæðingarlandi fótboltans.
Þegar árið 1881 fóru fram átta eins konar landsleikir í kvennafótbolta milli Englands og Skotlands. Í fyrsta leiknum hafði England frumkvæðið í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora. Snemma í seinni hálfleik skoraði Lily St. Clare fyrir Skota og þær skosku bættu síðan við tveim mörkum sem þær Louise Cole og Maud Rimeford skoruðu. Skotland vann því 3-0.
Þetta voru þó varla alvöruleikir heldur eins konar sýningar- eða skemmtiatriði sem sett voru upp milli farandleikflokka sem þá var algengt að færu um sveitir og bæi Bretlands.
Athugasemdir