Undanfarin misseri hafa nokkrir áhrifamenn farið með himinskautum þegar talið berst að Evrópusambandinu eða evrópsku regluverki og dómsvaldi. Örlög lýðveldisins eru jafnvel talin undir ef eitthvað er gefið eftir og þá vitnað til þjóðveldisins. En hvað var þetta þjóðveldi? Í orðabók segir; „samfélag fólks undir forystu höfðingja, sem býr við ákveðið form lýðræðis, útkljáir mál sín á þingum“. Vísað er til orðasambandsins „íslenska þjóðveldið, stjórnskipan sem ríkti á Íslandi frá 930-1262, þjóðveldisöld“.
Það er ákveðin mótsögn í staðhæfingunni „samfélag fólks undir forystu höfðingja, sem býr við ákveðið form lýðræðis, útkljáir mál sín á þingum“ enda er gefið í skyn að þjóðveldið hafi verið ákveðið form af lýðræði. Orðið sjálft „þjóðveldi“ er sett saman úr orðunum „þjóð“ og „vald“ sem segir að valdið sé hjá þjóðinni. Það er ljóst að notkun á orðinu „þjóðveldi“ fyrir tímabilið fyrir 1262 á ekki við rök að styðjast. Hér var ekkert lýðræði skv. nútímaskilningi þess orðs heldur höfðingjaveldi þar sem höfðingjar neyttu aflsmunar gagnvart almenningi og öðrum höfðingjum. Þing voru ekki fulltrúaþingi eins og þekkt er í nútímasamfélagi heldur samkomustaður þar sem höfðingjar reyndu að gera út um sín mál án átaka.
Hvers vegna notum við þá orðið „þjóðveldi“? Orðið þjóðveldi kemur fyrst fram á prenti 1837 og er þá verið að vísa til Bandaríkjanna, þ.e. The United States of America. Þjóðveldi er þýðing á orðinu „Republic“. Þegar orðið var notað í tímaritum um og eftir 1850 var verið á vísa til fullvalda ríkja, t.d. Frakklands og Bandaríkjanna, þar sem ekki var konungsstjórn heldur einhvers konar fulltrúavald. Þetta fulltrúavald gat verið með ýmsum hætti og val fulltrúa einnig, þ.e. kosningaréttur/valréttur var yfirleitt mjög takmarkaður við stétt, kyn ofl. Orðið „lýðveldi“ leysir orðið „þjóðveldi“ af hólmi sem þýðing á orðinu „republic“ á seinni hluta 19. aldar, t.d. Franska lýðveldið. Þetta er í raun samheiti nema ástæða sé til að skilgreina „lýðinn“ í ríkinu á annan hátt en „þjóðina“ í ríkinu! Það má hins vegar ekki blanda saman orðunum republic og democracy, þ.e. lýðveldi og lýðræði, enda merkir „lýðræði“ að fólkið hafi vald til að velja fulltrúa til að stjórna ríkinu. Þannig geta lönd verið skilgreind sem lýðveldi, þ.e. án konungs, án þess að þar sé nokkurt lýðræði og heiti nokkurra þekktra einvaldsríkja/einflokksríkja byrjar á; „The Democratic Republic of A“, svokölluð „Alþýðulýðveldi“. Pólitískir alvaldar geta leyft sér ýmiss konar sérkennilegar nafngiftir!
Ýmsir fræðimenn á 19. og 20. öld, t.d. Björn M. Olsen rektor og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, notuðu orðið „goðaveldi“ sem heiti á samfélaginu fyrir 1262 og Björn Þorsteinsson sagði að þjóðveldishugtakið væri „villuhugtak, þjóðin var ekkert veldi að fornu heldur voru það goðar sem stjórnuðu gangi mála“. Gísli Pálsson mannfræðingur bætir um betur og segir: „Enda þótt hugtakið goðaveldi sé ekki gallalaust er það trúverðugra en hugtökin fríríki og þjóðveldi. Síðari hugtökin fela í sér tímaskekkju þar sem vísað er til ríkisvalds annars vegar og þjóðernis hins vegar en hvorugt á við þegar rætt er um tíma goðaveldi.“ Það er þessi tímaskekkja sem Gísli bendir á sem er athyglisverð, þ.e. notaðar eru nútímaskilgreiningar á fyrri alda fyrirbærum sem eru ekki samanburðarhæf. Íbúar Íslands um árið 1000 skilgreindu sig ekki sem sérstaka þjóð í 19. aldar skilningi þess orðs og litu heldur ekki svo á að tilvist Alþingis þýddi að skilgreina bæri þinghár þess sem fullvalda ríki.
„Þegar við skilgreinum hver við erum og hvernig samfélag við búum í er æskilegt að miða við eitthvað annað en rangfærslur úr fortíðinni.“
Forsendan fyrir því að kalla tímabilið 930-1262 þjóðveldi er að hér hafi þá verið sjálfstætt ríki fullvalda þjóðar. Í þjóðrembingi 19. aldar þvældist það ekki fyrir mönnum að svo hafi verið. Þeirri staðhæfingu hefur síðan verið viðhaldið með ýmsum aðferðum sem þola illa vísindaleg rökhyggju en henta vel í pólitík. Þegar orðið „lýðveldi“ ryður orðinu „þjóðveldi“ á brott sem þýðing á orðinu „republic“ þá nota menn ekki það orð fyrir tímabilið 930-1262, líklegast vegna þess að „þjóðveldi“ hljómar betur í pólitík dagsins!
Íslenska þjóðveldið er hugarfóstur fullveldisbaráttunnar og helsta ástæða fyrir notkun á orðinu „þjóðveldi“ í ræðu og riti, þ.á m. fræðiritum og kennslubókum, er þjóðernisleg. Það er verið að nota sögu í pólitískum tilgangi. Fyrst var það fullveldis og sjálfstæðisbarátta með Dani í aðalhlutverki en síðan komu aðrir í þeirra stað; útlendur her, breskir og þýskir togarar og loks Evrópusambandið. „Þjóðveldið“ var hið góða og óspjallaða íslenska samfélag að mati íslenskra þjóðernissinna sem tekið var yfir á sínum tíma af vondu erlendu valdi en hefur síðan verið í stöðugri baráttu í að endurheimta og viðhalda hreinleikanum. Þess vegna verður hver sá sem ekki styður „þjóðveldið“ óþjóðlegur og óverðugur þess að vera Íslendingur og þannig gæti endalok notkunar orðsins boðað endalok lýðveldisins!
Við Íslendingar, þ.e. íbúar Íslands, höfum verið til í meira en þúsund ár og verðum væntanlega áfram á meðan landið er byggilegt en þegar við skilgreinum hver við erum og hvernig samfélag við búum í er æskilegt að miða við eitthvað annað en rangfærslur úr fortíðinni.
Höfundur er sagnfræðingur.
Athugasemdir (1)