Nú geta Bretar valið um annað en að láta ýmist grafa sig eða brenna eftir dauðann, en ný aðferð við að meðhöndla lík var lögleidd í Bretlandi fyrr í sumar. Hún felst í því að lík eru leyst upp í efnablönduðu vatni, sem nær 160 gráðu hita, í þrýstitanki sem sérstaklega er hannaður til verksins.
Eftir að líkaminn hefur mallað í þrjá til fjóra tíma í efnablöndunni standa eftir ber beinin, sem eru mulin og afhent aðstandendum í duftkeri. Líkamsleifablöndunni er hins vegar veitt í frárennsli.
Þessi aðferð er ekki ný af nálinni, en hún hefur þegar verið lögleidd í mörgum ríkjum Bandaríkjanna, í Kanada og í Suður-Afríku, auk þess sem nefna má að norska þingið réðst í lagabreytingar í fyrra til þess að heimila tilraunir með aðferðina.
Notkun upplausnaraðferðarinnar er þó ekki útbreidd og vitneskja um hana virðist það ekki heldur, þó að aðeins hafi verið fjallað um aðferðina í fjölmiðlum. Það vakti til dæmis nokkra athygli fjölmiðla er aðferðin var notuð við útför suður-afríska biskupsins Desmonds Tutu í upphafi síðasta árs. Hann hafði haft þá ósk við dauða sinn að gengið yrði frá jarðneskum leifum hans á eins umhverfisvænan hátt og hægt væri.
Talsmenn þessarar aðferðar við meðhöndlun jarðneskra leifa hafa einmitt bent á að þetta sé umhverfisvænna en líkbrennsla, þar sem minni orku þurfi til að „sjóða“ en brenna lík, auk þess sem engar gróðurhúsalofttegundir losni út í andrúmsloftið þegar lík eru leyst upp í vatni.
Í frétt breska blaðsins Guardian var sagt frá því að í skoðanakönnun sem gerð var meðal bresks almennings sögðust nær engir svarendur þekkja til þessarar aðferðar, en heil 29 prósent sögðu, eftir að hafa fengið kynningu á henni, að þeir myndu velja að láta leysa sig upp ef sá kostur væri fyrir hendi.
Kom af fjöllum á bálstofunni
Heimildin ákvað að hafa samband á bálstofuna sem Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis reka í Fossvoginum og athuga hvort þar væri einhver vitneskja um þessa aðferð. Svo reyndist ekki vera, en María Benediktsdóttir, umsjónarmaður bálstofunnar, sagði blaðamanni að hún kæmi alveg af fjöllum.
„Ég hef bara ekkert heyrt um þetta, svo þú ert alveg að segja mér nýjar fréttir,“ sagði hún, en nefndi þó að henni þætti áhugavert að heyra af upplausnaraðferðinni.
Í Fossvoginum er hins vegar einungis verið að brenna.
„Við brennum bara alla hér í ofninum hjá okkur, í kistu og inn í ofn,“ segir María og bætir við að mikil aukning hafi orðið á bálförum undanfarin ár, en hlutfall bálfara er nú orðið um 60 prósent á móti kistugröfum á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta hefur verið rosalega mikil aukning og fer bara vaxandi,“ segir María, sem reiknar með því að fólk kjósi bálfarir sökum þess að þá taki gröfin minna pláss og aðferðin sé umhverfisvænni.
„Síðasta ár voru 1.107 brennslur og þar áður voru níuhundruð og eitthvað. Það verður svo pottþétt enn meira í ár, árið hefur farið vel af stað. Þetta er alltaf að aukast, það er nóg að gera hjá mér, það vantar ekki. Það vantar eiginlega bara meiri vinnutíma, við erum að brenna svona 5-6 á dag,“ segir María Benediktsdóttir, á bálstofunni í Fossvogi.
Fyrsta bálförin á Íslandi fór fram 31. júlí árið 1948, er dr. Gunnlaugur Claessen var brenndur. Gunnlaugur hafði verið framámaður varðandi bálfarir á Íslandi og var til dæmis fyrsti formaður Bálfararfélags Íslands, sem stofnað var árið 1934. Hann lést rúmri viku áður en bálstofan var vígð.
Athugasemdir (3)