Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Valdarán fámála friðargæsluliðans

Hann hafði þann starfa að gæta ör­ygg­is for­seta síns. En ákvað svo að ræna hann völd­um. Fang­elsa og ákæra fyr­ir land­ráð. Í land­inu sem Sa­hara-eyði­mörk­in þek­ur að stærst­um hluta, er Frakk­ar fóru um með of­beldi og eign­uðu sér í meira en hálfa öld, seg­ist hers­höfð­ing­inn Tiani ætla að tryggja frið og auka vel­sæld. Með vald­arán­inu bar hann hins veg­ar olíu að óvild­ar­eldi vest­ur­veld­anna og Rúss­lands. Svo enn á ný er hið landl­ukta Níg­er orð­ið bit­bein póli­tískra afla hinum meg­in á hnett­in­um.

Valdarán fámála friðargæsluliðans
Með eða á móti Viðvera Frakka í tugi ára hefur mótað íbúa Níger. Hluti þeirra vill slíta öll tengsl við gömlu nýlenduherrana en aðrir vilja meina að Nígermenn njóti góðs af þeim. Hin nýja herforingjastjórn vill sem minnst frönsk áhrif. Mynd: AFP

Miðvikudaginn 26. júlí birti nígerska forsetaembættið færslu á Twitter um að hópur úr lífvarðarsveitum forsetans Mohamed Bazoum hefðu gert uppreisn en að herinn væri í viðbragðsstöðu og að forsetinn og fjölskylda hans örugg. Þetta varð til þess að stuðningsmenn forsetans söfnuðust saman við forsetahöllina í höfuðborginni Niamey en var mætt af fyrrnefndum lífvarðarsveitum. Fréttir af uppreisninni fóru sem eldur í sinu um heimsbyggðina og nágrannaríki í Vestur-Afríku sem og Bandaríkin, Frakkland og Evrópusambandið, fordæmdu uppátækið sem einhverjir kölluðu „misheppnað valdarán“.  

Lífvarðarsveitin var hins vegar ekki á þeim buxunum að hörfa. Og aðeins nokkrum tímum seinna birtist hópur brúnaþungra karlmanna í herklæðum í ríkissjónvarpinu til að tilkynna að ríkisstjórn Níger hefði verið steypt af stóli. Að valdaránið hefði ekki misheppnast heldur tekist fullkomlega. „Öryggis- og varnarsveitirnar hafa ákveðið að binda endi á þá stjórn sem þið þekktuð hingað til,“ sagði talsmaður hópsins, hershöfðinginn Amadou Abdramane, við áhorfendur. Landamærum landsins hefði verið lokað, útgöngubann sett á og að allar stofnanir ríkisins hefðu verið leystar upp.

Á sjónvarpsskjánum mátti lengst til vinstri sjá þrekinn karlmann, hávaxnari en hina í hópnum og klæddur drapplitum herklæðum, ólíkt felulitabúningum félaga sinna. Hann heitir Abdourahmane Omar Tiani, var höfuðsmaður lífvarðarsveitar forsetans og lýsti sjálfan sig tveimur dögum síðar forseta umbreytingastjórnar Níger. Sú herstjórn sem þá hafði tekið völdin naut stuðnings hersins sem forsetinn hafði kallað út til að verja sig er hann hafði verið króaður af í höll sinni. Rændur völdum. Og síðar ákærður fyrir landráð.

Í miðri eyðmörkinniNíger er landlukt og á landmæri að mörgum ríkjum.

Nafnið Níger er nokkurra alda gamalt. Evrópubúarnir sem þangað komu sögðu það tengt hörundslit þjóðanna sem bjuggu á svæðinu og höfðu svo gert í árþúsundir. Að þetta væri land „svarta fólksins“. Síðustu áratugi hefur þó uppruni nafnsins verið rannsakaður betur og í ljós komið að svarta fólkinu fannst það ekkert þurfa að kenna svæði við litarhaft sitt heldur árnar, lífæðarnar sem nærðu það og héldu því á lífi. „Á áanna“ er líklegri kenning.

Níger var auðvitað ekki Níger eins og við þekkjum það á landakorti nútímans lengst af. Þar bjuggu fjölmargar þjóðir, smáar sem stórar, stundum undir valdi soldána. Stundum konunga. Ráku búfénað sinn meðfram ánni Níger og að Tjad-vatni. Án þess að fara um formleg landamæri. Langt inn í Afríku, fjarri ströndum heimshafanna þar sem Evrópubúar sáu snemma gullin tækifæri til að stunda viðskipti með náttúruauðlindir hvers konar. Og fólk.

Herrar nýelduveldannaHersveitir Frakka sóttu að svæðinu sem Níger eins og við þekkjum það í dag tilheyrði úr þremur áttum. Þeim tókst áætlunarverk sitt og settu upp sína nýlendu.

Stofnaðar voru svonefndar nýlendur á þessum gjöfulustu svæðum svo flytja mætti auðæfin til að byggja upp lífsgæðin í Evrópu, án afskipta heimafólks. Síðari hluta nítjándu aldar þótti svo tímabært að horfa lengra inn í Afríku. En samkeppnin var mikil og hörð svo úr varð að valdakarlarnir settust niður til fundar í Berlín 1885 og skiptu Afríku bróðurlega á milli sín. Dalur Nígerárinnar, sem nær yfir það svæði sem við þekkjum sem Níger og Malí í dag, kom í hlut Frakka. Upphófust þá blóðug átök því fyrir í fleti voru soldánar og aðrir þjóðhöfðingjar. Frakkar sóttu að svæðinu úr þremur áttum og er leið þeirra til sigurs stráð óhugnanlegum voðaverkum, ránum, nauðgunum og drápum á almennum borgurum.

Meðal þeirra sem stóðu í vegi fyrir frönsku sveitunum var drottning hluta Hausa-þjóðarinnar. Til að leita hefnda fyrir andstöðu hennar gerði ein herdeildin sér lítið fyrir og drap alla íbúa í þorpi einu. Sá dagur, 8. maí 1899, er álitinn einn sá illræmdasti í nýlendusögu Frakka og er þó af nógu að taka í þeim efnum.

Eftir að Frakkar náðu markmiðum sínum stofnuðu þeir nýlendu sem náði yfir svæði sem við þekkjum í dag sem ríkin Búrkína Fasó, Malí og Níger. Þeir deildu lengi vel við Breta um landamærin að þeirra næstu nýlendu, Nígeríu. En komust loks að samkomulagi. Strokuðu út línur og drógu þær aftur upp.

Innfæddir héldu áfram að berjast og áttu Frakkarnir fullt í fangi með að verjast á þessu svæði sem þeir höfðu ætlað að slá hönd sinni á. Þeir vinguðust við suma þjóðhöfðingja en aðrir litu ekki við þeim og börðust til hinsta blóðdropa.

„Öryggis- og varnarsveitirnar hafa ákveðið að binda endi á þá stjórn sem þið þekktuð hingað til.“
Amadou Abdramane,
hershöfðingi.

Sjálfstæði

Í síðari heimsstyrjöldinni höfðu Frakkar í mörg horn að líta og nýlendurnar í Afríku voru ekki efstar á forgangslistanum. Charles de Gaulle, þáverandi forseti Frakklands, lýsti því yfir að nýlendurnar yrðu hluti af franska sambandsveldinu. Árið 1958 fékk Níger sjálfsstjórn og 1960 fullt sjálfstæði frá Frökkum.

Tiani er jafngamall sjálfstæðinu. Hann tilheyrir Hausa-þjóðinni, þeirri sömu og drottningin sem varðist frönsku hersveitunum sem harðast á sínum tíma.

Sjálfskipaður forsetiOmar Tiani er ekki maður margra orða. Hann hefur þó ávarpað Nígermenn í sjónvarpinu tvisvar frá því að valdaránið sem hann leiddi átti sér stað.

Hvort hann er fæddur árið 1960 eða 1961 hefur ekki fengist staðfest. Það kemur svo sem ekki á óvart. Hann er sagður dulur og fámáll. Lítt þekktur nema meðal nánustu samstarfsmanna. Var ekki álitinn pólitískt klókur – eða sérstaklega áhugasamur um pólitík fyrr en hann lét til skarar skríða í lok júlí. Síðan þá hefur hann tjáð sig tvisvar opinberlega en ekki mætt til stórra samstöðufunda með herstjórninni.

Eitt og annað er þó vitað um hans starfsævi.

Tiani hlaut sína herþjálfun í Senegal, Frakklandi, Marokkó, Malí og í Bandaríkjunum.Um tíma var hann friðargæsluliði hjá Sameinuðu þjóðunum, m.a. á Fílabeinsströndinni og í Darfúr-héraði í Súdan. Þá hefur hann einnig verið í þjónustu hers bandalagsríkja í Vestur-Afríku (Ecowas) og lagði hönd á plóginn í Tjad, Nígeríu og Kamerún í baráttunni gegn uppgangi íslamska hryðjuverkahópsins Boko Haram.

Því þykir mörgum það sæta nokkurri furðu að hann hafi risið upp gegn Ecowas og virt að vettugi kröfur þeirra um að gefast upp og færa völdin aftur í hendur Bazoum forseta.

 Vann sig hægt upp valdastigann

Er Tiani var gerður að höfuðsmanni lífvarðarsveita forseta Níger árið 2011 hafði hann ekki áður gegnt sambærilegri stjórnunarstöðu, hvorki í heimalandinu né utan þess. Aldrei áður hafði hann verið í svo miklu návígi við æðstu stjórnendur landsins. Aldrei áður tilheyrt hinum innsta valdahring með allri þeirri pólitísku kænsku og málamiðlunum sem oft þarf til. Lengst af var hann fyrst og fremst „hermaður meðal hermanna“.

Þrátt fyrir að vera kominn í þessa miklu valdastöðu er hann ekki sagður hafa verið gjarn á að tjá sig eða leggja á ráðin um varnir landsins og baráttuna gegn herskáum íslamistum sem hefur tekið verulega á stjórnvöld síðustu ár. Hann hélt skoðunum sínum fyrir sig en naut að sama skapi mikils trausts samstarfsmanna sinna. Forsetarnir tveir sem hann bar ábyrgð á að verja sem yfirmaður lífvarðarsveitanna eru þó sagðir hafa haft lítið saman við hann að sælda þótt þeir hafi treyst honum fyrir lífi sínu.

Við ráðumKarlarnir sem hrifsuðu til sín völdin voru mættir í sjónvarpið daginn eftir að lýsa markmiðum sínum.

Eitthvað var Bazoum hins vegar orðinn ósáttur við höfuðsmanninn og síðustu vikur komst sá orðrómur á kreik að forsetinn væri að undirbúa starfslok verndara síns í hans óþökk. Mögulega hefur persónuleg óvild þeirra á milli vaxið þótt hvorugur sé sagður hafa tjáð sig mikið um hana.

Því er kenningin sú að Tiani, sem eyddi mest allri starfsævinni sem almennur hermaður, hafi þótt hann órétti beittur og ákveðið að hrifsa völdin.

Og núna er hann búinn að koma sér í stöðu þar sem reyna mun á pólitíska kænsku og tengsl. Enn sem komið er lítur hins vegar út fyrir að hann ætli að gera það sem hann kann best: Segja sem minnst en gefa ekkert eftir.

 

Frakkana burtHluti íbúa Níger vill draga úr áhrifum Frakka í landinu. Slíkum boðskap hefur verið haldið á lofti á samstöðufundum á götum úti með herforningjastjórninni.

Það er ekki hægt að fullyrða að herforingjastjórn Tianis njóti almennrar hylli en hún nýtur töluverðrar hylli, svo mikið er víst. Henni hefur tekist að einhverju leyti að höfða til þeirra sem eru enn reiðir vegna yfirgangs Frakka og tengsla þeirra við landið sem til þessa dags hafa, líkt og víðar í Vestur-Afríku, verið þónokkur.

En loforð herforingjanna um að bæta lífskjör fólksins gæti reynst erfitt að uppfylla. Þrátt fyrir að bandalagsríkin, Ecowas, hafi horfið frá hernaðaríhlutun, í bili að minnsta kosti, eru þau þegar farin að beita margvíslegum þvingunum sem m.a. hafa orsakað útbreitt rafmagnsleysi í borgum og bæjum. Þá hafa ríkin hætt allri fjárhagsaðstoð í gegnum stofnanir sínar og takmarkað verulega öll viðskipti við Níger. Þetta gæti orðið herforingjastjórninni dýrkeypt því ein helsta áskorunin er skuldir ríkisins.

Á meðan viðskiptaþvinganir eru lagðar á Níger hækka allar nauðsynjavörur almennra borgara. Það valdatafl sem Tiani og félagar hófu gæti þannig orðið til þess að steypa nígersku þjóðinni, um 24 milljónum manna, ofan í hyldýpi enn meiri fátæktar.  

Samvinnan í uppnámi

En hví eru vestræn ríki að skipta sé af því sem er að gerast í Níger? Helst skal nefna sameiginlega baráttu þeirra og forsetans fangelsaða gegn uppgangi Al Qaida, ISIS og Boko Haram. Á síðustu árum hafa hópar sem kenna sig við þessi hryðjuverkasamtök gert mikinn óskunda í þessum heimshluta og fellt þúsundir manna.

Valdaránið á dögunum er það fjórða sem orðið hefur frá því að Níger varð sjálfstætt ríki fyrir rúmlega sex áratugum. Tiani gæti hafa horft til nýlegra valdarána í nágrannaríkjunum undanfarin ár, m.a. í Burkina Faso, Malí og Gíneu, sem fyrirmyndar. Og þar liggur enn ein skýringin á mikilvægi Níger fyrir vesturveldin síðustu misseri. Í kjölfar þeirra valdarána var nærveru erlendra hersveita, m.a. franskra, ekki óskað lengur í þessum ríkjum. Bazoum forseti tók þeim hins vegar opnum örmum og fékk að launum fjármuni til að þjálfa nígerska herinn og kaupa allra handa búnað til stríðsrekstrar.

ViðskiptaþvinganirBrauðstritið er mikið hjá mörgum íbúum Níger. Þvinganir erlendra ríkja, sem vilja herforingjastjórnina frá og Bazoum forseta aftur að völdum, munu auka á fátækt fólks.

Um 1.000 bandarískir hermenn voru í Níger að minnsta kosti þar til nýverið og um 1.500 franskir hermenn. Eftir því sem næst verður komist sýna þeir ekki á sér neitt fararsnið þrátt fyrir valdaránið og þrátt fyrir að Tiani og félagar hafi krafist þess af þeim frönsku. Hins vegar hafa þúsundir annarra útlendinga verið fluttir á brott á síðustu vikum.

Evrópusambandið hefur svo stólað á nígersk stjórnvöld til að hefta straum flóttafólks frá Afríku og til Evrópu. Á leið sinni að Miðjarðarhafinu hafa margir flúið í gegnum Níger og þaðan til Líbíu.  

„Enginn kostur hefur verið tekinn út af borðinu.“
Bola Tinubu,
forseti Nígeríu.

Tilbúin til innrásar

Nígería og önnur ríki sem tilheyra Ecowas-bandalaginu segjast hafa heri sína tilbúna þótt ekki hafi enn orðið af hótunum inn hernaðaríhlutun. Að sama skapi hafa herforingastjórnirnar í Malí og Búrkína Fasó sagt að slíkt inngrip myndi jafnast á við stríð gegn sér og hafa hótað því að verja herforningastjórnina í Níger með öllum ráðum.

„Enginn kostur hefur verið tekinn út af borðinu,“ sagði Bola Tinubu, forseti Nígeríu, nýverið. Valdbeiting gegn herforingjastjórninni væri lokaúrræðið. „Ef við gerum það ekki mun enginn annar gera það fyrir okkur,“ sagði hann.

Engar blóðsúthellingar hafa fylgt valdaráninu í Níger. Enn sem komið er. Ef ráðist yrði inn í landið gegn herforingjastjórninni, og Malí og Búrkína Fasó kæmu svo til varnar, gæti brotist út mannskæð átök sem ekki yrðu eingöngu bundin við Níger.  

Herforingjastjórnin vill tryggja öryggi í Níger að sögn talsmanna hennar. Nokkur árangur hefur hins vegar náðst á þessu sviði síðustu mánuði og árásum öfgahópa á óbreytta borgara í landinu fækkað umtalsvert.

Hvað svo?

Þar sem Tiani og félagar hafa slitið öll stjórnmálatengsl við Frakka er spurning til hvaða bandamanna þeir munu leita. Rússland hefur verið nefnt í því sambandi. Um það hafa herforingjarnir ekki tjáð sig beinlínis og rússnesk stjórnvöld hafa kallað eftir því að lýðræðislegum stjórnarháttum verði komið á aftur í Níger. Þau hafa einnig varað við hernaðaríhlutunum erlendra ríkja. Hins vegar hefur leiðtogi Wagner-hópsins, skæruliðahóps rússneskra málaliða, lofað valdaránið og boðið herforingjastjórninni aðstoð.

Hver svo sem afskipti Wagner-liða eða rússneskra stjórnvalda verða eða verða ekki er ljóst að valdaránið í Níger hefur komið af stað höggbylgju í hinu pólitíska landslagi víða. Hvort hún fjari út eða verði að risa skjálfta mun skýrast á næstu dögum eða vikum.

Kjósa
15
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Pörusteikin skemmtilegasti jólamaturinn
3
Matur

Pöru­steik­in skemmti­leg­asti jóla­mat­ur­inn

Karl Roth Karls­son kokk­ur starfar á Fisk­fé­lag­inu sem hann seg­ir lengi hafa ver­ið draumastað­inn. Hann hef­ur starf­að lengst á Mat­ar­kjall­ar­an­um, en einnig á Von, Humar­hús­inu, Sjáv­ar­grill­inu og svo er­lend­is. Hann var fljót­ur til svars þeg­ar hann var spurð­ur hver væri upp­á­hald­sjó­la­mat­ur­inn. Það er pöru­steik­in þó svo að hann hafi ekki al­ist upp við hana á jól­um. Karl gef­ur upp­skrift­ir að pöru­steik og sósu ásamt rauð­káli og Waldorfs-sal­ati.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
3
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
Selja aðgang að bílastæðum við Laugardalshöll á 5.990 krónur
6
Fréttir

Selja að­gang að bíla­stæð­um við Laug­ar­dals­höll á 5.990 krón­ur

Bíla­stæð­in næst Laug­ar­dals­höll­inni verða frá­tek­in fyr­ir þau sem eru til­bú­in að borga hátt í 6 þús­und krón­ur fyr­ir að leggja bíl­um sín­um þar á með­an tón­leik­arn­ir Jóla­gest­ir Björg­vins fara fram á laug­ar­dags­kvöld. Hluti stæð­anna sem Sena sel­ur að­gang að standa á landi Reykja­vík­ur­borg­ar við Engja­veg, ut­an lóð­ar­marka Laug­ar­dals­hall­ar­inn­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
4
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
5
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár