Það er kominn tími til að horfast í augu við raunveruleikann. Reykvíkingar þurfa einfaldlega að bregða búi. Það er ekki boðlegt að halda svona áfram. Veðurfræðingamafían sem öllu ræður hefur ár eftir ár teymt íslensku þjóðina á asnaeyrunum með samanteknum múgsefjunartilburðum: „Þetta er bara rétt handan við hornið, bara ein lægð í viðbót og svo kemur Bongólfur frændi í heimsókn og kyssir þjóðina.“ Nema Bongólfur, líkt og veðurfræðingarnir, er lygari og svikari. Eina undantekningin er Austurland sem hlær að okkur. Þau eiga nú þegar stærsta skóginn, fallegasta gljúfrið, besta fljótið og flottasta álverið. Hafa þau ekki fengið nóg?
Það eru alltaf einhverjar bísperrtar prímalofttýpur sem hlæja stórkarlalega og segja að þetta hafi alltaf verið svona, það séum bara við sem séum orðin svo viðkvæm og veikgeðja. Við þessa pólýester-utanvegahlaupabuxnamenn vil ég bara segja að nákvæmar rannsóknir vísindamanna á borholukjörnum úr Grænlandsjökli hafa leitt í ljós að það var algjörlega brakandi bongó hérna þegar Ingólfur Arnarson spígsporaði um suðvesturhornið. Allt gróið frá fjöru til fjalla og krökkt af gæfum geirfuglum og vinalegum lundum. Síðan þá hefur hin heilaga íslenska sauðkind farið eins og sláttuvél yfir allan gróður, síðustu geirfuglarnir myrtir fyrir einhvern vanþakklátan Dana og núna eru meira að segja lundarnir farnir að falla af himnum eins og Max 8-þotur. Úrkomuákefðin er orðin svo mikil að það hefur þurft að drena húsið mitt tvisvar og börnin mín eru orðin sérfræðingar í að hoppa á trampólíni svo dúðuð að úr fjarlægð líta þau út eins og tveir litlir Halldórar Ásgrímssynir í selskinnsjakkanum að blakta í vindinum.
Það sem ég er að segja er að ég lái Ásgeiri seðlabankastjóra ekki að hafa bara troðið sér í hvítu hörjakkafötin og panamahattinn strax eftir síðustu stýrivaxtahækkun og brunað beint upp í Saga loungið með ekkert nema fjóra lítra af 30sfp Bana boat í töskunni. Það er ekki hægt að eyða heilu íslensku sumri í hvelfingum Seðlabankans að baða sig í gjaldeyrisforðanum eins og Jóakim Aðalönd, jafnvel þó að það sé nýbúið að eyða þremur milljörðum í að gera húsæði bankans upp. Hver getur láð Kviku banka að halda árshátíðina sína í Króatíu, Toyota-umboðið í Kaupmannahöfn, Öryggismiðstöðin í Berlín? Það eiga allir rétt á að komast héðan, þótt það sé ekki nema eina helgi.
Í grunninn er ég ekki heldur mótfallinn lögbundnum launahækkunum hjá ráðamönnum þjóðarinnar sem virðist hafa birst þeim alveg að óvörum. Ég styð allar launahækkanir. Ég vona að þau kaupi sér garðsláttuvélmenni eða slökkviliðsmannasúlu í húsið sitt eða veiði fólk sér til skemmtunar eða hvað það svo sem er sem fólk með allt of háar ráðstöfunartekjur eyðir peningunum sínum í.
Það sem angrar mig er grímulaus, eða í besta falli hlægilega ómeðvituð hræsni. Í marga mánuði hafa yfirvöld, Seðlabankinn og ýmis lobbíistasamtök atvinnulífsins barið á íslensku þjóðinni með sömu talpunktunum; verðbólgan er þér að kenna. Hún er þér að kenna fyrir að vilja eignast þak yfir höfuðið, hún er þér að kenna fyrir að kaupa í matinn, taka lán á ömurlegum kjörum, voga þér að biðja um laun sem endurspegla efnahagslegan veruleika þjóðarinnar. Það er beðið um þjóðarsátt. Þjóðarsátt um að taka þetta á okkur. Efnahagsstjórnin er svo bara að sitja og pota í Ásgeir með priki þangað til hann hækkar vextina enn einu sinni og klórar sér svo í hausnum yfir því af hverju verðbólgan heldur áfram að aukast og einkaneyslan heldur áfram að aukast og draga svo þá ályktun að við séum einfaldlega ekki að verða fátæk nógu hratt. Það er alveg stórundarlegt að fólk þurfi að borga enn hærra verð fyrir íbúðir á fullkomlega stjórnlausum leigumarkaði. Fólk er bara enn að kaupa allt of dýra matvöru og nauðsynjavörur og sumir leyfa sér meira að segja að horfa á sjónvarpið eða keyra bíl eða, guð forði okkur, fara í sumarfrí. Næsta stýrivaxtahækkun hlýtur að ná þessu sturlaða fólki niður á jörðina.
„Hættið að láta eins og örlög hagkerfisins standi og falli með því hvort skúringafólk fari í Costco tvisvar í mánuði. Ef þið hættið þessu ekki, þá étum við ykkur.“
Það er næstum eins og umframeinkaneysla sé ekki drifin áfram af venjulegu fólki sem vaxtahækkanir hafa neikvæð áhrif á. Það er næstum eins og verðbólgan sé ekki keyrð upp af venjulegu launafólki og verkafólki sem margt hvert var neytt til að semja af sér í síðustu kjarasamningalotu í nafni góðs vilja. Það er næstum eins og risarnir í atvinnulífinu og á húsnæðismarkaði hafi nýtt sér algjört getuleysi stjórnvalda og þeirrar orðræðu til að viðhalda eigin framlegð, eigin hagnaði til þess að skrúfa verð á öllu eins langt upp og hægt er að komast upp með án þess að þurfa að taka neina ábyrgð á ástandinu. Það eina sem maður fær frá stjórnvöldum þegar þau eru spurð hvort atvinnulífið sé að nýta sér ástandið er: „Púff, ég vona ekki, það væri glatað.“
Á sama tíma og það er einhver tantrísk mantra hjá yfirvöldum að það þurfi að kæla hagkerfið er innviðaráðherra búinn að teikna upp 14 ný jarðgöng eins og einhver stjórnlaus moldvarpa. Ég vona líka að einhver sé búinn að benda þessum 2.200.000 ferðamönnum sem áætlað er að komi til landsins í ár á að við séum að reyna að kæla hagkerfið hérna. Ætli flugþjónarnir þurfi ekki að taka það á sig að mæta í kallkerfið í morgunfluginu frá Denver til að benda fólki á að hér ríki þjóðarsátt og að þau eigi vinsamlegast að huga að því að eyða ekki of miklu í bílaleigubíla, gistingu og ljótar dúskhúfur.
Það er eins og stjórnmálafólk sé búið að gleyma því að optík skiptir líka máli. Að til þess að viðhalda þessari ímynduðu þjóðarsátt þurfi það í það minnsta að líta út eins og það sé örlítill þátttakandi í þeirri fórn sem verið er að neyða okkur til að færa. En kannski er þeim bara alveg sama. Við erum á miðju kjörtímabili með ríkisstjórn sem virðist frekar ætla að verða að engu í skoðanakönnunum frekar en að springa. Kannski hefur linnulaus óánægja fólks forhert þau svo gríðarlega að þetta er bara enn einn dropinn í fötuna sem aldrei virðist fyllast. Völd eru vímuefni; ekki bara þannig að fólk verði háð þeim, heldur verður það með tímanum ónæmt fyrir áhrifum þeirra. Þú upplifir nógu mörg mótmæli, nógu margar kosningar, miðlar málum nógu oft og þetta hlýtur allt að byrja að renna saman. Á meðan starir þjóðin bara á Alþingi í veikri von um að það stígi inn í þessar aðstæður og geri eitthvað, bara eitthvað, en það liggur bara þarna eins og þunglynd górilla í vanfjármögnuðum dýragarði. Ég efast ekki um að á einhvern hátt vilji þetta fólk þjóðinni vel, en á sama tíma held ég að þau viti ekki lengur almennilega hvað það merkir. Þau eru ekki tengd okkur lengur. Það er rof. Þau eru búin að missa klefann.
Þannig endilega njótið þið launahækkana ykkar. Fariði í sólarlandaferðirnar ykkar. En ekki þá voga ykkur að segja venjulegu fólki að skammast sín fyrir tásumyndir frá Tene. Hafið sómakennd til að hætta að pressa á stéttarfélög að sækja ekki eðlilegar launahækkanir. Hættið að láta eins og örlög hagkerfisins standi og falli með því hvort skúringafólk fari í Costco tvisvar í mánuði. Ef þið hættið þessu ekki, þá étum við ykkur.
Athugasemdir