Dómsmálaráðuneytið hyggst draga úr áhættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með breytingu á lögum um söfnunarkassa og lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. Helstu breytingarnar sem fyrirhugaðar eru snúa að því að ákvæði verði sett í lögin sem um ræðir sem gera kröfu til auðkennis, „mögulega með spilakorti“.
Áhrif og markmið fyrirhugaðrar lagabreytingar eru víðtæk. „Markmið með innleiðingu spilakorta er einkum að stuðla að heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun, sporna við spilavanda og verjast peningaþvætti.“
Í áformum að lagabreytingunni segir að í áhættumati Ríkislögreglustjóra (RLS) fyrir árið 2019 hafi komið fram að veruleg hætta væri á því að spilakassar gætu verið notaðar til að þvætta fé og að sama áhættuflokkun hafi verið til staðar í mati RLS árið 2021. Verði ekkert aðhafst munu lögin sem undir eru ekki vera „í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og hætta á peningaþvætti væri til staðar á þeim sviðum sem lögin taka til“.
Úrbætur á peningaþvættisvörnum staðið yfir frá 2018
Ísland hefur frá árinu 1991 skuldbundið sig til að samræma löggjöf sína tilmælum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins Financial Action Task Force (FATF). Í apríl árið 2018 var skýrsla um úttekt FATF á vörnum Íslands gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna birt. Í henni kom fram að talsverðir veikleikar væru á íslenskri löggjöf og framkvæmd hennar. Síðan þá hefur verið unnið að úrbótum, „sem meðal annars birtast í þeim viðamiklu breytingum sem gerðar hafa verið á íslenskum lögum og reglum hvað þetta varðar,“ segir í áformunum.
Eins og sakir standa uppfylla hvorki lög um söfnunarkassa né lög um Happdrætti Háskóla Íslands kröfur um fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti. Samkvæmt áðurnefndu áhættumati RLS er áhætta af peningaþvætti í gegnum spilakassa talin vera mikil.
„Helstu áhættuþættirnir eru umfang áhættu, bæði hvað varðar fjölda spilakassa og veltu, notkun reiðufjár, sá möguleiki að hægt sé að hlaða inn reiðufé og prenta í kjölfarið út vinningsmiða án þess að spila eða spila fáa leiki, aðgengi spilastaða og annarra til kaupa á vinningsmiðum og nafnleysi spilara. Þessi atriði þarf öll að taka til skoðunar við breytingar á lögunum.“
Líkt og segir í þessari tilvitnun sem fengin er úr áformunum eins og þau eru birt á Samráðsgátt stjórnvalda þá geta nafnlausir spilarar hlaðið tugum þúsunda króna í spilakassana í einu og í stað þess að spila fyrir allt féð, þá prenta spilararnir einfaldlega út vinningsmiða sem síðan er hægt að innleysa og þannig verður til lögmæt slóð fjármuna.
Mun ekki síst gagnast spilurum
Í mati á áhrifum lagasetningarinnar kemur fram að lagabreytingarnar gætu haft áhrif á afkomu Íslandsspila og Happdrættis Háskóla Íslands en óljóst sé hversu mikil áhrifin kunni að vera. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar muni koma til með að hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs eða sveitarfélaga.
Ljóst er að fyrirhugaðar lagabreytingar muni stuðla að vernd þeirra sem stunda spilakassana. „Með upptöku spilakorta verður vernd þeirra sem stunda spilamennsku hjá Íslandsspilum og HHÍ aukin. Verði fyrirhugað frumvarp óbreytt að lögum mun það styrkja stöðu allra kynja, en þá sérstaklega karla þar sem þeir eru í meirihluta þeirra sem stunda spilamennsku hjá framangreindum aðilum,“ segir í áformunum.
Staðið til að leggja fram sambærilegt frumvarp áður
Líkt og Heimildin hefur fjallað um þá stóð til á haustþingi 2022 að leggja fram lagafrumvarp sem myndi fela í sér innleiðingu spilakorta. Það var í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá var innleiðing slíkra spilakorta sögð vera í forgangi vegna „mikillar áhættu“. Samkvæmt fyrri aðgerðaáætlun átti að leggja frumvarpið fram haustið 2020. Nú stendur enn á ný til að leggja slíkt frumvarp fram.
Það færist bara meira yfir á netið - nema fyrir þá allslausu sem hvorki eru með net né greiðslukort.