Fimmtudagur 15. október, 1987. Veðurfræðingur Breska ríkissjónvarpsins, Michael Fish, flytur veðurfréttir í hádegisfréttatímanum. „Fyrr í dag hringdi kona í BBC og kvaðst hafa heyrt að stormur væri í aðsigi,“ segir Fish. Hann lyftir brúnum kankvís. „Ef þú ert að horfa, ekki hafa áhyggjur, því svo er ekki.“
Nokkrum klukkustundum síðar skall á Bretlandseyjum mesta ofsaveður sem sést hafði í margar aldir. Átján manns létust og 15 milljón tré rifnuðu upp.
Stuttbuxur og Sólarsamba
Hljóðið í íslenskum veðurfræðingum er þungt um þessar mundir. Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spáði við upphaf vikunnar áframhaldandi blautu veðri og ítrekuðum lægðum. „Stundum vildi ég að ég gæti komið með betri fréttir en það er víst ekki þannig hjá mér núna,“ sagði Eiríkur.
En þegar sumir sjá skýjahulu telja aðrir sig horfa upp í heiðan himin.
„Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., um ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem stöðvaði í síðustu viku fyrirhugaðar veiðar á langreyðum tímabundið.
„Þrátt fyrir að óveðurský hafi hrannast upp úti við sjóndeildarhringinn var Kristján mættur út á stuttbuxunum dansandi Sólarsamba“
Þótt Kristján hafi talið sig upplifa heiðríkju benda rök til annars. Hvalveiðiskip Kristjáns hafa vart siglt um lygnan sjó frá árinu 1986 þegar alþjóðlegu hvalveiðibanni var komið á. Skoðanakannanir hefðu mátt vera Kristjáni vísbending um að blikur væru á lofti en þær sýna síaukna andstöðu þjóðarinnar gegn hvalveiðum. Eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar, sem birt var í maí, var drungaleg lesning og stormur hefur leikið um veiðarnar eftir að myndband, tekið af eftirlitsmanni stofnunarinnar, sýndi tveggja klukkustunda langt dauðastríð langreyðar sem synti um með fjölda sprengiskutla fyrirtækisins í síðunni spúandi blóði.
En þrátt fyrir að óveðurský hafi hrannast upp úti við sjóndeildarhringinn var Kristján mættur út á stuttbuxunum dansandi Sólarsamba þegar álit fagráðs um velferð dýra gaf starfsemi hans falleinkunn svo að matvælaráðherra stöðvaði fyrirhugaðar veiðar.
Sú heiðríkja sem Kristján taldi blasa við sér kann þó að hafa verið annað en himinninn.
Ótímabærar andlátsfréttir
„Hvalir fylla enga sali,“ sagði Svandís Svavarsdóttir á fundi atvinnuveganefndar Alþingis. Vísaði hún þar til hitafundar á Akranesi um hvalveiðar þar sem hagsmunaverðir fjölmenntu og bauluðu á ráðherrann sem gerði grein fyrir ákvörðun sinni.
Kristjáni Loftssyni er vorkunn. Kristján er orðinn svo vanur því að þegar hann lítur upp blasir við hvítþveginn hlífiskjöldur Sjálfstæðisflokksins að hann er farinn að halda að þar fari sjálft himinhvolfið. En nú skríður hann fram eins og barn undan pilsfaldi móður sinnar og kemst að því þar sem hann fótar sig í miskunnarlausum veðrabrigðum veruleikans að hann er ekki umvafinn skilyrðislausri ást og hlýju, athafnir hans eru ekki hafnar yfir vafa og þarfir hans eru ekki alltaf uppfylltar.
Kristján bregst við eins og barn úti á róló gerir við slíkar aðstæður. Hann grípur til uppnefna og kallar matvælaráðherra „öfgafullan kommúnista“.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur stjórnmálaflokkurinn Vinstri græn verið við það að þurrkast út af þingi. Hefur mörgum virst sem flokkurinn hafi gefið upp á bátinn öll helstu stefnumál sín fyrir stjórnarsamstarfið.
Fullyrðingar Kristjáns Loftssonar um blíðviðri eru jafnrangar og fræg veðurspá Michael Fish; hvalveiðar eiga sér vart líf. En getur verið að fréttir af andláti Vinstri grænna séu ótímabærar?
Bíði VG það afhroð í næstu kosningum sem þeim er spáð hlýtur flokkurinn að endurskoða forystu sína. Með framgöngu sinni við frestun hvalveiða sýndi Svandís Svavarsdóttir að þar fer einstaklingur sem býr yfir þori, getu og vilja til að blása nýju lífi í stefnumál flokksins sem virst hafa í heljargreipum Sjálfstæðisflokksins síðan 2017. Svo kann að vera að í síðustu viku hafi Svandís bjargað fleiru en hvölunum.
Athugasemdir (4)