Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Sumargos og vandræði Almannavarna

Ein­ar Svein­björns­son veð­ur­fræð­ing­ur var einn þeirra sem fór upp að eld­gos­inu við Litla-Hrút á fyrstu klukku­tím­um þess.

Ferðamannasumarið í algleymi og þá byrjar að gjósa í þriðja sinn á Reykjanesi.  Ekki sprengigos, eins og í Kötlu eða Grímsvötnum, heldur enn eitt sjónarspilið með tilkomumiklum hraunstrókum og rólegu hraunflæði.

Hugtakið túristagos er rakið til Skjólkvíagossins í Heklu vorið 1970. Sjálfur Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur sagði það aðgengilegasta túristagos sem hann hafði séð. Vitanlega hefur eldgosið nú gríðarlegt aðdráttarafl.  Nánast allir ferðamenn sem ekki eru með bókaða gistingu og þar með fastir í öðrum landshlutum stefna á að berja gosið augum.  Þvílík slembilukka að vera einmitt staddur á Íslandi þegar þetta gerist!

Best hefði auðvitað verið að gosið hefði komið upp á slóðum hinna tveggja fyrri. Þá hefði verið hægt að nýta bílastæðin og allar merktu gönguleiðirnar og uppbyggðu stígana sem búið var gera.  Koma upp  ferðaklósettum með hraði, fá Björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík á sína pósta o.s.frv.  Í stað Gullna hringsins lægi umferðin að gosinu og leiðsögumenn þyrftu ekki að gera annað en að dusta rykið af gömlum textum sínum og leiða fólk að dýrðinni.

Langt því frá svo auðvelt að þessu sinni, því gossprungan núna er norðar og innar á Reykjanesskaganum. Í raun er hún afar óaðgengileg. Komandi frá bílastæðunum við Suðurstrandaveg er gangan aðra leiðina er líklega 8-10 km, þar sem þræða þarf fyrir hrauntungu í Meradölum. Alls ekkert áhlaupaverk. 

Úr hinni áttinni liggur síðan vegslóði í áttina að Keili. Ekkert bílastæði sem heitið getur og slóðinn að auki mjór og holóttur.  Þaðan er líka löng ganga og yfir erfitt hraun að fara, sem ekki undir nokkrum kringumstæðum þolir ágang sem fylgir athygli gossins.  Þriðja leiðin væri einfaldlega að halda frá Reykjanesbrautinni beint af augum yfir Þráinsskjöldinn, sem er gömul hraundyngja.  Það er líka langt labb og yfir viðkvæmt landsvæði. Þá er hægt að nálgast gosið frá Djúpavatnsveginum í vestri og yfir brattan og áárennilegan Núpshlíðarhálsinn og hraunfláka að auki.

SjónarspilEdlgosið er tilkomumikið með hraunstróum og rólegu hraunflæði.

Lögreglan og almannavörnum verður vandi á höndum næstu dagana.  Þrýstingurinn verður óbærilegur á það að fá að berja gosið augum.  Fyrst um sinn mun viðbragðsaðilar leggja áherslu á hættuna á gasmengun og allt það. Nú þegar eftir kröftuga byrjun, hefur afl gossins minnkað og þar með útstreymi brennisteins gass og kolsýru. Í sjálfu sér getur það haldið áfram að malla í vikur og þess vegna tekið sig upp annað slagið eins og dæmin sanna og enginn getur spáð fyrir um með vissu.

Þá er spurning hvaða leiðum verður beitt til að takmarka ágang og þrýsting úr öllum áttum að fá að komast nær og berja eldgosið augum.  Fyrir flesta ferðamenn er þetta kannski eina tækifærið á lífsleiðinni!

BannsvæðiðKort yfir bannsvæðið sem Veðurstofan hefur útbúið.

Áhyggjur lögreglunnar og almannavarna eru skiljanlegar. Þær snúast kannski ekki síst um það nær ómögulegt er að hafa stjórn á straumi fólks. Alla veganna búið og komandi úr ýmsum áttum á öllum tímum sólarhringsins. 

Ef til vill er bara ágætt að líta á verkefnið nú sem ágæta æfingu fyrir stærri og mun hættulegri atburði eins og sprengigos í Kötlu eða Öræfajökli nú eða stórt flæðigos í anda Skaftárelda. 

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Reynir Vilhjálmsson skrifaði
    Þetta er meiri andskotans áráttan að halda því fram að augun séu barefli, þrisvar sinnum í þessari stuttu grein. Þetta orðtak að berja eitthvað augum á engann tilverurétt í íslensku.
    0
    • SL
      Sighvatur Larusson skrifaði
      Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum segir:

      "Orðasambandið er að berja einhvern eða eitthvað augum. Það er til í fornu máli í dálítið annarri gerð. Hún er að berja augum í eitthvað í merkingunni 'hugleiða eitthvað, velta einhverju fyrir sér' og hefur þetta samband lifað fram á þennan dag.

      Í nútíma máli eru elst dæmi Orðabókar Háskólans um að berja einhvern eða eitthvað augum frá síðasta þriðjungi 19. aldar. Merkingin er að 'koma auga á einhvern eða eitthvað'. Sögnin að berja merkir að 'veita högg, slá, lemja' og er hér notuð í yfirfærðri merkingu. Augun lenda á einhverju eins og högg þegar menn koma auga á einhvern eða eitthvað, horfa hvasst á einhvern eða eitthvað."
      -----
      Svo mörg voru þau orð :-)

      Hver ákveður tilverurétt og hver ákveður ekki tilverurétt er stóra spurningin Reynir Vilhjálmsson.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Eldgos við Litla-Hrút

Fóru á rafmagnshjólastólum í átt að glóandi hrauninu
FréttirEldgos við Litla-Hrút

Fóru á raf­magns­hjóla­stól­um í átt að gló­andi hraun­inu

Andri Val­geirs­son og Hall­grím­ur Ey­munds­son lögðu af stað í ferða­lag í átt að eld­gos­inu við Litla-Hrút á raf­magns­hjóla­stól­um um síð­ustu helgi. Ferð­in gekk stór­áfalla­laust fyr­ir sig, þó þeir hafi kast­ast að­eins til í stól­un­um vegna tor­færs lands­lags og hleðsl­an á raf­hlöð­um stól­anna hafi klár­ast á baka­leið­inni. Andri kall­ar eft­ir því að að­gengi að ís­lensk­um nátt­úruperl­um verði bætt, svo fólk sem not­ast við hjóla­stól geti feng­ið að sjá land­ið eins og gang­andi fólk.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár