Stærsti forleggjari landsins er sænska tæknifyrirtækið Storytel. Storytel var stofnað 2006. Vara fyrirtækisins er app sem fólk kaupir áskrift að fyrir einhverja þúsundkalla á mánuði, með aðgang að appinu fá áskrifendur aðgang að þúsundum hljóðbóka og hlaðvarpa.
Þegar þú opnar appið er eins og heimurinn opnist, eins og þegar maður loggaði sig fyrst inn á Netflix. Þarna er hafsjór bóka, svo gott sem öll menningararfleifð okkar Íslendinga í litla símanum mínum. Sama síma og ég nota til þess að gúggla: „how long egg boil“.
Tæknin er ótrúleg. Árið 2016 keypti Storytel stærsta forlag Svíþjóðar. Árið 2020 keypti Storytel næstum því Forlagið, stærsta forlag Íslands, fallið var frá kaupunum en svo gott sem allur katalógur Forlagsins er kominn eða á leiðinni í appið þeirra.
Bækur eru langar og það tekur langan tíma að skrifa bók. Það er líka mikil vinna, ég veit það af því að ég hef gefist upp á að skrifa bækur, alveg fullt af þeim. Storytel borgar fyrir hverja hlustun. Ég veit um höfund sem fær borgaðar sirka 32 krónur fyrir hverja hlustun á bók. Sú bók er tæpar 200 blaðsíður, samkvæmt google má reikna með að bókin sé á milli 40 þúsund og 50 þúsund orð. Ef hún er 40 þúsund orð borgar Storytel 0.00008 krónur fyrir hvert orð en samkvæmt ársreikningi félagsins skilaði það um 80 milljóna króna hagnaði árið 2021.
„Þannig drepum við sögur, þannig drepum við orð.“
Þarna búa flest orða okkar, flestar sögur okkar. Flestar þeirra hanga þarna inni eins og skrautmunir, vitnisburður um mátt félagsins. Þarna búa orðin okkar, sögurnar okkar. Og þetta er verðmiðinn, 0.00008 krónur, þakka ykkur fyrir. Þarna búa sögurnar okkar, hanga þarna sem auglýsingaefni, passívt viðfang, hávaði í dagsins amstri. Þannig drepum við sögur, þannig drepum við orð. Við sýnum höfundum vanvirðingu og hugsum skáldskap í útgáfurétti og tölum á ársreikningi en ekki listaverk.
Þannig drabbast þetta allt niður.
Athugasemdir