Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hve margir eru myrtir?

Morð eru ekki með­al al­geng­ustu dánar­or­saka í heimi hér. En hversu mörg eru þau á hverju ári og hvar er hættu­leg­ast að eiga heima?

Hve margir eru myrtir?
Vettvangur glæps Margir halda sjálfsagt að Bandaríkin séu mjög ofarlega á blaði en því fer raunar fjarri. Þau eru í kringum 60. sæti í heiminum öllum; sumir listar segja 64. sæti. Mynd: AFP

Á marflatri sléttunni í Arkansas-ríki í Bandaríkjunum, 30 kílómetra í vestur frá Mississippi-fljótinu mikla og 55 kílómetra í norðvestur frá Memphis Tennessee, er bærinn Lepanto.

Hann heitir af ókunnum ástæðum eftir skaganum Lepanto í Kórintuflóa á Grikklandi þar sem var háð fræg sjóorrusta milli Tyrkja og kristinna Evrópumanna árið 1571. Bærinn Lepanto í Arkansas fór aftur á móti að vaxa upp um miðja 19. öld. Annars vegar var þar stundað skógarhögg en hins vegar var bærinn miðstöð framræslu á gríðarlegu mýrlendi þar í sveitum.

Nú er Lepanto friðsæl þjónustumiðstöð fyrir sveitirnar í kring. Íbúar eru rétt rúmlega 1.600. Bæjarstjórinn heitir Henry Tucker og náði kosningu í fyrrahaust aðallega með því að lofa að flikka upp á ásýnd Main Street sem liggur gegnum bæinn.

Xinguangwu við rætur Kínamúrsins

Xinguangwu heitir bær einn í Kína norðanverðu, hann er í mynni hrjóstrugs fjalladals í Yanmen-fjöllum í Shanxi-héraði. Um þessi fjöll og sléttuna þar sem þorpið rís, þar liggur Kínamúrinn og hluti af múrnum eru raunar bæjarmörk Xinguangwu.

Stórborgin Shuozhou er í 30 kílómetra fjarlægð frá þorpinu svo þangað sækja þorpsbúar flestalla sína þjónustu en sjálfir sýsla þeir helst í kringum ferðamenn sem koma að skoða múrinn.

Þarna djúpt inni í landi er dæmigert meginlandsloftslag svo íbúarnir 1.600 ganga léttklæddir í 30 stiga hita á sumrin en reyna að klæða af sér hörkufrost á veturna.

Funadhoo á Maldíve-eyjum

Funadhoo heitir þorp á samnefndri eyju sem telst til Maldíve-eyjaklasans í Indlandshafi. Þar er flugvöllur sem er reyndar bara ein flugbraut, enda myndi Funadhoo-eyja ekki rúma víðáttumikið vallarstæði. Eyjan er þriggja kílómetra löng en aðeins 585 metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Þorpið Funadhoo er eins konar höfuðstaður nálægra eyja en Maldíve-eyjar eru, eins og allir vita, afar margar, smáar, dreifðar og fámennar. Flestallir vinna við flugvöllinn eða höfnina, því Funadhoo er samgöngumiðstöð á nyrðri hluta eyjaklasans. Börn ganga í ágætan skóla sem er í þorpinu en lifa annars sérlega áhyggjulausu lífi, að sögn. Þremenningarnir Ibrahimfulhu, Nazeer og Khalidh mynda þorpsráðið og taka þær ákvarðanir sem þarf að taka fyrir hönd hinna 1.600 íbúa.

Ef allir væru nú myrtir

Reynið nú að sjá fyrir ykkur íbúa þessara þriggja smábæja.

Til dæmis afgreiðslupiltinn Sam á verkstæðinu Big Boy Towing & Repair í Lepanto.

Eða hana Yeng Yī Nuò gömlu í Xinguangwu sem gefur flækingsköttunum við Kínamúrinn.

Eða þá táningsstúlkuna Shadiyu í Funadhoo sem dreymir um að komast burt áður en hún verður seld einhverjum ríkum túrista í fyrsta sinn.

Og hugsið ykkur svo að allir 1.600 íbúar einhvers af þessum þremur bæjum væru myrtir á einum degi.

Eða þá allir íbúar í Sandgerði, Þorlákshöfn, Höfn í Hornafirði, en það eru þeir íslensku bæir sem eru sennilega næstir Lepanto, Funadhoo og Xinguangwu að íbúafjölda.

„Venjuleg“ morð

Allir íbúar í einhverjum þessara bæja skotnir, stungnir, hengdir, kyrktir, lamdir, kæfðir – svo fátt eitt sé talið. Þurrkaðir út á einum sólarhring.

En þetta er einmitt það sem gerist á hverjum degi.

Um það bil 1.600 manns týna lífi fyrir morðingjahendi.

Þetta gera um 580.000 manns á ári. Sem myndi nokkurn veginn samsvara því að allir íbúar Dublinar eða Gautaborgar væru myrtir á ári hverju. 

Rétt er að taka fram að þessar tölur eru ekki óyggjandi. Í sumum skýrslum eru tölur yfir morð lægri og „aðeins“ 480.000 eru talin myrt á einu ári. „Aðeins“ um 1.500 á dag. Í öðrum skýrslum virðist morðafjöldinn meiri. Það verður ekki útkljáð hér. En nokkurn veginn svona er mannfallið.

Og inni í tölunum eru ekki eiginleg stríðsátök eins og í Úkraínu.

Hér er bara átt við „venjuleg“ morð. Á hinn bóginn eru morð sem framin eru af vígasveitum hryðjuverkamanna og glæpamanna alls konar talin með.

Bílslys drepa fleiri en morð

Það er líka rétt að taka fram að morð eru ekki meðal allra algengustu dánarorsaka í heiminum í heild.

Þau virka næsta meinlaus miðað við hjartasjúkdóma sem drepa tæplega 20 milljónir manna á ári (álíka marga og búa í Kaíró með öllum úthverfum), krabba sem drepur rúmar 10 milljónir (París!) og lungnasjúkdóma sem drepa á ári 4 milljónir (Berlín, tæplega þó).

Bílslys drepa meira en helmingi fleiri en eru myrtir á hverju ári og örlítið fleiri falla fyrir eigin hendi en annarra.

Sjálfsvíg eru í 15. sæti dánarorsaka samkvæmt nýrri skýrslu, morð og manndráp í 17. sæti.

En samt – að svo margir eins og samsvara íbúum í heilum smábæ séu myrtir í heiminum á hverjum degi, myrtir af alls konar ástæðum, heift, grægði, stjórnleysi, hreinni mannvonsku – það segir ekki fallega sögu.

Hve hættuleg eru Bandaríkin?

En hver eru hættulegustu ríkin?

Margir halda sjálfsagt að Bandaríkin séu mjög ofarlega á blaði en því fer raunar fjarri. Þau eru í kringum 60. sæti í heiminum öllum; sumir listar segja 64. sæti. Morðatíðnin þar er í kringum 6,5 á hverja 100.000 þúsund íbúa á ári.

Það er ekki mikið miðað við hættulegustu ríkin í Mið-Ameríku þar sem 30–50 af hverjum 100.000 íbúum falla fyrir morðingjahendi á hverju ári. Af hinum stærri ríkjum Norður- og Suður-Ameríku eru aðeins Argentína, Kúba og Tjíle neðar á listanum en Bandaríkin en þar munar þó ekki mjög miklu – og svo er Kanada með „ekki nema“ 2/100.000 samkvæmt þessum skala, og líkist meira Evrópu- en Ameríkuríkjum hvað þetta snertir.

Það er nefnilega merkilegt þegar staða mála í Bandaríkjunum er höfð í huga að þótt þau séu ekki mjög ofarlega á morðalistanum í heiminum í heild, þá eru þau miklu hærri en flestöll Evrópuríki.

Tæplega 11 þúsund morð á ári í Rússlandi

Raunar hefur aðeins eitt Evrópuríki verið ofar á lista en Bandaríkin að undanförnu en það er Rússland.

Milli 7 og 8 Rússar af hverjum 100.000 hafa fallið fyrir morðingjahendi á ári undanfarið. Árið 2020 voru 10.697 Rússar myrtir. Það eru álíka margir og allir íbúar Mosfellsbæjar.

Annað Evrópuland hefur svo verið á svipuðum hlutfallsslóðum og Bandaríkin (það er að segja góðum spöl neðar en Rússland) en það er Úkraína. Upplýsingar um þessi lönd eru frá því fyrir innrás Rússa.

Í þriðja sæti Evrópuríkja er Litáen og kemur kannski ýmsum á óvart. Þar hefur talan verið milli 3,5–4,5 undanfarin ár. Það eru rúmlega 100 morð á ári. Næst á eftir Litáen koma hin Eystrasaltsríkin, Lettland og Eistland, og svo Belarús, Svartfjallaland, Kósóvó, Moldóva og Albanía.

Geisar morðæði í Svíþjóð?

Hættulegustu Norður- og Vestur-Evrópuríkin eru Belgía og Finnland, Malta og Rúmenía með um 1,6 myrta ári/100.000. Það þýðir tæplega 100 í Finnlandi á ári en tæplega 200 í Belgíu.

Flest Evrópuríki eru með tölur kringum 1. Kannski kemur einhverjum á óvart miðað við stöðugar fréttir um glæpaöldu í Svíþjóð að morðatíðnin þar er ekki nema örlítið hærri en í Danmörku. Árið 2020 voru 124 myrt í Svíþjóð (1,2) en 55 í Danmörku. (1,0).

Bretland er mjög á sömu slóðum með tæplega 800 morð á ári (1,1) hvað sem morðatíðninni í Misomer líður.

Af hinum fjölmennari ríkjum Evrópu er morðatíðni lægst í Noregi, Spáni, Hollandi, Ítalíu, Slóveníu og Sviss eða 0,5–0,6.  

Hverjir eru hættulegastir konum? Nú, eiginmennirnir

Konur eru „aðeins“ 20 prósent af þeim sem falla fyrir morðingjahendi.

Rúmlega þriðjungur kvenna, 34 prósent, eru myrtar af maka sínum. Tíðni þessara morða virðist fara hækkandi. Af öðrum myrtum konum eru 24 prósent drepin af einhverjum öðrum í fjölskyldunni. Sorglega oft er þar um að ræða hin svokölluðu „heiðursmorð“ sem mætti nú fara að kalla eitthvað annað. „Aðeins“ 42 konur af hverjum 100 eru sem sé myrtar af einhverjum öðrum en sinni nánustu fjölskyldu.

Mjög margar þeirra voru vændiskonur.

Áratuginn 2008–2017 hefur verið reiknað út að 205.153 börn á aldrinum frá fæðingu og til 14 ára hafi verið drepin – langflest af nánum ættingjum. 60 prósent þessara dánu barna voru drengir, 40 prósent stúlkur. Athyglisvert er og sorglegt að þótt morðatíðni í Evrópu sé yfirleitt mun lægri en annars staðar, þá virðist tíðni barnsmorða vera hærri þar en á flestum stöðum öðrum. Það er umhugsunarefni. 

Ódýr mannslíf

Morðatíðni er afdráttarlaust hæst í ríkjum þar sem jöfnuður í lífskjörum er lítill, réttarríki veikt og jafnrétti kynjanna skammt á veg komið. Þar vekur auðvitað sérstaka og sorglega athygli hve ódýr mannslífin virðast vera í Mið-Ameríku og Karíbahafi, sem og í mörgum Afríkulöndum.

En ekkert er algilt og af einhverjum ástæðum hefur Senegölum tekist að halda manndrápaplágunni í skefjum, þótt landið sé landfræðilega og samfélagslega náskylt ýmsum Afríkuríkjum þar sem morðatíðni er óttalega há.

Senegal keppir nefnilega við Japan, Oman, Singapúr og Andorra um neðsta sætið á þessum ljóta lista.

Hættulegustu ríki heims

Sjáum morðatíðni á ári miðað við 100.000 íbúa í nokkrum löndum. Fyrst koma tíu hættulegustu löndin, svo nokkur önnur til samanburðar og fróðleiks.

Tölurnar eru frá World Population Review. Athugið að þær eru ekki greyptar í stein. Þær eru ekki allar frá sama ári og svolítið misáreiðanlegar. En þær segja sína sögu.

1 El Salvador, Mið-Ameríku 52,0

2 Jamaíka, Karíbahafi 43,8

3 Lesotho, Afríku 43,5

4 Hondúras, Mið-Ameríku 38,9

5 Belís, Mið-Ameríku 37,7

6 Venesúela, Suður-Ameríku 36,6

7 St.Vincent, Karíbahafi 36,5

8 Suður-Afríka, Afríku 36,4

9 St.Kitts & Nevis, Karíbahafi 36,9

10 Nígería, Afríku 34,5

Nokkur önnur lönd (og eitt sjálfstjórnarsvæði) sem ekki eru nefnd í greininni:

13 Mexíkó, Mið-Ameríku 29,0

16 Brasilía, Suður-Ameríku 27,3

61 Grænland, Evrópu 5,3

81 Indland, Asíu 3,8

130 Bretland, Evrópu 1,2

132 Frakkland, Evrópu 1,2

142 Þýskaland, Evrópu 0,9

145 Ísland, Evrópu 0,8

151 Pólland, Evrópu 0,7

159 Kína, Asíu 0,5

166 Indónesía, Asíu 0,4

171 Japan, Asíu 0,2

Kjósa
20
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Rögnvaldur Óskarsson skrifaði
    Grænland tilheyrir Norður Ameríku, Mexíkó reyndar líka.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Pörusteikin skemmtilegasti jólamaturinn
3
Matur

Pöru­steik­in skemmti­leg­asti jóla­mat­ur­inn

Karl Roth Karls­son kokk­ur starfar á Fisk­fé­lag­inu sem hann seg­ir lengi hafa ver­ið draumastað­inn. Hann hef­ur starf­að lengst á Mat­ar­kjall­ar­an­um, en einnig á Von, Humar­hús­inu, Sjáv­ar­grill­inu og svo er­lend­is. Hann var fljót­ur til svars þeg­ar hann var spurð­ur hver væri upp­á­hald­sjó­la­mat­ur­inn. Það er pöru­steik­in þó svo að hann hafi ekki al­ist upp við hana á jól­um. Karl gef­ur upp­skrift­ir að pöru­steik og sósu ásamt rauð­káli og Waldorfs-sal­ati.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
3
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
Selja aðgang að bílastæðum við Laugardalshöll á 5.990 krónur
6
Fréttir

Selja að­gang að bíla­stæð­um við Laug­ar­dals­höll á 5.990 krón­ur

Bíla­stæð­in næst Laug­ar­dals­höll­inni verða frá­tek­in fyr­ir þau sem eru til­bú­in að borga hátt í 6 þús­und krón­ur fyr­ir að leggja bíl­um sín­um þar á með­an tón­leik­arn­ir Jóla­gest­ir Björg­vins fara fram á laug­ar­dags­kvöld. Hluti stæð­anna sem Sena sel­ur að­gang að standa á landi Reykja­vík­ur­borg­ar við Engja­veg, ut­an lóð­ar­marka Laug­ar­dals­hall­ar­inn­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
4
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
5
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár