Kallað hefur verið eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í næstu viku til að fjalla um Íslandsbankamálið. Varaformenn nefndarinnar eru sammála um að málið slái þau ekki vel og þörf sé á því að fá frekari gögn og upplýsingar um málið. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, 2. varaformaður nefndarinnar, segir að tíðindin veki enn á ný upp spurningar um hæfi Bankasýslu ríkisins „og sömuleiðis fjármálaráðherrans, sem á endanum ber ábyrgð á þessu öllu saman.“ Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að með niðurstöðu sáttarinnar sé enn frekar orðið ljóst að nauðsynlegt sé að sett verði á fót rannsóknarnefnd sem fari yfir söluferlið allt.
Íslandsbanki birti í gær tilkynningu um að bankinn myndi gangast undir sátt við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna brota á lögum við sölu á eignarhlutum í bankanum sjálfum. Samkomulag sem náðst hefur milli Fjármálaeftirlitsins og Íslandsbanka gerir ráð fyrir að bankinn greiði 1.160 milljónir króna í sekt í ríkissjóð vegna þess meðal annars að hafa ekki fylgt lögum og eigin reglum við flokkun fjárfesta og að hafa ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Heimildin hefur í morgun reynt að ná í ráðherra og formenn stjórnmálaflokka til að fá þeirra viðbrögð, en án mikils árangurs. Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmönnum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, hyggjast ráðherrarnir ekki tjá sig um málið fyrr en eftir að sáttin verður birt, sem stendur til næstkomandi mánudag. Ekki náðist í aðra ráðherra.
Vekur spurningar um hæfi
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, 2. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur farið fram á að haldinn verði fundur í efnahags- og viðskiptanefnd í næstu viku. Þar verði í það minnsta fulltrúar Fjármálaeftirlitsins boðaðir til fundar og hugsanlega fleiri.
„Það er fullt tilefni til þess að það verði farið ítarlega yfir þetta mál“
„Það er fullt tilefni til þess að það verði farið ítarlega yfir þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt að þingið, og almenningur líka, fái nánari útlistun á því í hverju þessi brot hafi falist. Þær upplýsingar sem koma fram í tilkynningu Íslandsbanka eru frekar rýrar. Miðað við hvað þetta mál er mikilvægt fyrir almannahagsmuni er mikilvægt að fáum frekari upplýsingar um það beint frá Fjármálaeftirlitinu.“
Spurð hvort niðurstaðan hafi komið henni á óvart segir Þórhildur Sunna að hún hafi í sjálfu sér ekki verið búin að meta það með sér hver sektin kynni að vera, né heldur hafi henni verið ljóst hver brotin kynnu að vera. „Ég var hins vegar nokkuð viss um að niðurstaðan yrði sú að um brot hefði verið að ræða. Það getur auðvitað ekki staðist að banki sem er að selja hlut í sjálfum sér, fær að taka þátt í því ferli, leyfi síðan eigin starfsmönnum að taka þátt í því. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt þegar verið er að sýsla með ríkiseignir, þegar það birtast manni svona miklir hagsmunaárekstrar, og það var í mínum huga augljóst að það yrðu að verða einhverjar afleiðingar af því.
Ríkið er ennþá meirihlutaeigandi í bankanum á þessum tíma og Bankasýslan lýsir því yfir að þar hafi menn talið að allir innri verkferlar hjá Íslandsbanka væru í lagi. Þetta er sama stofnunin og ber ábyrgð á því að koma eigendastefnu ríkisins á bönkunum í framkvæmd samkvæmt lögunum. Staðan reynist síðan, eins og nú hefur komið í ljós, ekki betri en þessi. Það voru engir innri ferlar til staðar til að koma í veg fyrir þessi brot. Þetta vissi Bankasýslan á einhvern undraverðan hátt ekki. Þetta vekur auðvitað aftur upp spurningar um hæfi þess fólks sem er í Bankasýslunni og sömuleiðis fjármálaráðherrans, sem á endanum ber ábyrgð á þessu öllu saman.“
„Hún slær mig ekkert sérstaklega vel á þessum tímapunkti“
Ágúst Bjarni Garðarsson, 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að tilkynning Íslandsbanka sé einhliða lýsing og því erfitt að gera sér fulla grein fyrir málsatvikum. „Eina sem við höfum í höndunum er þessi tilkynning sem kom frá bankanum í gær. Persónulega finnst mér hún loðin, mér finnst hún óskýr og hún slær mig ekkert sérstaklega vel á þessum tímapunkti. Þingnefndin, í raun hvaða þingnefnd sem það verður, hlýtur að þurfa að fá frekari gögn og upplýsingar um þetta mál, það er bara staðan, mér finnst það.“
Þáttur ráðuneytisins hvergi verið rannsakaður
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, situr einnig í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún segir að Samfylkingin hafi samþykkt ósk Þórhildar Sunnu um að nefndin komi saman vegna málsins. Kristrún segir hins vegar að þessar lyktir málsins sýni enn frekar hversu mikilvæg, og réttmæt, krafa stjórnarandstöðunnar um að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir málið frá upphafi til enda sé.
„Það eru í gildi lög um sölu fjármálafyrirtækja í ríkiseign, þau voru sett sérstaklega eftir hrun út af því sem áður gekk á. Það er mjög skýrt að ábyrgðin sé fjármálaráðherra. Nú erum við með tvo aðila, annars vegar Bankasýsluna og núna Íslandsbanka, sem hafa fengið umtalsverðan skell varðandi hvernig var haldið utan um málið. Fyrst fengum við skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem fyrst og fremst tók á þætti Bankasýslunnar. Við í minnihlutanum bentum á það, þegar forsætisráðherra talaði um að þetta væri sú leið sem að myndi veita hvað mestar upplýsingar um feril málsins, að þar yrði aðkoma ráðuneytisins ekki rædd að neinu leyti. Síðan var sagt að fjármálaeftirlitið myndi rannsaka þátt Íslandsbanka og gott og vel. En þarna eru komnir fram tveir stakir þætti í málinu núna, sem báðir virðast enda með frekar alvarlegum niðurstöðum, það alvarlegum fyrir Bankasýsluna að það á að loka henni, og það alvarlegum fyrir Íslandsbanka að það á sekta hann um 1,2 milljarða króna. Hvergi í öllu þessu ferli hefur þáttur ráðuneytisins verið rannsakaður,“ segir Kristrún.
„Þá hefði átt að sjást að þarna væri pottur brotinn, við sölu á þjóðareign“
Kristrún segir að stjórnmálamenn og almenningur séu í raun enn hálfblind varðandi aðkomu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar, sem beri ábyrgð á söluferlinu en hafi í raun útvistað þeirri ábyrgð til Bankasýslunnar og Íslandsbanka. „Ég myndi því segja að þessi niðurstaða sannar einfaldlega réttmæti kröfu okkar í minnihlutanum um rannsóknarskýrslu um heildarferlið. Ábyrgðin er alveg skýr í lögunum, fjármálaráðherra og ríkisstjórnin getur ekki einfaldlega litið framhjá því að ef keðjan fyrir neðan þau er öll brotin, þá er eitthvað að efst í stjórnsýslunni og ákvarðanatökunni í þessu máli. Í rauninni er ekkert mikið meira að segja um málið á þessum tímapunkti, það hlýtur bara að vekja upp spurningar um hvort fólki þyki í lagi að sitja uppi með þessa niðurstöðu og kanna ekki samskipti ráðuneytisins við Bankasýsluna og við Íslandsbanka. Það hlýtur því að þurfa að setja á rannsóknarnefnd sem fer yfir málið allt.“
Kristrún segir að málið sé alvarlegt, það hafi verið ljóst áður en komi nú enn frekar í ljós. Lögin séu skýr varðandi að gæta þurfi að hagkvæmni, gagnsæi og jafnræði sem snýr að vali á fjárfestum. Lögum samkvæmt beri fjármálaráðherra að ganga úr skugga um að gætt sé að þessum þáttum. „Það er engan veginn verið að gera þá kröfu að fjámálaráðherra fletti upp hverjum aðila sem kaupi sig inn í útboðið, en það eiga að vera girðinga, verkferlar og flögg í kerfinu sem hann, ráðuneytið og hans ráðgjafar geta stuðst við. Og þá hefði átt að sjást að þarna væri pottur brotinn, við sölu á þjóðareign.“
Athugasemdir