Ráðning Sigríðar Margrétar Oddsdóttur til Samtaka atvinnulífsins (SA) er söguleg. Ekki bara vegna þess að nú mun kona í fyrsta sinn sitja á stóli framkvæmdastjóra heldur einnig vegna þess að aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna er mágkona Sigríðar.
Tvær konur, mágkonur, munu leiða samtökin þegar Sigríður Margrét, sem nú er forstjóri Lyfju, tekur við starfi framkvæmdastjóra í haust.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna, er gift bróður Sigríðar Margrétar. Anna Hrefna tók við starfinu í fyrra og er ekki á förum svo vitað sé. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður samtakanna, segir að mikil ánægja hafi ríkt með störf hennar.
Telur ekki að tengslin verði til vandræða
Átta manna framkvæmdastjórn SA var meðvituð um tengslin við ráðningu Sigríðar, að sögn Eyjólfs. Hann segir að þau hafi ekki verið tekin til sérstakrar skoðunar í ferlinu.
„Ég get ómögulega komið auga á að slík tengsl verði eitthvað vandamál,“ segir Eyjólfur. „Fyrir mitt leyti velti ég því aldrei fyrir mér og ég veit ekki til þess að nokkur einasti aðili í framkvæmdastjórn hafi gert það þó ég geti ekki svarað fyrir alla.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, fráfarandi formaður SA, sagði starfi sínu lausu í marsmánuði. Ráðning Sigríðar Margrétar var tilkynnt í gær. Aðspurður telur Eyjólfur ekki að ferlið hafi verið óeðlilega langt.
„Fyrst og fremst var þetta vandað ferli sem tók sinn tíma,“ segir hann. „Þetta var sameiginleg niðurstaða framkvæmdastjórnar eftir viðtöl. Það var úr öflugum hópi að velja.“
Kjaraviðræður eru fram undan í haust og hefur Eyjólfur engar áhyggjur af því að nýr framkvæmdastjóri komi inn á sama tíma.
„Hún er afar öflugur einstaklingur og setur sig hratt inn í hlutina. Við megum bara ekki gleyma því að það er gríðarlega öflugur hópur þegar í starfi hjá Samtökum atvinnulífsins. Framkvæmdastjórinn er aldrei einn í þessum hlutum.“
Athugasemdir