Matthew Syed er blaðamaður breska dagblaðsins The Times. Matthew hóf starfsferil sinn þó á öðru sviði. Í tæpan áratug var hann fremsti borðtennisleikari Breta. Hann vann fjölda titla og keppti tvisvar á Ólympíuleikunum.
Árið 1995, þegar Matthew náði 1. sæti á lista yfir bestu borðtennisspilara Bretlands, hugsaði hann með stolti til allra borðtennisæfinganna sem hann hafði mætt á, allra mótanna sem hann hafði sótt, eljuseminnar sem lá til grundvallar færni hans og fleytti honum að endingu á toppinn.
Tveimur áratugum síðar var honum falið að gagnrýna bók fyrir The Times. Eftir lestur bókarinnar blasti við honum önnur sviðsmynd.
Matthew ólst upp í úthverfi Reading. Hann veitti því athygli að borgin hafði getið af sér óvenju marga atvinnumenn í borðtennis. Fimm Englandsmeistarar komu úr sömu götu og Matthew bjó við sem barn. Um tíma tilheyrði helmingur allra bestu borðtennisleikara landsins borðtennisklúbbnum sem stóð við enda götunnar hans. Hvernig stóð á þessu?
Ástæðan var einföld. Við grunnskólann sem krakkarnir í götunni sóttu starfaði framsýnn borðtennisþjálfari. Öll börn sem sóttu skólann fengu tækifæri til að spreyta sig í borðtennis. Þau sem sýndu íþróttinni áhuga fengu aðgang að borðtennisklúbbi í hverfinu þar sem þau gátu spilað allan sólarhringinn. Þegar börnin útskrifuðust úr grunnskóla höfðu mörg þeirra varið þúsundum klukkustunda við iðkun borðtennis.
Það munaði hársbreidd – eða nánar tiltekið einu húsnúmeri – að Matthew Syed hefði aldrei orðið besti borðtennisleikari Bretlands. Hefði Matthew búið í húsinu við hliðina á æskuheimilinu hefði hann verið í öðru skólaumdæmi. Hann hefði farið í annan grunnskóla, aldrei kynnst borðtennisþjálfaranum og líklega aldrei stigið inn í borðtennisklúbbinn.
Matthew hafði löngum talið uppskriftina að velgengni sinni á sviði borðtennis dugnað og hæfni. Skyndilega varð honum hins vegar ljóst að eitt lykilhráefnið var heppni.
Hroki hinna farsælu
Hátekjulisti Heimildarinnar birtist í dag. Listinn varpar ljósi á lítinn hóp sem sankar að sér miklum auðæfum.
Það hefur lengi verið viðtekin hugmynd að við uppskerum eins og við sáum. Vegni einhverjum vel er það verðleikum viðkomandi að þakka. Það fjarar hins vegar hratt undan þeirri kenningu.
Bókin sem olli því að blaðamaðurinn Matthew Syed sá velgengni sína í nýju ljósi var eftir bandarískan hagfræðing. Í bókinni Velgengni og heppni (e. Success and Luck) hrekur Robert H. Frank þá hugmynd að það séu verðleikar sem skilji milli velgengni og misheppnaðra áforma.
Frank nefnir tölvuforkólfinn Bill Gates sem dæmi. Hann segist ekki efast um að Gates, stofnandi tölvurisans Microsoft og einn ríkasti maður veraldar, sé bæði duglegur og hæfileikaríkur. Hefði Gates hins vegar ekki fyrir tilviljun sótt á æskuárum sínum einn fárra barnaskóla í heiminum sem veittu nemendum ótakmarkað aðgengi að nýrri uppfinningu sem kallaðist tölva, hefði hann ekki smíðað fyrsta tölvuforritið sitt aðeins þrettán ára að aldri.
Frank segir fólk sem njóti efnahagslegrar farsældar oftast vanmeta þáttinn sem hversdagslegar tilviljanir leiki í velgengni þess. Frank er ekki einn um að efast um áhrifamátt verðleikanna.
Í nýjustu bók bandaríska stjórnmálaheimspekingsins Michael Sandel, Kúgun verðleikanna (e. The Tyranny of Merit), segir Sandel trú á verðleika vera skaðlega samfélaginu. Ástæðan sé sú að þeir sem njóti velgengni líti svo á að það sé þeim sjálfum að þakka að þeim vegni vel. Að sama skapi sé þeim sem vegni illa kennt um eigin afdrif.
Eins og Frank segir Sandel flesta gleyma hlutverkinu sem heppni leikur í lífi fólks. Slíkt leiði af sér hroka meðal þeirra sem gangi vel og sé lítillækkandi fyrir þá sem eigi erfitt uppdráttar.
Hin kaldranalega staðreynd
Þau sem skipa hátekjulista Heimildarinnar telja sig vafalaust mörg hafa hreppt sætið vegna verðleika sinna. Hin kaldranalega staðreynd er hins vegar sú að tilviljanir eru helsta hreyfiafl tilverunnar, tilviljanir á borð við í hvaða landi við fæðumst, í hvaða götu, á hvaða tímabili. Michael Sandel bendir til að mynda á að fremsti körfuboltaleikmaður heims, LeBron James, megi þakka fyrir að vera uppi á tímum þar sem færni hans er metin til fjár. Hefði hann fæðst á öðrum tíma eru líkur á að hæfileikar hans hefðu ekki vakið nokkra athygli.
Verðleikar eða tilviljanir. Skiptir máli hver uppspretta velgengni er?
Bæði Michael Sandel og Robert H. Frank eru þeirrar skoðunar að trú samtímans á goðsögnina um verðleika sé eyðileggingarafl.
Michael Sandel kennir trú á verðleika um þann pólitíska og samfélagslega klofning sem sést hefur víða í heiminum síðustu ár. Nefnir hann sem dæmi Brexit í Bretlandi og vinsældir Donalds Trump í Bandaríkjunum.
„Verðleikar eða tilviljanir. Skiptir máli hver uppspretta velgengni er?“
Robert H. Frank telur skaðleg áhrif trúarinnar á verðleikana vera efnisleg. Rannsóknir hans sýna að þeir sem þakka velgengni sína eigin verðleikum eru tregari en aðrir til að greiða tilskilda skatta og gjöld til samfélagsins. Þeir sem telja heppni hafa átt þátt í velgengni sinni greiða hins vegar fúslega í sameiginlega sjóði samfélagsins.
Ofurauður hinna fáu
Árið 1995, sama ár og Matthew Syed hreppti 1. sæti á lista yfir bestu borðtennisspilara Bretlands, söng íslenska hljómsveitin Sólstrandagæjarnir: „Ég er rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi.“
Matthew Syed var réttur maður, á réttum tíma, í réttu húsi.
Nú þegar krossfarar verðleika-trúarsafnaðarins taka að reyna að réttlæta ofurauð hinna fáu er rétt að muna að meint afburðafólk hátekjulistans er ekki annað en það: Réttur maður, á réttum tíma, í réttu húsi.
Athugasemdir (2)