Búið að er opna fyrir ferðir fólks að sérstökum útsýnispunkti þar sem hægt er að horfa yfir eldgosið sem hófst síðdegis á mánudag. Einungis er hægt að ganga frá Suðurstrandarvegi en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Viðbragðsaðilar kalla leiðina sem um ræðir Meradalaleið en hún er merkt inn á kortið hér að neðan með bláum lit. Ganga fram og til baka er um 20 kílómetrar í heildina og sérstaklega er tekið fram að hún henti þar af leiðandi ekki öllum. Í tilkynningunni segir að Veðurstofan muni fljótlega gefa út uppfært hættukort af svæðinu.
„Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Göngufólk fari að öllu með gát
Þeim tilmælum er beint til fólks að klæða sig eftir veðri, að hafa með sér nesti og ekki síst vel hlaðinn farsíma. Þó er ekki hægt að tryggja öruggt samband farsíma á svæðinu. Göngufólk er enn fremur beðið um að fylgjast vel með fréttaflutningi og upplýsingum frá Almannavörnum og Veðurstofu Íslands. Þar að auki megi finna upplýsingar á safetravel.is.
Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vef sem Umhverfisstofnun heldur úti, loftgaedi.is. Þar má einnig finna hlekk á textaspá frá Veðurstofu Íslands fyrir gasmengun.
Athugasemdir