Fyrir rúmum 30 árum, nánar tiltekið 1989, stundaði ég nám við Kaupmannahafnarháskóla sem kallað var Humanistisk informatik – hugvísindaleg tölvu- og upplýsingafræði. Það er rétt að taka fram að á þessum tíma voru einkatölvur ekki almenningseign. DOS-tölvur með grænum óskýrum stöfum á svörtum grunni voru þær tölvur sem áhugasömum stóð aðgangur að. Þarna var ýmislegt kennt sem tengist samspili tölvutækni og samfélags, m.a. var áfangi um samfélög framtíðarinnar þar sem framtíðarfræðingur kenndi og fór í gegnum hugmyndir af ólíkum toga sem fræðimenn úr ýmsum áttum höfðu sett fram.
Framtíðarfræðingar eru sundurleitur hópur manna úr ólíkum greinum vísinda og fræða sem hafa valið samfélag framtíðarinnar sem viðfangsefni. Við lok níunda áratugarins höfðu margir þeirra vakið athygli fyrir hugmyndir sínar um framtíðina, t.a.m. Bandaríkjamennirnir Alvin Toffler og John Naisbitt. Einnig hafði franski stjórnmálafræðingurinn André Gorz sett fram heillandi hugmyndir um framtíðarþjóðfélagið. En skoðanir framtíðarfræðinganna á því hvað biði okkar voru ólíkar, en aukinn frítími var þó liður í þeim flestum.
Ég var mjög hrifinn, ef ekki hugfanginn, af hugmyndum André Gorz. Hann gerir upp við marxisma og frjálshyggju og allt sem liggur þar á milli í hinu pólitíska rúmi. Hann bendir á að báðar þessar stjórnmálastefnur byggist á launavinnu sem mikilvægasta athæfi einstaklingsins. Sem afleiðing af þessum viðhorfum gagnvart launavinnu merkjum við okkur sjálf og aðra eftir atvinnu en ekki að hans mati mikilvægari þáttum: Smiður kynnir sig sem smið en ekki golfspilara eða áhugamann um tölvuleiki.
Gorz bendir á að örtölvubyltingin svokallaða hafi gert atvinnurekendum kleift að framleiða meira með minni tilkostnaði og að þörfin fyrir lifandi vinnuafl fari stöðugt minnkandi. Baráttan fyrir fullri vinnu handa öllum sé byggð á misskilningi, ef ekki lygum, það sé staðreynd að framtíðin bjóði ekki upp á fulla vinnu handa öllum þegnum þjóðfélagsins og að launavinna leiki sífellt minna hlutverk í lífi og sjálfsmynd manna.
Til þess að þessi minnkaða þörf fyrir lifandi vinnuafl komi öllum til góða og tákni ekki atvinnuleysi fyrir suma og fulla vinnu fyrir aðra þarf fólk að losna undan oki launavinnunnar. Í stað þess að fá greidd laun fyrir vinnu sína eða þiggja bætur ef engin er vinnan fá þegnar í framtíðarþjóðfélagi Gorz greidd laun, eins konar borgaralaun, sama hvort þeir séu stritandi á vinnumarkaðinum eður ei – það eru borguð sömu laun fyrir að vinna og vera frá vinnu. Og að sjálfsögðu eru greidd sömu laun fyrir öll störf.
Gorz reiknaðist til að hver einstaklingur kæmi um aldamótin 2000 til með að þurfa að vinna 20.000 vinnustundir í lífi sínu og leggja þannig fram skerf sinn til atvinnulífsins. 20.000 vinnustundir samsvara 40 stunda vinnuviku í tæplega tíu ár eða 20 stunda vinnuviku í tæplega 20 ár – eða sem er öllu líklegra að fólk velji sér hálfsdagsvinnu öðru hvoru í 40 ár.
Aðrir framtíðarfræðingar voru ekki alveg eins bjartsýnir – en flestir þeirra töldu að fólk myndi losna töluvert undan ánauð launavinnu. Og það var ekki nóg með það að við að vinnuvikan myndi styttist verulega, lýðræðið fengi stórfenglega endurreisn.
„Þetta var allt svo fallegt að ég gat varla beðið eftir því að samfélögin færu að breytast.“
Hinn bandaríski Alvin Toffler bendir á að fjarlægðin milli ákvarðanatöku og þegna sé alltof löng og að hinir kosnu fulltrúar hafi litla hugmynd um margbreytilegar og ólíkar óskir kjósendanna. Hugmyndir Tofflers um hvernig skipan stjórnunar á þjóðfélaginu muni þróast grundvallast á auknum áhrifum almennings sem muni taka virkari þátt í stjórnmálum en nú á dögum, m.a. vegna aukins frítíma og þeirra möguleika sem tölvutæknin býður upp á.
Þetta var allt svo fallegt að ég gat varla beðið eftir því að samfélögin færu að breytast. Tveimur árum síðar flutti ég til Íslands með konu og barni og þar beið okkar ansi kaldur veruleiki, leigumarkaðurinn í allri sinni dýrð og skömmu síðar atvinnuleysi vegna niðurskurðar. Hugmyndir Gorz og Tofflers urðu sífellt fjarlægari. Lífið leið áfram án þess að miklar breytingar yrðu á kröfum vinnumarkaðarins til almennings. Og lýðræðið svaf værum svefni.
En 2008 áttu hamfarir sér stað í íslensku samfélagi. Það hrikti í öllum stoðum og almenningur sá í hillingum beytta þjóðfélagsmynd. Gorz og Toffler lifnuðu aftur við í huga mér og mér fannst möguleiki á að færa ýmsar hugmyndir þeirra út í lífið. Eftir frekar stutt hamfara- og átakaskeið stóðu meginstoðir samfélagsins sem og stjórnkerfið og hið pólitíska kerfi enn uppi þótt tiltrú almennings á þeim væri afar lítil. Og nokkrum árum síðar var Sjálfstæðisflokkurinn aftur farinn að stjórna landinu.
Þetta var dýr lærdómur sem sýndi fram á að til að koma fallegu hugmyndunum til framkvæmda þarf stjórnkerfið, pólitískir valdhafar og fyrirtækjaeigendur að vera með í liði. Eða verða brotnir niður með ofbeldi – sem er ekki aðlaðandi hugmynd. Kapítalisminn, stjórnkerfið og fulltrúalýðræðið stoppar breytingar af þessu tagi, breytingar sem minnka völd þeirra og draga úr ágóða. Ég hélt að mín kynslóð vildi öðruvísi og lýðræðislegra þjóðfélag, að við myndum ekki fara í sama farið og karlarnir sem stýrðu landinu þegar við vorum að móta skoðanir okkar.
„Ég hélt að mín kynslóð vildi öðruvísi og lýðræðislegra þjóðfélag, að við myndum ekki fara í sama farið og karlarnir sem stýrðu landinu þegar við vorum að móta skoðanir okkar.“
Það er eitt það ömurlegasta sem ég horfi upp á núna, kominn á sjötugsaldur, hvernig við höfum látið tækifærin til betra lífs, minni launavinnu og meira lýðræði renna úr höndum okkar og allt bendir til að hin nýja tölvubylting sem er að ryðja sér til rúms muni engu breyta í þessu. Þeir ríku verða enn ríkari og á botni samfélagsins mun áfram vera ömurleg vist með eintómum ómöguleikum. Og síðast en ekki síst: Við höfum harkalega gengið á lífríki jarðarinnar og hreinleika andrúmsloftsins og hafsins.
En á sama hátt og ég er sárlega vonsvikinn yfir framlagi minnar kynslóðar til betra þjóðfélags er ég nokkuð viss um að upp munu koma aðstæður á ný þegar hriktir í kerfinu og þá muni takast að velta úr sessi hinum ráðandi öflum. Það verður kynslóð lýðræðis og jöfnuðar sem mun þurfa að takast á við ógnir loftslagsbreytinga sem einkaþotuliðið hefur sýnt fram á að það ræður ekki við. Framtíðin er í senn björt og myrk því það kallar á umbreytingar um allan heim til að geta lifað af þær breytingar á náttúrunni sem þegar eru farnar að bíta okkur illilega hér og þar. En ég trúi því að komandi kynslóðir muni umbreyta samfélaginu í baráttu fyrir áframhaldandi lífi á jörðinni.
Athugasemdir