Það er gott að eldast og njóta þess sem lærst hefur á lífsleiðinni. Lífsreynslan, sem við vinnum úr, safnast saman í reynslubanka sem seint verður gjaldþrota. Ég er stoltur félagsráðgjafi sem hef margoft stutt fólk til að breyta því sem truflar líf þeirra. En á síðustu árum hef ég unnið með ungu fólki sem hefur fengið alveg nóg af öllum þeim sérfræðingum sem hafa komið inn í líf þess, þar á meðal félagsráðgjöfum.
Unga fólkið hefur hætt í skóla, verið lengi atvinnulaust, glímt við geðrænar áskoranir og nánast enginn í samfélaginu hefur gert til þeirra kröfur. Það upplifir sig einskis nýtt og er sérstaklega meðvitað um það sem er að hjá því. Það hafa svo ótalmargir bent á veikleika þess og viljað grípa inn í með margvíslegum aðferðum og aðgerðum.
Fall á samræmdu prófunum
Reynslubanki minn er sem betur fer ekki bara glæstur árangur í lífi og starfi. Á unglingsárum missti ég tökin á sjálfri mér og eftir stormasama vetur í grunnskólanum á Blönduósi var ég rekin úr skóla, rétt fyrir samræmdu prófin. Fyrir tilstuðlan uppáhaldskennarans míns var ég þó tekin aftur inn í nemendahópinn og tók prófin. Einkunnirnar voru í samræmi við hegðun mína í skólanum, ég hafði lítið sem ekkert lært.
Eftir háskólapróf í uppeldisfræði og félagsráðgjöf áttaði ég mig á því að ég féll ekki vegna eigin hegðunar, heldur höfðu styrkleikar mínir ekki verið metnir. Hefði til að mynda verið mælt hver væri umhyggjusamur við ömmur sínar og afa, hefði ég eflaust orðið dúx og eins ef prófað hefði verið úr bókinni góðu, Unga stúlkan og eldhússtörfin. Grunnskólagöngunni lauk ég sem tapari og var í því hlutverki í nokkur ár, eða þar til ég fann sjálfa mig í Fjölbraut í Breiðholti, það var og er skóli fyrir alls konar nemendur.
Valdefling
Lærimæður mínar í félagsráðgjöf voru róttækar konur sem komu á samfélagsbreytingum. Þær hvöttu okkur nemendur sína til að samþykkja ekki það samfélag sem útilokar fólk frá því lífi sem sama samfélag telur virðingarvert. Lærimæður mínar þekktu rætur félagsráðgjafar, sem er að vinna með jaðarsettu fólki og mæta því þar sem það er statt.
Í dag heitir þetta valdefling og flestir vilja veita þeim sem þeir vinna með vald í eigin lífi. En þegar einstaklingar fá lítil sem engin tækifæri í lífinu og enginn ætlast til þátttöku þeirra í samfélaginu er lítið vald í þeim aðstæðum. Að fela fólki ábyrgð á eigin lífi er hins vegar valdefling, við gerum kröfur í samræmi við getu og ekki hef ég hitt fyrir þann sem ekki hefur talsvert að gefa.
„Að fela fólki ábyrgð á eigin lífi er valdefling“
Lífsreynslan áhrifaríkust
Samstarfsmaður minn í Tækifærinu, starfsþjálfun sem felst í fræðslu, félagslegri hópþjálfun og starfsþjálfun, Jón Eyþór Helgason, er með sveinspróf í rafvirkjun og meistarapróf í lífsreynslu. Reynsla hans úr lífinu nýtist frábærlega þegar unnið er með þeim sem upplifa sig sem tapara, en vilja engu að síður breyta lífi sínu til batnaðar. Sá sem hefur, með stuðningi jafningja í sjálfshjálparsamtökum, tekist á við líf sitt einn dag í einu, hefur miklu að deila sem máli skiptir. En fagþekking hans í rafvirkjun er líka ómetanleg þar sem hann kann til góðra verka.
Einn af fyrstu þátttakendum Tækifærisins hefur eftir útskrift vorið 2022 unnið í hlutastarfi sem jafningjaráðgjafi. Slíkir ráðgjafar eru að hasla sér völl í geðheilbrigðisþjónustu og víðar enda hefur reynslan af jafningjastuðningi margsannað sig. Þetta breytir líka verklagi okkar sérfræðinganna sem þurfum að nýta eigin lífsreynslu til að hlusta betur og mæta fólki á þeirra forsendum. Lífsreynsla mín frá unglingsárum er klárlega styrkur í starfi í dag sem og fagþekking í að vinna með fólki – ekki fyrir það. Þannig geta erfiðleikatímabil orðið til góðs ef við horfumst í augu við okkur sjálf og lærum af mistökum okkar.
Manneskjurófið
Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um manneskjurófið sem við erum öll á. Þá var mér í mun að minna á það sem sameinar okkur frekar en að horfa til þeirra eiginleika sem gera okkur sérstök og í sumum tilfellum greina okkur hvert frá öðru. Sjúkdómsgreiningar eru nauðsyn til að beita réttri meðferð, en þegar þær eru notaðar, án þess að bjóða upp á „lækningu“, þá hafa þær neikvæð áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins.
Greiningar geta þó fengið fólk til að sættast við sjálft sig þar sem skýring er fengin á hegðun, atferli og líðan sem sá sami er ekki sáttur við. Hver sem röskun okkar er, þá breytir það ekki því, að við þurfum að bera ábyrgð á eigin gerðum og nýta þá styrkleika sem við höfum til að gefa til samfélagsins. Lítið hefur þó borið á styrkleikagreiningum, sem eru svo sannarlega til og hafa gefið góða raun. Þess vegna hefur margt ungt fólk gefist upp, fest í vítahring óvirkni og finnst það einkis nýtt.
„Vinnum með hvert öðru en ekki með hvert annað.“
Nýtum hvert annað til að byggja okkur upp og horfum á getu hvert annars og gerum kröfur til allra í samræmi við getu hvers og eins. Vinnum með hvert öðru en ekki með hvert annað. Þannig blómstrar umburðarlyndi okkar í garð hvert annars og þar með virðing og kærleikur.
Athugasemdir