Fyrir 20 árum hóf ég að starfa við söngkennslu. Mér var efst í huga að koma upp nýrri kynslóð söngvara á Íslandi. Auðvitað var mér ljóst frá upphafi að fólk færi í söngnám af hinum ýmsu ástæðum og að ætlun allra söngnemenda væri ekki sú sama og mín hafði verið; að verða atvinnusöngvari.
Ég átti mér strax háleit markmið fyrir hönd söngnemenda minna og var lengi fastur í þeirri hugsun að ef ég næði ekki settum markmiðum, væri það ákveðinn ósigur fyrir mig persónulega. Til allrar hamingju átti það eftir að breytast því háleitum markmiðum um frægð og frama geta ekki allir náð og ekki á mínu valdi að nemendur nái árangri nema að ákveðnu marki. Þó það sé vissulega öllum hollt og gott að setja markið hátt má metnaðurinn aldrei stýra lífi okkar og ég lærði það sem betur fer snemma á ævinni að þó að eitt markmið náist ekki þýðir það ekki að allt sé tapað.
Strax frá upphafi starfs míns sem söngkennara var ég með hugann við nemendur mína og þeirra markmið. Í hópi þessara nemenda voru nokkrir sem áttu sér stóra drauma, ekkert ósvipuðum þeim sem ég hafði átt í upphafi söngferils. Sumir náðu að láta draumana rætast og aðrir ekki.
„Þó að eitt markmið náist ekki þýðir það ekki að allt sé tapað“
Það sem lífið kennir okkur kemur manni oft í opna skjöldu. Þannig var það hjá mér þegar ég var búinn að starfa sem kennari og skólastjóri um árabil. Ég var búinn að taka þá ákvörðun að helga krafta mína skólastarfinu í stað þess að starfa áfram við sönginn. Eftir nokkurn tíma áttaði ég mig hins vegar á því að mín eigin söngiðkun hafði afgerandi áhrif á líðan mína. Í kjölfarið fór ég annað slagið að syngja við hvers kyns tækifæri og leit ekki á sönginn sem starf heldur innihaldsríka köllun sem jók á lífsgæði mín.
Innst inni hafði ég alltaf áttað mig á því að söngurinn hefði áhrif á líðan mína. Ég hafði tekið eftir því að þegar ég kvefaðist og gat ekki beitt hljóðfærinu mínu, röddinni, varð ég vansæll. Að lokum kom að því að ég leitaði á náðir Google og spurði spurningarinnar um hvaða áhrif söngur hefði á andlega heilsu? Og það stóð ekki á svarinu hjá leitarvélinni. Svörin rímuðu nákvæmlega við mína eigin upplifun.
Þessi svör breyttu lífi mínu því þetta varð dagurinn sem ég áttaði mig á því hvert raunverulegt mikilvægi starf mitt við söngkennslu gæti orðið.
Þessi tímamót áttu sér stað árið 2017 og nú, sex árum síðar, hef ég gert mér grein fyrir að uppgötvun mín var uppsafnaður lærdómur margra ára. Leitarvélin Google hefur bætt við sig nokkrum tugum milljóna svara við spurningunni um áhrif söngs á andlega heilsu síðan ég fyrst fór að fylgjast reglubundið með þeim. Rannsóknirnar eru orðnar nánast óteljandi og niðurstöður þeirra allra afgerandi: Söngur er stórkostlegt tæki til að bæta andlega líðan og líkamlega heilsu. Síðastliðin ár hef ég verið heltekinn af þessu málefni og hef í auknum mæli velt fyrir mér hlutverki mínu sem skólastjórnanda og kennara. Gæti verið að í framtíðinni ætti tilgangur skólans og hlutverk mitt eftir að breytast verulega?
Í dag er svarið við þessari spurningu auðvelt. Það er frábært að kenna söngnemendum sem að lokum ná þeim árangri að verða starfandi söngvarar. Takist mér hins vegar að bæta lífsgæði söngnemenda með því að gera þeim mögulegt að syngja og auka þannig lífsgæði sín, veitir það mér jafnmikla gleði.
Starfi mínu sem skólastjóri söngskóla fylgir sú kjörstaða að geta fylgst með fólki sem lifir og hrærist í söng. Stór hluti nemenda skólans er þar að læra söng til að bæta líðan sína, sjálfsmynd og heilsu og það gera þau sum meðvitað og önnur ómeðvitað.
Sama gildir um þá sem syngja í kór, taka þátt í söngleikjasýningum í skólanum sínum eða öðrum söngstörfum. Söngiðkunin gerir líf okkar betra.
Ég fór 18 ára í fyrsta söngtímann minn eftir að hafa sungið í skólakór og verið treyst fyrir einsöng með honum. Það opnaði ómeðvitað augu mín fyrir því að þarna væri minn staður í lífinu. Nú eru komin 40 ár frá þessum fyrsta söngtíma og það hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég hef farið víða í tengslum við sönginn og í raun átt svo ótrúlega skemmtilega, gefandi og góða ævi, þökk sé söngnum. Ég hef reyndar alltaf gert mér grein fyrir að ég hef notið mikilla forréttinda að hafa fengið í vöggugjöf rödd sem hefur gert mér kleift að geta sungið öðrum og sjálfum mér til gleði. Og nú nýt ég þess að fá að kenna næstu kynslóð söngvara og aðstoða þá við að uppgötva hæfileika sem gefa þeim þau lífsgæði sem söngurinn hefur veitt mér.
Við þekkjum það flest hvernig áreiti samfélagsmiðla og upplýsingaflæði er að verða mörgum okkar ofviða, ekki síst þeim sem yngri eru. Við bætast áhyggjur af umhverfisvá, ofbeldi í samfélaginu og yfirvofandi yfirtaka gervigreindarinnar. Viðspyrna við öllu þessu er nauðsynleg. Ef við náum að finna okkar jafnvægi og ró gegnum listræna sköpun, eins og t.d. söng, myndlist eða dans, höfum við skapað okkur einhverja vörn gegn kvíðanum, þunglyndinu og vanlíðaninni sem fylgir öllum þessum vanda.
Það er í öllum þessum ólgusjó, eftir áralanga reynslu, það merkilegasta sem ég hef lært.
Athugasemdir (1)