Í nóvember í fyrra skilaði Samband íslenskra sveitarfélaga inn umsögn um framlagt frumvarp þáverandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, um breytingar á lögum um útlendinga. Þar sagði að sambandið teldi að sú boðaða breyting á útlendingalögum að fella niður alla grunnþjónustu til flóttafólks 30 dögum eftir að endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi um umsókn hans til verndar liggur fyrir, myndi fjölga heimilislausum á Íslandi. Það myndi hafa í för með sér aukningu á álagi á félagsþjónustu sveitarfélaga og aukinn kostnað fyrir þau. „Óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar neyðar hlýtur ávallt að vera aukin hætta á því að hlutaðeigandi einstaklingar verði berskjaldaðri fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi.“
Frumvarpið var samþykkt í atkvæðagreiðslu 15. mars síðastliðinn og lögin tóku gildi 1. júlí. Alls 38 þingmenn greiddu atkvæði með þeim. Þrettán atkvæði komu frá Sjálfstæðisflokki, tólf frá Framsókn, sex frá Vinstri grænum, sex frá Flokki fólksins og eitt frá Miðflokki. Enginn þingmaður þessara fimm flokka greiddi atkvæði gegn samþykkt þess en einhverjir voru fjarverandi.
Afleiðingar þessa frumvarps eru nú að koma fram. Alls er búið að synja 53 einstaklingum um vernd frá því að lögin tóku gildi 1. júlí síðastliðinn. Þeim er ætlað að fara úr landi innan mánaðar. Eftir þann tíma missa þeir alla þjónustu og húsnæði. Þeir sem annað hvort vilja ekki eða geta ekki farið neitt annað eru á götunni. Þeir hafast nú meðal annars við í tjaldi í hraungjótu við Hafnarfjörð, undir ruslapokum í rjóðrum eða við almenningsgarða. Einhver hafa leitað í neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk.
Með lagabreytingunni, sem beinist gegn pinkulitlum hópi fólks á flótta, hafa stjórnvöld með fullri meðvitund framleitt nýja tegund af sýnilegu heimilisleysi á Íslandi.
Hugguleg orð yfir hræðilega hluti
Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr dómsmálaráðherra, segir að það sé ekki verið að vísa þessu fólki á götuna heldur úr landi. Ef það fari ekki eftir þeim fyrirmælum þurfi einfaldlega að búa til nýtt úrræði fyrir hópinn. Í samtali við mbl.is segir Guðrún: „Ég hef í hyggju að leggja fram að hér verði tekið upp lokabúsetuúrræði (e. detention center) eins og nágrannalönd okkar eru með. Það er þá húsnæði fyrir fólk sem hefur ekki hlotið dvöl í landinu. Þetta er húsnæði á meðan fólk bíður. Þetta húsnæði er takmörkunum háð.“
Það má kalla slíkt úrræði búsetuúrræði. Það má kalla þau hjartagarða eða blómakofa í tilraunum til að klæða skrímslið í pels og reyna meðvitað að nota hugguleg orð til að hafa áhrif á almenningsálitið. Í eðli sínu er þó hús sem er vaktað, þar sem verðir leita á fólki og þar sem það er ekki frjálst ferða sinna eftir að inn er komið, ekkert annað en tegund fangabúða.
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður flokks sem samþykkti stefnu í málefnum flóttafólks á landsfundi sínum fyrr á þessu ári. Þar segir að íslenskt samfélag eigi að „taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á.“ Þar segir að fordómar sem byggi á „uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum.“
Þótt Katrín segist ekki vera hrifin af því að setja upp lokaðar búðir, þá er fátt í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hún leiðir, né orðræðu þeirra sem hún situr með í þeirri stjórn, í samræmi við þessa stefnu flokks hennar.
Allt sem ég geri er ykkur að kenna
Hundaflaut og strámannapólitík, þar sem fólk á flótta frá ömurleika í örvæntingarfullri leit að öryggi og mannlegri reisn er undir, hefur alltaf verið til staðar hjá ákveðnum hópum innan Sjálfstæðisflokksins.
Nú hefur orðið sú breyting á að forysta Sjálfstæðisflokksins, sem hefur farið með málaflokk útlendinga í 28 af síðustu 32 árum, er skyndilega komin á vagninn. Bjarni Benediktsson, formaður hans, sagði fyrir ríkisráðsfund í júní að Alþingi hefði brugðist í útlendingamálum. Ekki ríkisstjórnin, ekki ráðherrann sem fer með málaflokkinn, heldur Alþingi. Og aðallega hinir sem sitja á þingi. Í ljósi þess meirihlutaræðis sem einkennir störf þingsins, og þess að sitjandi ríkisstjórn er með 38 þingmenn á móti 25 hjá andstöðunni (þar af eru átta úr Flokki fólksins og Miðflokki sem eru mjög hlynntir öllum aðgerðum til að takmarka móttöku á, og þjónustu við, flóttafólk), þá er þessi framsetning formannsins kostuleg.
Bjarni fór svo í viðtal við Þjóðmál, hlaðvarp á vegum flokksmanns með reynslu af því að sparka í flóttafólk, í lok júlí. Þar sagði Bjarni meðal annars að kostnaður við hælisleitendakerfið væri kominn í um 15 milljarða króna á ári og að hver flóttamaður sem bíði úrlausnar kosti ríkissjóð 350 þúsund krónur á mánuði. „Þetta er algjörlega óásættanlegt. Við erum ekki að setja þennan pening í að hjálpa þeim sem við höfum ákveðið að veita vernd. Uppistaðan af þessum peningum er að fara í það að halda uppi fólki sem við höfum ekki ennþá getuna til að svara hvort að fái vernd.“
Valkvæðar staðreyndir
Það er ýmislegt í þessum orðum Bjarna sem er beinlínis rangt, og hann veit það. Hann veit til að mynda að 80 prósent þeirra umsókna sem bárust um alþjóðlega vernd hérlendis á fyrri hluta þessa árs komu frá fólki frá Úkraínu og Venesúela. Hann veit líka að 88 prósent þeirra sem fengu vernd í fyrra komu frá þessum tveimur löndum. Bjarni veit að aukin fjöldi fólks frá Úkraínu og Venesúela sem hingað hefur komið byggir á stjórnvaldsákvörðunum, sem annars vegar veitir Úkraínufólki viðbótarvernd umfram aðra og veitti hins vegar flóttafólki frá Venesúela tímabundna viðbótarvernd. Bjarni veit líka að stór hluti þeirra sem bíða nú eftir afgreiðslu á umsóknum sínum er fólk frá Venesúela sem er í þeirri stöðu vegna þess að Útlendingastofnun, undir miklum þrýstingi frá dómsmálaráðuneytinu, ákvað að hætta að veita sjálfkrafa vernd á grunni þess að aðstæður í Venesúela væru nú ekkert svo slæmar, þegar raunveruleikinn er að staðan þar fer versnandi.
Þetta veit Bjarni vegna þess að það er sitjandi ríkisstjórn, sem hann tekur þátt í að leiða, sem tók þessar stjórnvaldsákvarðanir. Hann er því að gagnrýna ákvarðanir eigin ríkisstjórnar um að aðstoða þetta fólk, sem fylgt hefur stóraukinn kostnaður fyrir ríkissjóð, í viðtalinu.
Þá ætti hann líka að vita að íslensk stjórnvöld hafa óspart nýtt sér glufu sem gerir þeim kleift að telja kostnað við flóttafólk á Íslandi fram sem opinbera þróunaraðstoð. Með því „sparar“ Ísland sér pening sem alþjóðasamfélagið gerir kröfu um að ríkar þjóðir leggi til þeirra sem hafa það verr.
Hræddur flokkur reynir við hrætt fólk
Af hverju varð þessi skyndilega breyting á afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins? Eðlilegast er að draga þá ályktun að flokkurinn vilji beina sjónum almennings frá erfiðri stöðu í efnahagsmálum, villta vestrinu sem ríkir á húsnæðismarkaði eða áralangri kerfisbundinni sveltistefnu gagnvart velferðarkerfum svo hægt sé að skila meira fé í vasann á þeim sem þurfa síst á því að halda. Stöðu sem flokkurinn ber meiri ábyrgð á en nokkur annar. Þá er hentugt að geta bent á nokkra flóttamenn frá Nígeríu eða Írak og sagt að það sé þeim að kenna að ekki sé til peningur, þjónusta eða húsnæði fyrir alla hina.
Önnur eðlileg ályktun er að um pólitíska taugaveiklun sé að ræða vegna sífellt einangraðri stöðu flokksins. Ein birtingarmynd þess var vísir að uppreisn afturhaldsarms Sjálfstæðisflokksins – uppnefndur „Karlakórinn grátbræður“ sem telur allt hafa verið betra í gamla daga þegar Ísland var hvítt og guðhrætt – á ríkisstjórnarsamstarfið í sumar.
Fylgi flokksins mælist auk þess stöðugt umtalsvert minna en það lægsta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nokkru sinni fengið í kosningum og helsti pólitíski andstæðingurinn, Samfylkingin, mælist með miklu meira fylgi mánuð eftir mánuð. Fyrir liggur að flokkarnir í stjórnarandstöðu sem gætu hugsað sér að vinna með Sjálfstæðisflokknum eru langt frá því að vera með nægjanlegt fylgi til að ná meirihluta og báðir samstarfsflokkarnir sem sitja nú í ríkisstjórn með honum hafa lítinn áhuga á að gera það aftur í bili. Vandséð er að óbreyttu hvernig Sjálfstæðisflokkurinn kemur sér í ríkisstjórn í nánustu framtið og við þá stöðu eru forvígismenn orðnir logandi hræddir.
Til að bregðast við þessu hefur flokkurinn valið að fara af fullum krafti inn á veiðilendurnar í leit að atkvæðum þeirra sem hræðast útlendinga og samfélagslegar breytingar almennt. Þar eru fyrir Flokkur fólksins (mælist með 5,7 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup) og Miðflokkurinn (mælist með 8,5 prósent í síðustu könnun Gallup) að berjast um atkvæði í málaflokki sem einungis 15 prósent landsmanna nefndu í nýlegri könnun sem þann málaflokk sem skipti það mestu máli.
Okkur vantar fólk
Það sem gerir þessa leiksýningu alla saman enn fjarstæðukenndari er sú staðreynd að Íslandi vantar fólk. Sem samfélag mokgræðum við á þeim sem koma.
Atvinnuleysi á Íslandi mældist 2,8 prósent í júlí. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur hérlendis síðan árið 2018. Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands liggur svokallað „náttúrulegt atvinnuleysi“ hér á landi á bilinu þrjú til fjögur prósent. Þar er um að ræða atvinnuleysi sem er til staðar meðal annars vegna þess að fólk skiptir um störf, er að ljúka námi eða flytur á milli staða og í flestum tilvikum tekur það einhvern tíma að finna nýtt starf og fólk er án atvinnu á meðan. Atvinnuleysið í dag er langt undir þessu náttúrulega ástandi.
Hér hafa verið teknar pólitískar ákvarðanir um að byggja upp massatúrisma sem útheimtir mikið af starfsfólki. Það fólk er ekki til hér og þarf að koma að utan. Fyrir vikið er fólksfjölgun hérlendis hlutfallslega miklu meiri en í nágrannalöndum okkar.
Bensínið á vaxtarvélina
Fólkið sem vinnur í ferðamannaiðnaðinum þarf að búa einhversstaðar og ferðamennirnir sem hingað koma þurfa gistingu langt umfram það sem hótel og hefðbundnir gististaðir geta annað. Fyrir vikið vantar mikið af húsnæði, sem verður einungis byggt af fólki sem kemur hingað að utan. Opinberar tölur staðfesta þetta. Alls 75 prósent þeirra tæplega 27 þúsund íbúa sem bæst hafa við hérlendis frá byrjun árs 2021 hafa komið að utan.
Flestir sem hingað koma eru ungir og tilbúnir á vinnumarkað. Það stórbætir aldurssamsetningu vinnuaflsins og sparar samfélaginu milljarðatugi í að ala upp samfélagsþegna í gegnum dýrt menntakerfi svo þeir geti farið að leggja sitt af mörkum í framleiðni.
Í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahag Íslands kom skýrt fram það mat að um afar jákvæða þróun fyrir Ísland sé að ræða. Framlag innflytjenda til vergrar landsframleiðslu var áætlað rúmlega sex prósent árið 2030 og rúmlega tíu prósent árið 2040. Vert er að taka fram að þar er varlega áætlað, enda tekur mat OECD ekki tillit til þeirrar miklu aukningar sem hefur orðið frá upphafi síðasta árs, þegar um eitt þúsund erlendir ríkisborgarar hafa að jafnaði flutt til landsins.
Þetta er hópurinn sem gerir það að verkum að hér er hagvöxtur og að lífsgæði hafa, samkvæmt ýmsum efnahagslegum mælikvörðum, aukist.
Lygin um flóttafólk sem leggst á velferðarkerfið
Innflytjendur sem koma hingað til lands eru að uppistöðu annars vegar fólk sem flytur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins hingað til lands í leit að vinnu og betra lífi, og hins vegar flóttafólk.
Mantran um að flóttafólkið komi hingað í bílförmum til að leggjast á velferðarkerfið finnur sér enga stoð í hagtölum. Samkvæmt Guðlaugu Hrönn Pétursdóttur, deildarstjóra flóttamannadeildar hjá Vinnumálastofnun, þá er atvinnuþáttaka flóttafólks á Íslandi „gríðarlega há“. Heimildin greindi nýlega frá því að atvinnuþátttaka flóttamanna frá Venesúela sem komu til Íslands á árunum 2018 til 2022, á tímabilinu áður en Útlendingastofnun ákvað að stöðva sjálfvirka vernd, er hærri en atvinnuþátttaka Íslendinga. Umfang fjárhagsaðstoðar sem allir innflytjendur þiggja frá sveitarfélögum var um 14 prósent lægri upphæð í júní en í febrúar, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Atvinnuleysisgreiðslur til þeirra sem flokkast sem innflytjendur voru fjórðungi lægri heildarfjárhæð í júní en í byrjun árs 2022. Á meðan að fæðingarorlofsgreiðsla að meðaltali á hvern innflytjanda, sem er mun ólíklegri til að fara í fæðingarorlof en Íslendingar, er 280 þúsund krónur á mánuði er hún 311 þúsund á hvern þiggjanda með íslenskan bakgrunn. Innflytjendur, sem eru tæplega 18 prósent íbúa landsins, þiggja 6,6 prósent allra bóta sem Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar greiða út í mánuði. Hægt væri að halda lengi áfram. Tölurnar tala allar sínu máli. Innflytjendur, flóttamenn sem aðrir, þiggja minna af félagslegum greiðslum en aðrir íbúar.
Hinn kaldi sannleikur er einfaldlega sá að kostnaðurinn sem verður til vegna flóttafólks á Íslandi er fyrst og síðast vegna þess að kerfið sem búið er að smíða gerir það að verkum að allt of stórir hópar bíða allt of lengi eftir afgreiðslu umsókna sinna og fá ekki leyfi til að sjá fyrir sér á meðan. Á því ber enginn meiri ábyrgð en flokkurinn sem stýrt hefur málaflokknum meira og minna alltaf.
Sumir eru æskilegri en aðrir
Við skulum bara segja það upphátt: stefna íslenskra stjórnvalda er að þau telja suma útlendinga æskilegri en aðra. Við erum orðin nokkuð dús með alla Evrópubúana sem ganga í afgreiðslustörfin, þrífa klósettin á hótelunum og byggja húsin okkar. Hér hefur ýmislegt verið gert til að lokka erlendra sérfræðinga til landsins, meðal annars með fjárhagslegum hvötum. Hér hafa verið innleiddar reglugerðir til að gefa út neyðarvegabréf sem hægt er að útdeila til sérstaklega æskilegra flóttamanna með góð tengsl við ráðandi öfl. Við tökum við Úkraínumönnum í bílförmum.
En við viljum ekki lengur fá fólk frá Venesúela þrátt fyrir að það hafi sýnt það svart á hvítu hversu vel því gengur að fóta sig á Íslandi. Og við erum tilbúin til að setja hóp fólks á flótta, sem í mörgum tilvikum hefur þegar dvalið hér árum saman, á götuna svo það verði víti til varnaðar fyrir aðra af svipuðum toga sem láta sér detta í hug að sækjast eftir framtíð á Íslandi. Það fólk á það sameiginlegt að eiga ekkert og vera ekki hvítt.
Fólki á flótta í heiminum er ekki að fara að fækka. Stríð, hamfarir og afleiðingar loftslagsbreytinga munu sjá til þess. Ísland, eitt ríkasta land í heimi, mun áfram sem áður verða eftirsóknarverður staður fyrir fólk í leit að betra lífi. Sama hversu margar mannfjandsamlegar lagabreytingar við innleiðum, sama þótt við búum til stærstu lokabúsetuúrræðisbúðir í heimi, sama þótt við myndum múra í kringum landið, þá mun aðsóknin hingað ekki dragast saman.
Við getum vel mótað skýra útlendingastefnu sem byggir á mannúð, ábyrgð, skilvirkni og fyrirsjáanleika. Til þess þarf vilja, framsýni og þor. Kosti sem núverandi stjórnvöld, sem vilja helst loka skítuga fólkið inni svo fyrirmennin í stássstofunni þurfi ekki lengur að horfa á þau, virðast ekki búa yfir.
Nú þegar eru komnir meira en 50 einstaklingar á götuna sem hafa engin úrræði til að sjá fyrir sér á löglegan hátt. Mér skilst að staðan í flóttamannamálum sé sú að búast megi við nokkrum tugum eða jafnvel hundruðum til viðbótar á næstu mánuðum. Amk sumir þeirra geta ekki einu sinnu flutt úr landi því þeir hafa að sögn engin eða fölsuð persónuskilríki. Þetta fólk er neytt til að leita sér lífsviðurværis með svartri vinnu en alls staðar virðast vera til hópar manna sem nota sér ömurlega aðstöðu þess í ábataskyni. Þar myndast neðanjarða hagkerfi sem oft byggist á innbrotum og þjófnaði, mannsali, ofbeldi, eiturlyfjum og betli. Hóparnir koma sér síðan upp eigin öryggissveitum til að verja sig fyrir þeim sem hafa orðið fyrir tjóni og reyna að malda í móinn og til að verja áhrifasvæði sín. Þá fer að styttast í að til verði svæði sem almenningur þorir ekki að fara inn á og vill ekki búa í nágrenni við.
Er það þetta sem Sjálfstæðisflokkurinn sá fyrir þegar hann vopnvæddi lögreglusveitir sem ekki vilja vopnvæðast.
Í Sýrlandi hefur geisað hræðilegt stríð árum saman. Þaðan hefur flúið mikill fjöldi manna undan stríðsógninni.
Það er fróðlegt að bera saman viðbrögð íslenskra stjórnvalda þegar sá straumur flóttamanna stóð sem hæst 2015 og nú gagnvart flóttamönnunum frá Úkraínu.
Er hugsanlegt að munurinn skýrist af því að flestir flóttamanna frá Sýrlandi voru múslimir en flestir frá Úkraínu kristnir ?