Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Saga barbídúkkunnar - Frá þýskri fylgdarkonu til Hollywood

Barbie heit­ir fullu nafni Barbara Millicent Roberts og er alls ekki frá Mali­bu held­ur Wiscons­in. Hún fór út í geim áð­ur en Neil Armstrong steig fæti á Tungl­ið, keypti sér hús þeg­ar kon­ur í Banda­ríkj­un­um gátu ekki stofn­að banka­reikn­ing og bauð sig fram til for­seta lands­ins. Hér er allt sem þú viss­ir ekki að þú þyrft­ir að vita um vin­sæl­ustu dúkku heims.

Saga barbídúkkunnar - Frá þýskri fylgdarkonu til Hollywood
Barbie á sér langa sögu þar sem ýmislegt kemur á óvart.

Það var þann 9. mars 1959 sem fyrsta barbídúkkan leit dagsins ljós. Hún var í svörtum og hvítum sebra-sundbol og með tagl sem átti eftir að verða eitt af hennar einkennum fyrst um sinn. Barbie var allt öðruvísi en dúkkur sem krakkar léku sér með í þá daga. Dúkkurnar voru annað hvort börn eða húsmæður. Ekki skvísur í hælaskóm og sundbol. 

Fyrsta barbídúkkan

Barbiedúkkan var kynnt á leikfangasýningu í New York af framleiðandanum Mattel. Satt að segja höfðu ýmsir efasemdir um að þessi nýja dúkka ætti nokkuð erindi til barna. Eins og við vitum nú þá skjátlaðist þessu efasemdafólki hrapallega. Barbie er vinsælasta dúkka heims og nú er búið að gera fyrstu leiknu bíómyndina um hana. 

Við höfum séð teiknimyndirnar um Barbie og Svanavatnið, Fiðrilda-Barbie og Garðabrúðu-Barbie. Nýja myndin heitir einfaldlega Barbie. Margot Robbie fer með hlutverk sjálfrar Barbie en Ken er ekki langt undan og það er hjartaknúsarinn Ryan Gosling sem leikur hann. Síðan fáum við að kynnast eðlisfræði-Barbie, fimleika-Barbie, lögfræði-Barbie, forseta-Barbie og mörgum fleirum.

Margot Robbie og Ryan Gosling sem Barbie og Ken„She´s everything. He´s just Ken“

Þegar Barbie keypti fyrsta Draumahúsið sitt gátu konur í Bandaríkjunum, heimalandi Barbie, ekki einu sinni opnað bankareikning í eigin nafni - ekki nema eiginmenn þeirra skrifuðu upp á það. Þetta var árið 1962. Barbie var nútímakona, eiginlega kona framtíðarinnar. Hún var táknmynd sjálfstæðis og valdeflingar kvenna. Barbie átti nýtísku húsgögn og bauð vinum sínum að tjilla með sér í stofunni. 

Barbie lét drauminn rætast og keypti sér hús

Konan á bak við Barbie er Ruth Handler sem stofnaði leikfangafyrirtækið Mattel ásamt eiginmanni sínum. Henni fannst dúkkurnar sem dóttir þeirra lék sér með vera svo takmarkandi, annað en leikföng sonar hennar. Hana hafði um tíma dreymt um að framleiða dúkku sem gæti veitt litlum stelpum innblástur til að gera hvað sem þær vildu en þessum hugmyndum var ekki vel tekið innan Mattel.

Ruth var á ferðalagi um Evrópu, nánar tiltekið um Þýskaland, þegar hún rakst á dúkkuna Lilli. Dúkkan var gerð eftir að myndasögur um hana í Bild-Zeitung slógu í gegn. Þjóðverjar voru eilítið framúrstefnulegri en Bandaríkjamenn þá sem oftar. Lilli var hnyttin en hún var líka háklassa fylgdarkona. Í einni myndasögunni fær hún að heyra athugasemd frá lögreglumanni því hún sé á almannafæri í bikiníi. Lilli svarar þá: „Úr hvorum hlutanum viltu að ég fari?“ Þetta fannst Þjóðverjum bráðfyndið. 

Myndasögur um Lilli í Bild-Zeitung

Hugmyndaríku starfsfólki blaðsins datt síðan í hug að láta framleiða dúkkur í líki Lilli sem síðan voru markaðssettar sem tilvaldar gríngjafir fyrir fullorðna, og var markaðsetningin afar tvíræð. Dúkkan var seld á börum, tóbaksverslunum og kynlífstækjabúðum.

Framleiðendur Lilli voru allt annað en sáttir þegar þeir fréttu af Barbie enda voru þær sláandi líkar. Þeir fóru því í mál við Mattel en á endanum náðist sátt utan dómstóla og Mattel keypti einkaréttinn á Lilli í framhaldinu.

Gætu verið systur

Ruth breytti hönnuninni lítillega, lét sauma sómakærari fatnað á hana Barbie sína og hún var síðan markaðssett sem tánings-tískumódel. Fötin hennar voru gerð af tískuhönnuði Mattel og handsaumuð í Japan. Fyrsta árið seldust 350 þúsund dúkkur. Barbie sló í gegn.

Eða frænkur

Ruth nefndi dúkkuna Barbie í höfuðið á dóttur sinni, Barböru. Barbie heitir fullu nafni Barbara Millicent Roberts. Hin raunverulega Barbara var 17 ára þegar dúkkan varð til og var hreint ekki hrifin. Í samtali við People árið 1989 sagði hún að krakkar hefðu oft komið upp að henni og sagt „Svo þú ert Barbídúkkan“. 

Ken kemur til sögunnar

Ken var kynntur til sögunnar tveimur árum á eftir Barbie og er yngri en hún í tilbúnu ævisögunni þeirra. Stundum eru þau kærustupar, stundum ekki. Hann var nefndur í höfuðið á syni Ruth Handler, Kenneth, og heitir dúkkan raunar fullu nafni Kenneth Sean Carson. 

Fyrsta Ken-dúkkan

Barbie kynntist Ken þegar þau léku saman í sjónvarpsauglýsingu og það var ást við fyrstu sýn. Barbie hætti síðan með Ken á Valentínusardaginn 2004. Það var eftir að ýmis heimsfræg pör höfðu hætt saman, og Barbie og Ken vildu tolla í tískunni og vera relevant.

Meðal frægra para sem hættu saman árið 2004 voru Britney Spears og Justin Timberlake, Sheryl Crow og Lance Armstrong, og Jennifer Lopez og Ben Affleck, sem reyndar eru byrjuð saman aftur. Barbie og Ken byrjuðu aftur saman árið 2011. 

Ken og Barbie hafa ekki alltaf verið kærustupar

Barbie er síðan alls ekki frá Malibu heldur er uppdiktaður heimabær hennar Willows, staðsettur í Wisconsin-ríki. Og þrátt fyrir að Willows sé ekki til þá er Barbie fagnað í Wisconsin sem þeirra eigin dóttur og á sögusafni ríkisins er eintak af fyrstu barbídúkkunni í svarta og hvíta sundbolnum.

Frumkvöðull

Fjórum árum áður en Neil Armstrong sagði „Þetta er lítið skref fyrir mann en risastórt stökk fyrir mannkynið“ þegar hann steig sitt fyrsta skref á Tunglinu þá var Ungfrú Geimferða-Barbie kynnt til sögunnar. Hún var í geimferðabúningi með hjálm og sýndi að það væru ekki bara karlmenn eins og Armstrong og Buzz Aldrin sem gætu farið út í geim. 

Barbie fór út í geim áður en Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu á Tunglinu

Árið 1967 var fyrirsætan Twiggy á hátindi ferils síns og það sama ár kom á markaðinn barbídúkka í líki Twiggy. Þetta var fyrsta dúkkan af mörgum sem gerð var eftir frægum konum. Seinna voru til að mynda gerðar dúkkur í líki leikkonunnar Farah Fawsett, sem sló í gegn í hinum upprunalegu Charlie´s Angels og rapparanum Nicki Minaj en hún hefur gefið út fjögur lög þar sem „Barbie“ kemur fram í titlinum. Hún á að sjálfsögðu lag í nýju myndinni, lagið Barbie World sem nýtur mikilla vinsælda. 

Ekki bara hvít lengur

En það var ekki nærri því strax sem Barbie með annan en hvítan húðlit var framleidd. Árið 1968 setti Mattel dúkkuna Christie á markað, vinkonu Barbie. Fyrstu eiginlegu Barbiedúkkurnar af afrískum og latneskum uppruna fóru í sölu 1980. 

Barbie af afrískum uppruna

Þegar þarna var komið sögu var Barbie búin að eignast sinn fyrsta húsbíl og gat því ferðast um landið ein og óstudd, farið í lautarferðir og gist í tjaldi. Hraust og sjálfstæð kona.

Húsbíllinn hennar Barbie

Engar leikfangavörur hafa farið í samstarf með fleiri tískuhönnuðum en Barbie. Fyrsta samstarfið var á níunda áratugnum, við Oscar de la Renta sem hannaði tískulínu fyrir dúkkuna.

Það var síðan árið 1985 sem Barbie settist í forstjórastólinn. Sem forstjóri var hún að sjálfsögðu í bleikum jakka, með bleikan klút og bleikan hátt. Nema hvað. 

Forstjóra-Barbie

Listamaðurinn Andy Warhol gerði meðal annars myndir af Marilyn Monroe, Elvis og Mao. En hann gerði líka myndir af Barbie. Það var árið 1986. Raunar var það músa Warhol, 23 ára gamall skartgripahönnuður að nafni Billy Boy sem hvatti hann til þess.

Verkið kallaði Warhol „Portrett af Billy Boy“

Warhol kynntist Billy Boy fyrst sem táningi og sóttist mjög eftir að fá að gera mynd af honum. Á endanum sagði hann við Warhol: „Ef þú vilt gera mynd af mér, gerðu þá mynd af Barbie, því Barbie, c´est moi“, segir í umfjöllun BBC um málið 2015 en Billy Boy var mikill aðdáandi Barbie og átti hann mörg þúsund dúkkur.

Billy Boy elskaði Barbie

Árið 1992 dró síðan heldur betur til tíðinda en þá bauð Barbie sig fram til forseta. Fyrsta forseta-Barbie átti bæði mjög bandarískan kjól til að klæðast á vígsluballinu en líka rauða dragt til að vera í þegar hún sinnti störfum sínum í Hvíta húsinu. Hún bauð sig aftur fram árið 2016 og þá var allt hennar samstarfsfólk konur. Enn hefur engin kona orðið forseti Bandaríkjanna en Barbie hefur alltaf verið á undan sinni samtíð.

Svona ætlaði hún á ballið þegar hún yrði forseti

Mest selda barbídúkka allra tíma var kynnt til sögunnar 1992. Það var hin mjög svo hárprúða Barbie. Engin barbídúkka hefur verið með síðara hár og klæddist hún fötum sem tilheyrðu næntís tískunni. 

Vinsælasta Barbie allra tíma var með mjög sítt hár

Eitthvað fóru síðan vinsældir Barbie að dala. Ný og spennandi leikföng litu dagsins ljós og gagnrýni á vaxtarlag hennar urðu líka háværari. Það væri bara ekki raunhæft að Barbie væri svona grönn, með svona mjótt mitti, langa leggi og stór brjóst. 

Þessu svaraði Mattel árið 2016 þegar hægt var að fá Barbie með ólíkan líkamsvöxt. Nú var hægt að fá þrýstnari Barbie, lágvaxna og hávaxna. Þetta var svo mikil grundvallarbreyting að fregnirnar rötuðu á forsíðu Time tímaritsins, svo merkilegar þóttu þær. Þremur árum seinna bættist enn ein týpan við, Barbie með minni brjóst, minna skilgreint mitti og breiðari handleggi. 

Nýtt vaxtarlag Barbie rataði á forsíðu Time

Mattel hefur, síðustu ár, lagt áherslu á fjölbreytileikann. Við höfum fengið Barbie í líki listakonunnar Fridu Kahlo, flugfrumkvöðulsins Ameliu Eckhart og Barbie með slæðu í líki Ibitihaj Mumammad, skylmingarkonunnar sem var fyrst Bandaríkjamanna árið 2016 til að keppa á ólympíuleikunum með slæðu.

Barbie sem Ibitihaj Mumammad

Þá hefur Barbie í hjólastól verið kynnt til sögunnar, Barbie með gervifót og heyrnarlausa Barbie. Í fyrra dró svo til tíðinda þegar trans-Barbie kom á markaðinn. Nýjasta dúkkan, sem kom á markað fyrr á þessu ári er síðan Barbie með Downs heilkenni. 

Breska fyrirsætan Ellie Goldstein var yfir sig hrifin af Barbie með Downs heilkenni.

Barbie er alltaf að finna sig upp á nýtt, endurskilgreina hvað það er að vera Barbie. Markmiðið er samt alltaf að ýta undir þá hugmynd hjá stelpum að þær geti orðið hvað sem þær vilja, að stelpur geti allt. 

Það hefði kannski engum dottið það í hug í fyrra en einmitt núna eru allar helstu fataverslanir fullar af fatnaði merktum Barbie, mest í bleika einkennislitnum hennar. 

Það eru líka aðeins þrír dagar í frumsýningu kvikmyndarinnar um Barbie á Íslandi.

Sýnishorn úr Barbie bíómyndinni
Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
3
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Myndir af neyðarmóttöku sendar áfram: „Ekki myndir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“
6
FréttirKynferðisbrot

Mynd­ir af neyð­ar­mót­töku send­ar áfram: „Ekki mynd­ir sem ég vildi sjá af sjálfri mér“

Lög­reglu var heim­ilt að senda mynd­ir sem tekn­ar voru af Guðnýju S. Bjarna­dótt­ur á neyð­ar­mót­töku fyr­ir þo­lend­ur kyn­ferð­isof­beld­is á verj­anda manns sem hún kærði fyr­ir nauðg­un. Þetta er nið­ur­staða Per­sónu­vernd­ar. Guðný seg­ir ótækt að gerend­ur í kyn­ferð­isaf­brota­mál­um geti með þess­um hætti feng­ið að­gang að við­kvæm­um mynd­um af þo­lend­um. „Þetta er bara sta­f­rænt kyn­ferð­isof­beldi af hendi lög­regl­unn­ar.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár