„Ef fólk vill ekki fara getur það sótt um hjá sveitarfélagi um aðstoð þó að einhver sveitarfélög kannist ekki við það lagaákvæði núna þá var um það fjallað í umræðunni í vor en það ákvæði hefur verið lengi í lögum og fjallar um útlendinga í neyð,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um það fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd hér á landi og hefur nú verið svipt þjónustu sem Vinnumálastofnun hafði veitt því fyrir hönd ríkisins. Um er að ræða 53 einstaklinga samkvæmt því sem Kristín María Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá ríkislögreglustjóra sagði í samtali við vísi í fyrradag.
Spyr hvort fólkið hafi fengið fullnægjandi upplýsingar
„Það má spyrja sig að því hvort fólk hafi verið upplýst með fullnægjandi hætti um þetta og því bent á sveitarfélögin þar sem þau geta sótt um samkvæmt þessu lagaákvæði,“ segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við Heimildina.
Ákvæðið sem hún nefnir er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar segir að erlendum ríkisborgurum sem ekki eigi lögheimili í landinu skuli „í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Aðstoð skal veitt af dvalarsveitarfélagi að höfðu samráði við [ráðuneytið].“ Þá segir þar að ríkissjóður skuli endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara sem ekki eigi lögheimili á Íslandi.
Samkvæmt þessu skal sveitarfélag sem veitir aðstoð eiga samráð við ráðuneyti.
Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir hins vegar að ekkert samtal hafi farið fram milli ríkis og sveitarfélaga um hvað taki við hjá þeim hælisleitendum sem misst hafi framfæri sitt hjá ríkinu og séu án kennitölu og réttinda í landinu.
Samband íslenskra sveitarfélaga segir skýrt að málaflokkurinn sé á ábyrgð ríkisins og „að nauðsynlegt sé að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu, þar til viðkomandi einstaklingar fara úr landi.“ En bæði Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga gagnrýna stjórnvöld harðlega fyrir þau áhrif sem breytingar á útlendingalögum eru nú byrjaðar að hafa.
Ekki hrifin af búðum þar sem fólk sé ekki frjálst ferða sinna
Katrín segir að í umræðunni hafi verið bent á að þetta sé öðruvísi hér en annars staðar en staðreyndin sé sú að þetta sé svona í sumum löndum. „Og annarsstaðar eru lokaðar búðir fyrir þá sem fá synjun um vernd og sú leið hefur líka verið gagnrýnd hér.“
Tillaga um flóttamannabúðir eða móttökubúðir eins og þær eru stundum kallaðar hafa verið kynntar í ríkisstjórn og sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við RÚV að hann gæti vel séð fyrir sér að slíkt gæti gagnast. „Flest Schengen ríkin eru með svokallaðar brottfararbúðir og þar getur fólk verið mjög lengi og er ekki frjálst ferða sinna,“ segir Katrín.
Spurð hvernig henni hugnist slíkar búðir segir hún: „Ég hef ekki verið hrifin af því.“
Ábyrgð Jóns Gunnarssonar fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins er STÓRT í þessu furðulega máli.
https://samstodin.is/2023/08/samstada-rikisstjornar-midflokks-og-flokks-folksins-um-breytingarnar-a-utlendingalogum/
Guðrún Hafsteinsdóttir núverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins segir útlendingalögin, sem samþykkt voru í mars á þessu ári, virka sem skyldi.
Hvar eru nú hin "kristnu" gildi íhaldsins ?
https://samstodin.is/opinion/ranghugmyndir-um-flottafolk-og-politisk-leiksyning/