Sókn jafnréttis í gegnum varnir óréttlátra valdhafa getur verið þrautaganga. Venjuvæðing réttlátrar hugsunar víkur fyrir framheilaskaðanum og mannkostaskortinum sem stýrir ótta og reiði þeirra andfélagslegu. Ég sé fyrir mér brynvarinn skriðdreka sem keyrir brösuglega yfir þokufullt sprengjusvæði sem spannar víðfeðmi og hvergi sést til bæjar. Vígvöllurinn er ekki lengur bein skoðanaskipti eða margmenni í mótmælum niður í bæ. Vettvangurinn hefur breyst. Stafræni heimurinn með öllum sínum krókum og kimum hefur tekið yfir. Rafheimar eru orðnir að vígvellinum þar sem þú sérð hvorki blóð né mold en afleiðingarnar eru samt sem áður mannfall. Netið hefur ekki verið kortlagt eins og raunheimur allur og engar götur eða hverfi er hægt að nota sem leiðarvísi. Við erum að öskra í svartholi og ekkert bergmál heyrist.
Reikull í spori ratar sá sem neitar að skilja stóru myndina á vettvang samfélagsmiðla. Vettvangsleysan,- þar sem geðþóttaskoðanir eru taldar ofar vísindalegri þekkingu. Setningar á borð við: „Mér finnst“ treður með ofstopa yfir sannreynda þekkingu vísindasamfélagsins. Samfélagsleg vitund og almannaálit skekkist. Andfélagslegir í athugasemdakerfum fjölmiðlanna staðfesta það og vinna baki brotnu við að benda á lítil megnug frávik í löngu skilgreindum faraldri. Við förum aftur á bak í vitsmunalegri þróun og gagnrýnni hugsun. Siðfræði og framganga heildarinnar víkur fyrir Instagram-filterum og innihaldslausum starfsheitum sem maka krókinn á því að selja okkur sjúklegan samanburð. Andfélagsleg hegðun rís á afturlappirnar og verður skýrari í samanburði við hegðun þeirra sem jafnræði kjósa. Mannkostaskorturinn opinberar sig með offorsi og þeir siðblindu fara skömmustulausir á stjá þar sem hegðun þeirra er bæði hyllt og án afleiðinga.
Þrátt fyrir þessa bölsýn, þá eru hlutirnir að breytast. Siðaskipti eru að eiga sér stað. Þau virðast koma sérstaklega illa við þá sem að sér finnst vegið með valdeflingu þeirra sem brotið hefur verið á. Réttlát krafa um nýjar siðareglur samfélagsins varðandi úrlausn kynferðisafbrotamála á forsendum þolenda virðast vera erfið meltingar fyrir marga. Siðaskiptin skekkja og ógna heimsmynd þeirra sem óttast upplausn, uppgjör eða opinberun. Það fer uggur um ráðandi valdhafa óskilgreinda valdsins. Svo mikill uggur að vald femínískrar baráttu er bútað niður og aðgreint til að valda upplausn. Óreiða og óstöðugleiki er málaður upp og seldur lýðnum. Úthrópun, aðgreining og í kjölfarið yfirtaka eða aftaka er aðförin að rökstuddum staðreyndum, sem einkennir þá sem óttast bæði jafnræði og jafnvægi. Svo mikil er andúðin í garð þolenda að nýr brotavettvangur er virkjaður og nýttur til margvíslegra voðaverka.
Afleiðingar af kynferðisofbeldi eru alvarlegar
Kynferðisofbeldi hefur bæði ljós og óljós birtingarform. Þegar talað er um kynferðisofbeldi er m.a. átt við: Nauðgun, kynferðisofbeldi gagnvart börnum, klám, vændi, kynferðislega áreitni, kynferðislegar þvinganir og stafrænt kynferðisofbeldi. Algengar afleiðingar af kynferðisofbeldi eru m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, átröskun, einangrun, erfiðleikar í samskiptum, erfiðleikar með svefn og einbeitingu, erfiðleikar í kynlífi og oft ögrandi kynferðisleg hegðun. Þá er algengt að þolendur glími við lélega sjálfsmynd, hafi líkamlega verki, stundi sjálfsskaða og upplifi sjálfsvígshugsanir. Tilfinningar eins og ótti, reiði, skömm og sektarkennd geta ásótt þolendur í miklum mæli og haft neikvæð áhrif á líf þeirra. Afleiðingar af kynferðisofbeldi geta verið svo lífsgæðaskerðandi að í verstu tilfellunum liggur ekkert líf eftir. Skertur skilningur samfélagsins og andfélagsleg orð á netinu í garð þeirra sem voga sér að tala um sársauka sinn hefur skaðleg áhrif og getur ýtt þeim í átt að vonleysi.
Gerendavænn brotavettvangur er að ryðja sér til rúms
Brotavettvangur kynferðisafbrota var lengi vel einskorðaður í hugrænum ferlum fólks við leifturárásir ókunnugra manna í garð kvenna sem voru grunlausar í glasi á leið heim af galeiðunni. Algengi þessa brotavettvangs hefur ávallt verið á ranghugmyndum byggður. Langt um algengari gerð af brotavettvangi þegar kemur að kynferðisofbeldi eru t.d. heimili, fjölskyldutengsl, vina- og kunningjasambönd og náin sambönd. Með hömlulausri og hraðri yfirtöku rafheims á raunheimum hefur veraldarvefurinn búið til kjöraðstæður fyrir nýjan brotavettvang. Lögum, aðgerðum, eftirliti og afleiðingum hefur reynst erfitt að framfylgja þar sem umfang og hraði brotavettvangsins er gífurlegur og lýtur engri miðlægri stjórn. Allir geta nálgast alla, sagt allt, á öllum tímum dags og enginn er óhultur. Uppruni illmælgis verður óskýr og er illa fundinn. Felustaðirnir eru of margir og nafnleysið er heillandi þeim sem ekki vilja í ábyrgð ganga fyrir eigin orðum, hugsunum eða gjörðum.
Stafrænt kynferðisofbeldi er ógn við almannaheill
Í rafheimum er hægt að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Stafrænt kynferðisofbeldi er kynferðisofbeldi sem á sér stað á netinu eða á annan rafrænan hátt. Það að senda kynferðislegt efni til manneskju án samþykkis er kynferðisofbeldi sem og að dreifa slíku efni án samþykkis. Stafrænt kynferðisofbeldi er alvarleg tegund ofbeldis og afleiðingar þess fyrir þolendur eru skaðlegar. Afleiðingar í rafheimum eru raun og veru hinar sömu og í raunheimum. Þolendur upplifa frelsissviptingu, lamandi vanmátt og ótta. Tilfinningarnar líkjast m.a. þeim sem koma í kjölfar innbrots í híbýli manna enda eru rafheimar orðnir að heimilum og griðastöðum fyrir marga. Kynferðisleg friðhelgi þolanda er tekin eignarhaldi, vanhelguð og mökuð í skömm og rétturinn til einkalífs er virtur að vettugi.
Þolendur tala um vanlíðan tengda því að það hefur ekki hugmynd um hvar efnið er niðurkomið, hver hefur séð það og hvernig það verður hugsanlega notað í framtíðinni. Þolendur eru oft hræddir um að efnið verði notað gegn þeim, m.a. með hótunum um birtingu á t.d. vinnustað, til fjölskyldna, skóla barna þeirra eða með birtingu meðal jafningja, s.s. skólafélaga, vinahópa eða á samfélagsmiðlum. Stafrænt kynferðisofbeldi er t.d þegar einhver:
-
sendir þér óumbeðnar kynferðislegar myndir, myndbönd eða skilaboð
-
tekur kynferðislegar myndir eða myndbönd af þér í leyfisleysi
-
dreifir kynferðislegu efni af þér á vefsíðum eða til annarra, til dæmis mynd, myndbandi, hljóðupptöku eða skilaboðum
-
dreifir fölsuðu kynferðislegu efni af þér
-
Suð og tuð um kynferðislegt efni. Þrýstir á þig til að senda sér nektarmyndir eða myndbönd af þér, jafnvel þó því sé aldrei dreift.
-
hótar að dreifa kynferðislegu efni af þér
-
sendir áfram kynferðislegt efni af öðrum ef ekki ert vitað hvort viðkomandi hefur gefið leyfi
Þrátt fyrir hættur og hraða rafheima þá eru raunheimar að fylgjast með og reyna að sporna við afleiðingum hegðunar þeirra sem ekki vilja hætta að meiða. Bæði er hægt að tilkynna brot og efni til samskiptamiðla og eins er hægt að takmarka dreifingu á kynferðislegu efni sem birt hefur verið gegn þínum vilja.
Að vera málkunnugur djöflinum getur ekki boðað gott.
Samtök eins og Take it down hjálpa þolendum við að taka efni í burtu sé þolandi 18 ára eða yngri þegar efni var dreift. Samtökin Stop Non-Consensual Intimate Image Abuse hjálpa hins vegar þolendum 18 ára og eldri við að fjarlægja efni dreift í þeirra óþökk. Mikilvæg samtök sem sérhæfa sig í skaðaminnkun fyrir þolendur en rót vandans liggur hins vegar annars staðar. Viðbragðsleysi fjöldans og skortur á lagalegum úrræðum má túlka sem verðlaun fyrir slæma hegðun. Sálartetur þess siðblinda nærist á fjarlægðinni sem rafheimar veita og felur slóð þeirra til að forða frá ábyrgð. Heigullinn hendist undir stein og liggur þar flatur þar til hættan er liðin hjá. Síðan býr hann bara til nýja samfélagsmiðlaaðganga eða ný netföng og heldur áfram að hrella. Frenjulegt tilkall til skaðlegra skoðana og hraði óreiðunnar eru ógnvekjandi öfl á internetinu.
Lokaorð
Titill greinarinnar kemur frá orðum gamallar konu sem ég þekkti og var fleiri mannkostum gædd en flestir. Hún var eftirminnileg fyrir margar sakir og ein þeirra var að annað augað hennar var gervi og búið til úr gleri. Hún lagði sig fram við að vera heiðarleg og nærgætin og ef hún var eitthvað ósátt við fólk beið hún ávallt tækifæris til að eiga í beinum og hreinum samskiptum við það.
.„Auga í auga,“ sagði hún glottandi og ýtti glerauganu sem rann alltaf til hliðar þegar hún tyllti höfði, á réttan stað. Þegar hún heyrði okkur ungu stelpurnar vera að rexa og pexast yfir öðru fólki, slúðra og tala óvægið, hnussaði í henni, svo hátt og lengi að við fundum okkur knúnar til viðbragðs. Þegar hún sá að hnussið bar tilætlaðan árangur og athygli okkar var á henni, horfði hún brúnaþung í okkar átt, ruggaði sér í stólnum og tautaði með augljósri forundran og vanþóknun: „Ja, það er aldeilis verið að kasta kveðju á Kölska“. Mér verður oft hugsað til hennar orða þegar ég verð vitni að andfélagslegri hegðun eða nafnlausu illmælgi í rafheimum. Að vera málkunnugur djöflinum getur ekki boðað gott.
Athugasemdir