Lengi hefur lítið heft markaðskerfi verið undirstaðan undir efnahagslífi þróaðra vestrænna þjóða. Með auknum samfélagslegum áhrifum á stjórnun þeirra varð krafan um breytingar á markaðskerfinu meiri. Með tímanum þróaðist þannig markaðskerfi, sem inn í var fléttað margs konar félagslegum þáttum, sem var ætlað að jafna félagslega og fjárhagslega stöðu einstaklinga. Þessi þróun hefur tekið langan tíma og margvíslegar breytingar verið gerðar á þessu blandaða kerfi, sem hefur fengið nafnið „félagslegt markaðskerfi” ( Soziales Wirtschaftsystem ). Þetta langa þróunarskeið og margar breytingar á félagslegum þáttum hefur haft það í för með sér, að kerfið er bæði orðið þungt í vöfum og sérlega flókið. Þannig þarf sérfræðilega þekkingu, til þess að þekkja eða skilja þetta flókna kerfi, sem veldur þeim sem njóta þjónustu þess oftlega miklum erfiðleikum. Til viðbótar kemur svo hin mikla tækniþróun síðustu ára, sem hefur breytt og á eftir að breyta mjög lífsháttum manna í framtíðinni. Menn sjá fyrir sér, að störf sem áður voru framkvæmd af mannshöndinni, verða leyst af sjálfstýrðum vélmennum. Öll þessi þróun kallar á breytingar og einföldunar á félagslega markaðskerfinu og ein af hugmyndum til þess hefur verið nefnd „borgaralaun án skuldbindinga” fyrir alla.
Margvíslegar hugmyndir hafa komið fram um efnahagskerfi framtíðar. Staðreynd er að markaðskerfið hefur til þessa verið allsráðandi í heiminum enda er það í samræmi við aðaleinkenni mannseðlisins. Ekkert annað kerfi hefur náð að keppa við það. Í upphafi var markaðskerfið óheft, en með tímanum þegar samfélög mynduðust, þeim fjölgaði og þau stækkuðu fundu menn fyrir stöðugt aukinni mismunun milli manna, sérstaklega á efnahagssviðinu. Til þess að auka jöfnuð milli manna voru gerðar tilraunir með önnur kerfi svo sem ríkis- eða samvinnu- rekin en með litlum árangri. Niðurstaðan varð sú að menn sameinuðust um að nota markaðskerfið en samfélagsvæða það og á 20 öldinni þróaðist markaðskerfið yfir í kerfi með sífellt aukinni félagsíhlutun , sem nú er nefnt félagslegt markaðskerfi. Félagsleg markaðskerfi hafa þróast víða og margvíslega og eru rekin bæði af opinberum- og einstaklingsbundnum- aðilum og yfirvöldum með miklum og sérhæfðum mannafla. Reksturinn er og verður sífellt erfiðari og kostnaðarsamari og virðist stefna í óefni. En það er þrautinni þyngra að snúa þróuninni við og því er farið að huga að einföldun þess og ein hugmyndin eru „borgaralaun án skuldbindinga”. Í mörgum löndum, t.d. í Þýskalandi, eru hafnar umræður og tilraunir með borgaralaun sem lausn. Þá lausn verður að aðlaga að því félagslega markaðskerfi sem fyrir er í hverju landi. Fyrst þarf þá að skilgreina og teikna upp mismunandi sviðsmyndir (fyrirmynd, modell ) sem yrði svo að prófa í framkvæmd.
Hröð þróun:
Það þótti tíðindum sæta þegar Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata þá nýlega stofnaðs flokks á Allþingi, lagði fram tillögu í september 2015 um að skoðaðir yrði möguleikar á að innleiða greiðslu svonefndra „borgaralauna”. Þessa hugmynd hafði breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes sett fram árið 1928. Hann benti þá þegar á þá staðreynd, að vélar ættu eftir að gera vinnuframlag mannsins smám saman óþarft. Eftir hundrað ár þyrfti enginn að vinna fyrir afkomu sinni þegar sjálfvirknin tæki yfir. Borgaralaun eða skilyrðislaus grunnframfærsla myndi greiðast af ríkinu til allra borgara óháð búsetu, stöðu heimilis, aldri, tekjum og án kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu eða sé viljugur að taka þá vinnu sem býðst. Þessi hugmynd myndi gjörbylta þeirri félagslegu stefnu, sem viðtekin er í velferðarríkjum þar sem grunnframfærsla er bundin ákveðnum, misströngum skilyrðum. Tillögu Pirata var ekki vel tekið af þáverandi ríkisstjórn og gagnrýndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra hana og benti á, að kostnaðurinn við útfærslu hennar væri svo mikill að hún kæmi ekki til greina. Væri hann álíka mikill og árlegur kostnaður við almannatryggingakerfið, lífeyririnn og örorkubæturnar. Margt hefur nú breyst á þeim 8 árum, sem liðin eru frá framlagningu tillögu Pírata, sem best sést á nýlegum niðurstöðum Þjóðarpúls Gallups, sem sýnir að nú eru 40% landsmanna hliðhollir hugmyndinni að skoða upptöku borgaralauna á Íslandi, 38% á móti en 23% hvorki með eða á móti.
Þróun mála í Þýskalandi:
Þing Þýskalands ákvað haustið 2022 að breyta atvinnubótakerfi landsins, svo nefndu Harz IV kerfi, sem mjög hefur verið gagnrýnt á síðustu árum , yfir í borgaralaunakerfi. Var það gert þrátt fyrir harða mótspyrnu stjórnarandstöðunnar ( Kristilegir demókratar og Alternative fuer Deutschland, CDU/CSU og AfD ), sem taldi kerfið draga úr hvatningu einstaklinga til að stunda atvinnu en draga hins vegar að utanaðkomandi aðila til að nýta kerfið sér til framdráttar. Skyldi nýja kerfið taka gildi 1.janúar 2023. Markmiðið með borgaralaunum í Þýskalandi er að veita fólki betri og tryggari grunntryggingu fyrir lífsviðurværi. Borgaralaunin þýsku eru ekki það sem skilgreint er óskuldbindandi grunnlaun heldur aðeins viss hluti þýska félagsmálakerfisins ( atvinnuleysisbótakerfi II), þess vegna þarf t.d. að sækja sérstaklega um þau.
Borgaralaunin þýsku eiga að koma til framkvæmda í tveim skrefum. 1.janúar 2023 tók fyrri hluti breytinganna á því sem nú er nefnt atvinnuleysisbótakerfi II gildi. Seinni hlutinn gildir frá 1.júlí 2023. Mikilvægar breytingar 1.júlí verða aðallega hækkun bótanna til fólks með lágar tekjur. Einstaklingur fær nú 502 evrur á mánuði, sem er 53 evrum hærri upphæð en áður . Þá er einnig sett til viðbótar hagkvæmari regla gagnvart húsnæðisbótum þannig að biðtími eftir íbúð verður aðeins eitt ár. Stuttur biðtími eftir íbúð er mjög mikilvægur gagnvart því að þyggjandi borgaralauna er öruggari við að leita sér að íbúð meðan hann leitar sér að atvinnu. Þá er gert ráð fyrir að vinnumiðlanir leyti ekki eingöngu að nýju starfi heldur hafi milligöngu um starfsmenntun fyrir atvinnuleitendann. Vegna þessara breytinga á þýska félagskerfinu hefur farið þar fram mikil endurskoðun varðandi þær hugmyndir, sem hafa verið uppi um að leysa aðsteðjandi vandamál hins félagslega markaðskerfis með innleiðingu borgaralauna og fylgja hér nokkrar hugleiðingar og vangaveltur frá Þýskalandi um hugmyndina „borgaralaun“ með og á móti.
Borgaralaun án skuldbindinga, sömu laun fyrir alla:
Eru grunnlaun án skuldbindinga svarið við byltingu á vinnumarkaði? Hvað verður um starfsfólk ef starf þess verður yfirtekið af vélmennum ? Ætti sérhver sem býr í landinu að fá greiðslu frá ríkinu sem nægi til að sjá fyrir brýnasta lífsviðurværinu. Það væri upphæð að virði áætlaðs framfærslustyrks Félagsmálastofnunar á hverjum tíma að viðbættum húsnæðisstyrk. Þessi lausn vandamálsins hefur nú komið til umræðu sérstaklega vegna aukinna notkunar á tölvum og sjálfvirkni. Einn frumkvöðull þessarar hugmyndar er þýski lyfsalinn Götz Werner, sem gaf út bók um málefnið 2007 undir titlinum „Laun fyrir alla“. Hann mælti fyrir því að sérhverjum væri þannig greidd út laun, sem yrði fjármögnuð með hærri virðisaukaskatti. Í raun er hér um að ræða nýtt félagsmálakerfi. Hugmyndin hefur fundið vissan hljómgrunn hjá félagasamböndum og stjórnmálaflokkum en er jafnframt umdeild og gagnrýnd. Hvað mælir með og móti hugmyndinni.
Rök með hugmyndinni: Skuldbindingarlaus grunnframfærsla væri jákvæð ef:
1. hún gæti leyst félagslegar afleiðingar af iðnaðarbyltingunni
2. hún hefði minna skrifræði í för með sér en núverandi eftirlauna- og félagsmálakerfi
3. hún myndi auka öryggiskennd og sjálfstæði gæfi launþegum meira öryggi og myndi efla sjálfstæðiskraft
4. hún myndi koma í veg fyrir að atvinnuleitendur leyti í illa launuð störf
5. hún gerði vinnumarkaðinn sveigjanlegri
Rök á móti hugmyndinni:
1. fjármagn er ekki fyrir hendi hjá stjórnvöldum
2. leggja yrði niður núverandi félagskerfi
3. áhrifin á eftirlaunakerfið og félagsleg tryggingarkerfi væru óviss
4. ef virðisaukaskatturinn eigi að fjármagna nýtt kerfi myndi kaupmáttur launa lækka
5. fjármögnun með eigna - eða tekjuskatti myndi ekki duga, væri þar að auki óréttlát
6. skortur yrði á fagfólki í strjálbýli vegna minni eftirsóknar í búsetu þar
7. varla nokkur vildi vinna
Ýmsar mikilvægar spurningar um eftirlauna- og félagskerfið, fjármögnun og raunáhrif á vinnumarkaðinn eru opnar. Það vantar sértækar og traustar rannsóknir og prófanir og líka vegna þess að ekki eru fyrir hendi niðurstöður sértækra og traustra tilrauna. Þær eru líka takmarkaðar af tímarammanum ( sem er of stuttur ) fyrir þá sem taka þátt. Þar að auki eru áhrif vinstri- og frjálslyndra- afla mikil í umræðunni. Á meðan flest verkalýðsfélög og efnahagssambönd eða samtök atvinnurekenda eru andsnúin hugmyndinni um óskuldbindandi borgaralaun , deila meðmælendur þ.e. nýfrjálslyndir hagfræðingar og vinstrisinnaðir stjórnmálamenn um útfærslur.
Framtíð vinnunnar, hversu þýðingarmikil eru borgaralaun án skuldbindinga:
Hugmyndin um borgaralaun er sífellt í umræðunni. Hingað til er lítið vitað um áhrif þeirra á efnahags- og félags- lífið. Vegna kórónaveirufaraldursins verður krafan um borgaralaun háværari. Hvernig væri það ef sérhver borgari gæti séð fyrir grunnþörfum sínum án þess að þurfa að vinna ? Ef sérhver einstaklingur fengi mánaðarlega nægjanlegt fjármagn frá ríkinu? Þetta er í hnotskurn hugmyndin um borgaralaun án skuldbindinga. Í Þýskalandi er venjulega rætt um upphæðir svo sem 1,000 – 1,500 evrur ( um 150,000 – 225,000 ísl. kr. ), sem sérhver borgari fengi mánaðarlega sem borgaralaun. Á móti myndu framfærslugjöld og styrkir falla niður. Þannig yrðu t.d. einnig atvinnuleysisbætur úreltar. Borgaralaun myndu yfirtaka eftirlaun eða þau yrðu reiknuð upp á nýtt, allt eftir útfærslu áherslu. Í mörgum af sviðsmyndum borgaralauna eru veikinda- og þjónustu-styrkir í þeirri mynd sem við þekkjum felldir niður. Um helmingur íbúa Þýskalands mælir skv. DIW, Efnahagsstofnun Þýskalands í Berlín ( Deutsches Institut für Wirtschaftsforschung ) með upptöku borgaralauna. Það eru aðallega ungt og vel menntað fólk, fólk með lágar tekjur og vinstri sinnað fólk sem er meðmælt. Hugmyndin um borgaralaun er sífellt í umræðunni. Hingað til er lítið vitað um áhrif þeirra á efnahags- og félags- lífið . Yfirmaður DIW, Marcel Fratzscher, er ekki hissa á því að svo margir séu meðmæltir borgaralaunum. Krafan sé í raun rökrétt afleiðing mistaka stjórnmálamanna, að takmarka félagslega mismunun og halda í stað þess félagslegri samstöðu. Vegna kórónaveirufaraldursins hefur hugmyndin hlotið að nýju byr undir báða vængi. Margir sem misst hafa lífsviðurværi sitt bíða eftir hjálp. Borgaralaun skv. meðmælendum myndu veita tryggari lífsgrundvöll en hjálparstyrkir. Viðbótarrök inn í umræðuna um skilyrðalaus borgarlaun eru tæknibreytingarnar. Rannsóknir benda til þess að vélar geti komið sífellt meir í stað mannshandarinnar. Borgaralaun eru hugsuð sem lausn á atvinnuleysi, tryggi afkomu þeirra sem fyrir verða. Á vísindasviðinu eru menn yfirleitt sammála um að vandamálin hrannist upp, en ekki er samstaða um hvort borgaralaunin séu besta lausnin.
Það eru góð rök fyrir upptöku borgarlauna og einnig gegn henni:
Athugið! Það er ekki létt að ræða um kosti eða galla skuldbindingarlausra borgaralauna: Fyrir því eru margar ástæður:
- Hugtakið skuldbindingarlaus borgaralaun er notað í mismunandi samhengi og aðstæðum. Oft er óljóst hver skilgreiningin er. Skilgreining á skuldbindingarlausum borgaralaunum er notuð í mismunandi aðstæðum eða tengist þeim. Þá er um að ræða að hluta um kerfi, sem ekki eru skilyrðislaus eða lífsnauðsynlega örugg. Þau verða ekki rædd hér.
- Góð umræða eða slæm, ónákvæm, svo margt óljóst. Það fer mjög mikið eftir því hversu nákvæmlega borgarlaunin eru útfærð. Fá „ríkir“ einstaklingar líka borgaralaun? Og kvað þýðir ríkir? Koma borgaralaunin í stað veikinda- og hjúkrunar- trygginga? Þetta eru aðeins fáar af mörgum spurningum
- Margar skoðanir gagnvart skuldbindingarlausum borgaralaunum byggjast á margs konar ólíkum manngerðum. Sumir vilja meina að samfélagið hafi meiri sjálfsábyrgð og þurfi á henni að halda, aðrir að stjórnvöld þurfi að sýna meiri umhyggju.
- Þrátt fyrir mismunandi skoðanir koma hér nokkur grundvallar rök sem sífellt koma fram í umræðunni.
Skapa borgaralaun meira frjálsræði?
Fylgjendur borgaralauna tengja þau við réttindi og frjálsræði. Þeir vilja leysa einstaklingana við störf sem þeim fellur ekki. Hagfræðingurinn Thomas Straubhaar við háskólann í Hamborg, sem löngum hefur mælt með borgaralaunum segir: „Í dag neyðir kerfið okkur vegna efnislegra þarfa að taka við störfum sem eru eiginlega undir virðingu manna, engum líkar þau og þau eru þar að auki illa borguð“.
Borgaralaun gætu þjónað þessum einstaklingum sem öryggisnet til þess að skipta um skoðun og framkvæma fremur eigin hugmyndir. Það gæti haft hvetjandi áhrif á þá.
Fólk gæti stytt vinnutíma sinn og notað tímann á allt annan hátt t.d. með því að stunda sjálfboðastörf eða snúið sér að fjölskyldu og vinum. Enginn ætti því að þurfa að niðurlægja sig til að biðja um opinberan stuðning.
Reyndar óttast þeir sem eru á móti borgaralaunum að þetta frjálsræði freisti manna. Sá sem er frjáls verður að starfa. Mundu einstaklingarnir í raun nota unninn tíma til þess að vinna sjálfboðavinnu eða þjónustu við almannahag? Eða myndu þeir nota frjálsræði sitt til að eyða meiru og reyna að losa sig við leiðindi með tilgangslausum athöfnum. Myndi það verða niðurstaðan gætu borgaralaunin stuðlað að meiri óánægju óttast þeir sem eru á móti borgaralaunum. Því að óánægjan eykst ef fólk hefur ekkert fyrir stafni..
Vinna færri einstaklingar ef borgaralaun væru til staðar ?
Þeir sem eru á móti borgaralaunum segja einnig að fólk hefði minni hvata til þess að vinna. Fyrir því sé séð án skuldbindinga og geti verið ánægt með 1,000 til 1,500 evrur á mánuði. Gætu líka unnið minna en áður, en haldið samt því tekjumarki sem það hafði áður. En fylgjendur borgaralauna telja að alls ekki svo margir myndu yfirgefa störf sín, þar sem vinnan væri flestum meira virði en aðeins að þéna peninga. Þetta er mjög mikilvægt í samfélagi okkar, er mikilvægt fyrir sjálfsvirðinguna og stöðu í samfélaginu. „Einnig munu atvinnurekendur leggja sig fram við að skapa vinnuumhverfi, þar sem launþegar geti notið sín“ segir Straubhaar hagfræðingur.
Lækkar stjórnunarkostnaður við upptöku borgaralauna?
Að hinir raunverulegu njótendur þessara breytinga yrðu fyrirtækin, sem myndu losna við hinar „óþægilegu félagslegu skyldugreiðslur“. Það telur Fratzscher, formaður samtaka þýskra iðnaðarmanna ( DIW ) í athugun sinni árið 2017 að borgaralaun án skuldbindinga myndi þýða að „bæði ríki og samfélag væru að koma sér frá ábyrgð gagnvart sínum veikustu samborgurum“.
Er fjármögnun borgaralaunanna yfirleitt möguleg og hvernig á að fjármagna borgaralaunin?
Eitt aðal deiluefnið vegna borgaralaunanna er fjármögnun þeirra. Thomas Straubhaar hagfræðingur kemst að þeirri niðurstöðu að fjármögnunin sé möguleg. Og hann er ekki einn um það. Fjármögnunin fer eftir: Upphæð borgaralaunanna, hvers konar félagsleg þjónusta á að veita og viðkomandi skattkerfi. Til eru ýmis konar tillögur með mismunandi áhrifum á efnahagslíf og samfélag. Í sumum þeirra fellur félagsleg þjónusta svo sem atvinnuleysisbætur og lífeyrir niður. Aðrar ganga enn lengra og leggja niður sjúkra- og hjúkrunar- tryggingar. Ýmsar tillögur leggja til sérstakar tilgangs-bundnar viðbótargreiðslur til viðbótar við borgaralaunin. Hvað varðar skattana eru tillögur um hækkun á virðisaukasköttum. Aðrir vilja auka skattlagningu á tekjur og eignir eða eignaviðskipti. Margar tillögur nefna nýjar álögur, aðrar gera ráð fyrir hluta af greiðslum sem ríkið fær af fyrirtækjarekstri eða hvoru tveggja. Straubhaar leggur fram tillögu þar sem lagður verður 50% skattur á tekjur sem myndast við aukastörf. Öll framlög frá vinnuveitendum fyrir félagslega þjónustu svo sem sjúkra- eða hjúkrunar- framlög myndu leggjast af. Meðmælendur borgaralauna telja að fjármögnunin sé tryggð þar sem borgaralaunin spari skrifræðiskostnað ( t.d. stjórnunarkostnað ). En þeir sem eru á móti borgaralaunum telja að ekki séu fjármunir til að fjármagna borgaralaun fyrir alla. Verdi ( Vereinte Dienstleistungsgewerkschaft ), launþegafélag opinberra starfsmanna gagnrýnir, að það sé ekki mögulegt að reikna hærri innkomu frá skattatekjum, þar sem borgaralaunin myndu breyta „hegðunarmynstri“ almennings og hafa þannig áhrif á efnahagslífið. Þessar breytingar myndu aftur á móti hafa það í för með sér, að skatttekjur lækkuðu. Það myndi grafa undan grundvelli skuldbingarlausra borgaralauna. T.d. ef fyrirtæki eða ríkt fólk myndi flytja til útlanda vegna þess að skattar hækkuðu. Ef margir hætta að vinna eða að fyrirtæki vegna upptöku borgaralaunanna kæmi til hugar að lækka launin, þar sem líf fólks væri tryggt með tekjum frá ríkinu. Eitt gagnrýnisatriði til viðbótar: „svört vinna“ gæti orðið meira aðlaðandi, sérstaklega ef borgaralaunin verða fjármögnuð með hækkuðum tekjuskatti. Það verður eftirsóknarverðara að fara kring um skattalögin.
Bjóða borgaralaun upp á meira réttlæti?
Tekjumunur milli fátækra og ríkra verður sífellt meiri. Það sjá bæði þeir, sem eru með borgaralaunum eða á móti. Margir frá báðum hliðum eru því meðmæltir breytingum, spurningin er aðeins hvernig á að breyta. Þeir sem eru fylgjendur óskuldbindandi borgaralauna telja, að allir sem þurfa á hjálp að halda, verði styrktir með borgaralaununum. Einstaklingar með háar tekjur myndu aftur á móti borga hærri skatta. Fé þeirra myndi verða skipt milli þeirra fátæku. Þar með myndi ójafnvægið milli þeirra upphæða sem fólk hefði mánaðarlega milli handanna verða minna. Þannig myndi hátekjufólk fá borgaralaun. Það væri að vissu leyti eins og „skattaeftirgjöf“, sem það fengi í staðinn fyrir að greiða meiri skatta. Þar að auki myndi þessar breytingar til að byrja með að mestu leyti vera á kostnað þess launafólks, sem greiðir samfélagslegar tryggingar. „Sjálfstætt starfandi, embættismenn og þingmenn fjármagna aðeins með að hluta“ segir Thomas Straubhar hagfræðingur við Hamborgarháskólann. Það væri kominn tími til að jafna breytingarnar með skattkerfinu, svo að tekjuöflunin kæmi jafnara á móti fjármagnsöfluninni.
En margir af mótherjum borgaralaunanna draga mjög í efa, að þau geti aukið réttlæti við misskiptingu launa. Christoph Butterwegge sérfræðingur í málefnum fátækra segir að „jafnað jafnt“ og „ójafnað ójafnt“ verði að meðhöndla til þess að réttlæti fáist. Hann kastar fram spurningunni hvers vegna jafnvel milljarðamæringar eigi að fá mánaðarlega tekjur frá ríkinu á meðan „t.d. alvarlega fatlaðir þurfi miklu meira fé á að halda en það sem ætlað er fyrir almenna borgara“. Auðvitað er líka möguleiki að velstæðir og ríkir einstaklingar fái ekki borgaralaun eða létu þau af hendi gegn um skattkerfið. En þá væru borgaralaunin þegar í mótsögn við tvær af grunnforsendum sínum: það væri hvorki fyrir sérhvern né án skuldbindinga. Borgaralaunin væru samkvæmt þeim sem er á móti þeim heldur ekki réttlát, þar sem ekki allir geta unnið jafnmikið t.d. fyrir 1,000 eða 1,500 evrur. Húsnæðiskostnaður er t.d. mismunandi milli svæða. Það væri lítið réttlæti ef fólk býr í eigin skuldlausu húsnæði fengi það sama og fólk sem greiðir háa leigu. Einhleypum væri mismunað gagnvart pörum eða fjölskyldum, sem hafa lægri húsnæðiskostnað á mann.
Skapa borgaralaunin meiri jöfnuð?
Fylgjendur borgaralauna taka aftur á móti skýrt fram, að með borgaralaununum eru þau störf betur metin, sem í afkastakerfi okkar eru ekki- eða van- launuð. T.d. geta einstaklingar valið hvort þeir vilja fremur sinna fjölskyldustörfum og börnum sínum. Þar að auki myndi borgaralaun gera störfin fjölbreyttari og styrkja jafnréttið. Þeir sem mæla gegn borgaralaunum telja að þau séu fremur til trafala. T.d. væru heimilisstörf ekki launuð ef allir fengju borgaralaun. Þau væru líka áfram alltaf raðað neðar en venjuleg atvinna. Atvinnumöguleikar karla og kvenna myndi með því ekki vera beint borin saman. Þannig gæti atvinnuskipting sem oftast er kvennastörfum í óhag festast enn meir í sessi.
Leiða borgaralaun til meiri félagsþátttöku?
Borgaralaun gætu verið lausn á því vandamáli sem er félagsleg útilokun vegna atvinnumissis. Þannig gætu þau frelsað fólk frá því að vera stimplað sem þurfalingar. Þá er alltaf hætta á að atvinnulausir séu veikari gegn sjúkdómum. Borgaralaun hvetja til þess að hefja atvinnu á ný. Í samfélagskerfi nútímans eru styrkir frá ríkinu lækkaðir um leið og atvinnulausir fá einhverjar tekjur. Að hefja störf á ný „borgar“ sig sem sagt ekki. Aftur á móti væri hægt að sameina borgaralaun með viðbótarlaununum. Andstæðingar borgaralauna trúa því aftur á móti ekki, að regluleg peningagreiðsla nægi til þess að tryggja félagslega þátttöku. Það vantar bindingu, virðingu og sjálfsvirðingu – margt af þessu fær fólk gegn um störfin. Launþegasamtökin Verdi gagnrýna auk þess að „fylgjendur borgaralauna skuli líta á leit eða prófun á hjálparþörf sé refsing eða niðurlæging“. Prófunin sé aftur á móti í réttlátu samfélagi. Samfélagið hefur rétt til að vita hvort opinbert fé lendir hjá hinum þurfandi eða ekki.
Hafa borgaralaun góð áhrif á síaukna stafræna þróun:
Ýmsar rannsóknir sýna að gervimenni og gervigreind muni fækka störfum í framtíðinni. Stafræn þróun breytir starfsumhverfinu. Við það minnkar þörfin fyrir full störf. Fjöldi sjálfstæðra eða hlutastarfa og fólk sem vinnur verktakastörf eykst. Fylgjendurnir líta til möguleikans á óskulbundnum borgaralaunum sem öryggisatriði. Ef ekki verður næg atvinna fyrir alla í framtíðinni verður að vega og meta nýja möguleika. „Borgaralaunakerfið er hugsað fyrir starfsfólk framtíðarinnar, fyrir tölvuöldina, þar sem breytingar, niðurbrot og hlé verða í atvinnulífinu“ segir Straubhaar hagfræðingur. Samkvæmt hagfræðingnum Marcel Fratzscher eru þó tæknibreytingar „verstar af öllum ástæðum fyrir óskuldbundin borgaralaun“ Það hefur verið tækniþróun síðustu 200 árin. „Hún hefur nær alltaf leitt til þess að betri, manneskjulegri og hærra launuð ný störf hafa myndast“. Ríkið á ekki að róa atvinnulausa með óskuldbundnum borgaralaunum, heldur hjálpa þeim að aðlaga sig að nýjum kringumstæðum og að finna önnur störf. Enn Fratzscher „þó að tölvuvæðing og sjálfstýringarvæðing geta komið í stað tæknilegra starfa komi hún þó varla í stað þess, sem gerir okkur að manneskjum, nefnilega dugnað og sköpunargáfu“.
Sama hvort fólk er með eða móti – mörgum spurningum er ósvarað
Sama er hvort maður er með eða á móti óskuldbundnum borgaralaunum, eitt vantar a.m.k. þegar rökum er beitt: vísindalega tryggða undirstöðu. Við vitum ekki hvernig borgaralaunin, hverrar gerðar þau annars eru, munu virka á samfélagið og efnahagslífið. Það finnast reyndar tilraunir en þær eru gallaðar.
Athugasemdir