Íslenska þjóðin er svolítið eins og bústinn klettaburkni; við þrífumst ágætlega í raka og skugga en ef við fáum nokkur andartök af sól yfir árið lifnar yfir hverri ljóstillífandi frumu í okkur. Það nennir skiljanlega enginn að pæla í neinu þessa dagana. Ég þurfti sjálfur að draga fyrir allar gardínurnar og ímynda mér að ég væri lítill helladrýsill til þess að ná að skrifa þennan pistil. Glaðlynd börn skoppa á trampólínum um allt hverfið í sólinni á meðan ég er rauður og sólþrútinn púki í myrkrinu að hamra einhverja þvælu á lyklaborðið. Hefðbundin þjóðfélagsumræða verður bara eitthvert lágt suð í bakgrunninum; pólitískir skandalar líða fram hjá þjóðinni eins og sakleysislegir skýjabólstrar á bláum himninum.
Eitt af dekkri skýjunum sem reyndu að laumast fram hjá þjóðinni er margumrædda Lindarhvolsskýrslan sem Birgir Ármannsson er búinn að geyma uppvöðlaða í nátthúfunni sinni síðustu ár. Nú er ég enginn prófessor í að lesa langar og leiðinlegar skýrslur frá endurskoðendum, en mér sýnist niðurstaðan vera að þar hafi enn og aftur starfað einhvers konar fyrirtæki í umboði ríkisstjórnarinnar sem var falið að selja eignir ríkisins og einhvern veginn tekst að gera það svo illa og ógagnsætt að þreyttir, temmilega illa launaðir embættismenn þurftu að setjast niður og skrifa langa skýrslu um það. Hljómar þetta kunnuglega? Það var samt áhugavert að heyra að Bjarni Benediktsson, stofnandi Lindarhvols, hafði ekki enn komist í gegnum að lesa téða skýrslu, þrátt fyrir að hafa verið með hana í höndunum síðan 2018.
Ég get ekki sagt að ég og Bjarni Benediktsson séum oft á sömu bylgjulengd, en ég hef samt smá samkennd með þessum lamandi verkkvíða. Ég veit af eigin raun hversu erfitt það getur verið að koma sér aftur af stað í að lesa sér til gagns og gamans eftir langt hlé. Ef ég get miðlað einhverri af minni reynslu til hans mæli ég með að koma sér aftur í form með einföldum æfingum; til dæmis gæti hann byrjað á aðeins léttari og einfaldari lestri til að koma sér af stað. Ég hafði sjálfur gaman af því að glugga í Elías-bækurnar, svo skemmtilegt að ímynda sér Sigga Sigurjóns sem hrokkinhærðan prakkara. Það er svo mikilvægt að finna sjálfstraustið og ánægjuna að klára heila bók og þá er um að gera að halda áfram. Hann getur til dæmis tekið þátt í lestrarátaki eins og Ævar vísindamaður hefur stundum verið með, kannski komið sér í bókaklúbb eða eytt sumrinu í að lesa 2–3 Jack Reacher bækur eða Alkemistann og áður en hann veit af verður hann tilbúinn í að lesa þessar 70 blaðsíður sem hafa ásótt hann síðustu fimm árin.
En aftur skil ég Bjarna svo vel. Ef það væri sífellt verið að skrifa skýrslur um hvað ég væri að klúðra öllu í vinnunni þá væri ég sjálfur mjög tregur að lesa þær ótilneyddur. Það hlýtur nefnilega að vera gríðarlegt persónulegt áfall fyrir Bjarna að það sé að koma á daginn að hann sé alveg gjörsamlega hræðilegur í að selja eignir almennings, sérstaklega í ljósi þess að það virðist vera það eina sem hann hafi virkilega ástríðu fyrir í lífinu. Það er eins og hann hafi lært undirstöðuatriðin í viðskiptafræði með því að spila Matador við pabba sinn, nema alltaf þegar hann var búinn að byggja hótel á Laugaveginum og Bankastræti þá seldi hann þær alltaf aftur til baka á hálfvirði og klóraði sér svo í hnausþykkum makkanum yfir því að allt endaði í vasanum á pabba gamla að lokum.
Það er samt gott að það er skaplegt veður því að stemningin inni á stjórnarheimilinu er þrúgandi. Í hvert skipti sem formennirnir hafa komið saman í fjölmiðlum hefur verið áþreifanlega óþægileg orka í herberginu; orka sem öll skilnaðarbörn landsins þekkja djúpt inni í mergnum á sér. Hveitibrauðsdagar Covid eru depill í baksýnisspeglinum og ekkert fram undan nema grámyglulega hversdagslegur rekstur heils þjóðfélags – rekstur sem þau virðast öll vera fúndímentalt frekar ósammála um hvernig eigi að forgangsraða. Það virðist ekki vera mikill samhljómur lengur í neinum málaflokki; umhverfismálum, auðlindamálum, málefnum útlendinga, fjármálum ríkisins. Þau sitja þarna og rífast og karpa en enda alltaf á að ljúga að börnunum að allt sé í lagi; „en, pabbi, mamma, ef það er allt í lagi af hverju eruð þið þá að drekka, á þriðjudegi, fyrir kvöldmat?“
Einn fasinn í skilnaðarferlinu er þegar hjón reyna að endurheimta sitt einstaklingsbundna sjálf; fara aftur að mæta í ræktina, heyra í vinum sem þau hafa ekki talað við lengi, birta pínu sexí baðfatamyndir á Instagram. Svandís Svavars reið á vaðið með einhliða ákvörðun sinni að stöðva hvalveiðar, Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að kraftblása í léttrasísku hundaflautuna sína þegar kemur að málefnum útlendinga. Svo er Framsóknarflokkurinn þarna líka.
Sum hjónabönd hanga saman fyrir börnin, en þetta hjónaband virðist fyrst og fremst lifa á óttanum við að deyja einn, kannski ekki að ástæðulausu. Skoðanakannanir sýna að stuðningur við ríkisstjórnina hefur varla mælst minni frá því að fólk var að brenna vörubretti fyrir framan alþingishúsið rétt eftir hrun. Það er næstum eins og fólk kunni ekki nægilega vel að meta óheiðarleika, tvískinnung og kjaftæði. Það mætti halda að fólk kynni ekki að meta pólitík sem snýst fyrst og fremst um að blása einhverjar sápukúlur framan í það á meðan ríkisstjórnin forðast það í lengstu lög að tækla nokkuð sem einhverju máli skiptir. Engar markvissar aðgerðir í efnahagsmálum, engar markvissar aðgerðir í loftslagsmálum, engin samstaða um innviðauppbyggingu, félagslega kerfið eða nokkuð annað handbært. Óháð pólitískum skoðunum hefur fólk nefnilega almennt óþol fyrir kjaftæði og það er akkúrat það sem skoðanakannanirnar sýna.
En kannski eru þau líka enn að ljúga að sjálfum sér – að þau geti enn lagað þetta. Kannski að kaupa hund eða eignast annað barn muni hjálpa. Sagan segir okkur að það sé líklega ekki nóg. Kannski er bara best að ljúka þessu á meðan það eru enn nokkur ár eftir af blómaskeiði lífsins. Pabbi og mamma elska hvort annað mjög mikið en þau geta bara ekki búið saman lengur. En þau þurfa samt að horfast í augu við mikla og djúpa sjálfsvinnu áður en þau fara aftur á markaðinn, því að það er ekki nóg að setja bara mynd af sér halda á laxi með risastóru höndunum á sér á Tinder lengur. Það verður að vera eitthvað súbstans. Annars endarðu bara með þrútnum Miðflokksmanni sem talar stöðugt á þig um djúpríkið, kirkjuheimsóknir í skóla og hvað kynhlutlaus klósett séu stórt vandamál.
Svo flytur Framsóknarflokkurinn líklega til pabba, eins og alltaf.
Athugasemdir (4)