Níger er 1.200.000 ferkílómetrar sem þýðir að það er tólf sinnum stærra en Ísland. Landið er í 21. sæti yfir sjálfstæð ríki. Nálæg lönd á þeim lista eru Perú, Angóla, Suður-Afríka og nágrannaríkin Tjad og Malí.
Íbúar eru 24 milljónir, álíka margir og í Norður-Kóreu og Ástralíu.
Miðað við stærð landsins er náttúran í Níger heldur fábreytt því nyrðri hluti landsins er undirlagður Sahara-eyðimörkinni en í syðri hlutanum eru gresjur. Skógur hylur vel innan við eitt prósent landsins.
Þótt það hafi hentað evrópsku nýlenduríkjunum sem lögðu undir sig mestalla Afríku á efri hluta 20. aldar að halda því fram að svæðið sunnan Sahara hafi aðeins verið byggt svokölluðum „frumstæðum þjóðflokkum“ sem bjuggu dreift og óskipulega í smáþorpum án allrar ríkjamyndunar, þá fór því raunar fjarri.
Allt frá því um 500 eftir Krists burð hafa verið á þessu svæði fjöldi ríkja og voru sum þeirra býsna stöndug. Einna fyrst var Gana-ríkið í vestri á mótum Máritaníu og Malí (en ekki í núverandi Gana-ríki) en laust fyrir 800 varð til í austri (Níger, Tjad, Líbíu og Kamerún) ríki sem ýmist er kallað Kanem eða Bornu.
Síðar risu Songhay-ríki og Malí-veldið í vestri. Konungur í því síðarnefna á fyrri hluta 14. aldar var hinn víðfrægi Mensa Músa, sem oft er talinn hafa verið ríkasti konungur sögunnar, bæði fyrr og síðar. Veldi hans var þó skammlíft og á þeim slóðum þar sem Níger er nú risu ýmis ríki Hausa-fólksins. Talið er til tíðinda að Hausar bjuggu í raun við eins konar lýðræði því kóngar þeirra voru kosnir af ættarhöfðingjum víða að af svæðinu.
Fleiri ríki mætti telja en þau voru raunar ekki öll fastmótuð að skipulagi og innviðum, einfaldlega af því landflæmið var mikið, fólkið tiltölulega fátt og af ýmsum þjóðernum, og í norðurhluta landsins voru hirðingjaþjóðir allsráðandi og flökkuðu víða — bundu því ekki trúss sitt við einn sjóndeildarhring frekar en annan.
Flestallir íbúar urðu að lyktum múslimar þótt ýmis eldri trúarbrögð væru mjög lífseig. Árið 1515 var byggð í bænum Agadez fræg moska eftir að stríðsmenn Songhay-ríkis lögðu bæinn undir sig. Hún er byggð úr leir og er hæsta mannvirki heimsins úr því efni — mínarettan eða tilleiðsluturninn er 27 metra hár.
Um 1800 kom fram á sjónarsviðið öflugur trúarleiðtogi af Fulani-þjóðinni, Usman dan Fodio, og kom á fót öflugu kalífadæmi með sjálfan sig sem kalífa. Hreyfing hans var ein ýmissa sem komu fram í múslimalöndum um þær mundir og vildu hreinsa trúna og lögin af allri linkind. Usman sigraðist bæði á ríkjum Hausa og leifunum af Kanem-Bornu ríkinu og til varð Sokoto-ríkið sem var raunar fremur laustengt bandalag ýmissa smærri emír-dæma sem öllu viðurkenndu þó kalífann sem æðsta valdsherra sinn.
Sokoto-ríkið hélt velli alla 19. öldina. Athyglisvert er að um miðja öldina voru taldar 2,5 milljónir þræla í ríkinu en þá er sennilegt að heildaríbúafjöldi hafi nálgast 20 milljónir. Í engu ríki í heiminum voru þá fleiri þrælar nema í Bandaríkjunum þar sem þeir voru um 4 milljónir. Eingöngu var heimilt að hneppa fólk í þrældóm sem ekki var múslimar, en um sama bil var fjöldi íbúa reyndar þvingaður til að undirgangast íslam með góðu eða illu.
Þegar leið að lokum 19. aldar hófst skyndilega kapphlaup evrópsku stórveldanna um nýlendur í Afríku. Margir halda að stórveldin hafi sankað að sér nýlendunum á löngum tíma en sannleikurinn er sá að það gerðist á mjög skömmum tíma og í ýmsum tilfellum um eða jafnvel eftir aldamótin 1900. Fram að því höfðu þau eignað sér ýmis svæði og hafnarborgir við ströndina en nú var farið að sækja inn í lönd.
Margir leiðangrar Vesturlandabúa inn í afrísk lönd voru andstyggilegir, er óhætt að segja. Hér er til dæmis hlekkur á þátt sem Vera Illugadóttir flutti fyrir nokkrum árum um franskan leiðangur meðfram Níger-fljóti.
Þegar Frakkar einsettu sér að leggja undir sig svæðið sem nú kallast Níger gekk það hratt og vel fyrir sig frá sjónarmiði Frakkar. Bretar og Þjóðverjar höfðu malað undir sig syðstu héruð Sokoto-ríkisins sem nú tilheyra Nígeríu og Kamerún og fátt varð um varnir í Níger. Afrísku ríkið höfðu ekki tileinkað sér á nokkurn hátt þær tæknibyltingar allar sem höfðu gengið yfir Evrópu og fengu ekki rönd við reist þegar nýlenduherirnir birtust í upphafi 20. aldar. Mótspyrna Túarega, hinnar frægu hirðingjaþjóðar í Sahara-eyðimörkinni, hélt þó áfram til 1922 þegar Níger var formlega gerð að franskri nýlendu.
Ekki var um harða þjóðfrelsisbaráttu að ræða í Níger eftir að Frakkar tóku þar völdin. Þegar ljóst var orðið að tími nýlenduveldanna væri liðinn veittu Frakkar Níger sjálfstæði árið 1960 og forseti varð þá karl einn sem þeim var þóknanlegur.
Athugasemdir (1)