Talsmenn atvinnurekenda, Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar virðast nú hafa sameinast um að kenna launahækkunum um núverandi verðbólgu. Það er ekki bara hlutdræg afstaða heldur alveg á skjön við staðreyndir.
Verðbólgan sem blossað hefur upp frá 2021 á sér fleiri en eina orsök. Í fyrstu var sökinni skellt á truflanir í aðfangakeðjum heimshagkerfisins vegna Kóvid faraldursins og síðan bættust við áhrif af innrásinni í Úkraínu á verð matvæla og olíu/bensíns á heimsmarkaði. Þetta var þannig í fyrstu að mestu leyti innflutt verðbólga.
Eftir kjarasamningana síðasta vetur sem lögðu línu fyrir nokkra kaupmáttarrýrnun á samningstímanum fagnaði seðlabankastjóri í fyrstu og talaði um góð áhrif og gaf von um lækkandi verðbólgu og lækkandi stýrivexti í framhaldinu.
En lækkun verðbólgu lét á sér standa, þrátt fyrir að verðhækkanir vegna innrásarinnar í Úkraínu gengju til baka á heimsmarkaði. Þá blasti við að fyrirtækin hér heima voru ekki að skila lækkunum mikilvægra vara á heimsmarkaði inn í verðlagið á Íslandi. Þau hækkuðu frekar verðlag umfram kostnaðarhækkanir, einnig á innlendri framleiðslu, og juku þannig hagnað sinn. Seðlabankinn og stjórnvöld hafa einnig lagt sitt af mörkum til að auka verðbólguþrýsting, bankinn með hækkun fjármagnskostnaðar fyrirtækja og stjórnvöld með hækkun notendagjalda um sl. áramót.
Í stað þess að beina sjónum að fyrirtækjunum, megin sökudólgunum núna, er allt í einu farið að tala um að laun hafi hækkað of mikið og verðbólgan sé fyrst og fremst af þeim sökum, þ.e. launadrifin.
Almennt er gagnlegt að líta á verðbólgu sem birtingarmynd stéttaátaka um skiptingu þjóðarframleiðslunnar, milli launafólks og fyrirtækja- og fjármagnseigenda.* Þar erum við stödd núna.
Því er tímabært að spyrja hvort hlutur launafólks eða hlutur fyrirtækjanna af þjóðarkökunni hafi verið að aukast í yfirstandandi verðbólgubylgju? Og hvað segja staðreyndirnar?
Ef of mikil kaupmáttaraukning launa hefði verið í hagkerfinu á þessum tíma sem verðbólgan hefur verið að blossa upp þá hefði það átt að koma fram í því að hlutur launafólks af verðmætasköpuninni í landinu hefði aukist og hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda hefði þá átt að vera að minnka. En þróunin hefur verið algerlega á hinn veginn.
Í aðdraganda þess að verðbólgan fór á skrið (2018-2020) og svo alveg til dagsins í dag hefur hlutur launafólks af verðmætasköpuninni verið að minnka umtalsvert og hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda að aukast. Það segir okkur að verðbólgan er fyrst og fremst hagnaðardrifin en ekki launadrifin.
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, þ.e. á skyggða svæðinu hægra megin. Brotalínan sýnir verðbólguna, en lituðu línurnar hlut launafólks annars vegar og hlut fyrirtækja- og fjármagnseigenda hins vegar. Samhengið þarna á milli skýrir vægi hvors þáttar í verðbólguferlinum núna.
Hlutur launafólks var kominn úr 64% árið 2018 niður í 59% af verðmætasköpuninni í fyrra og fer væntanlega niður í 57% á yfirstandandi ári. Langtímameðaltal á hlut launafólks er 62% (1973 til 2022). Staða launafólks í heild er því orðin óviðunandi lág nú. Launafólk hefur verið að gefa eftir. Hlutur fyrirtækja- og fjármagnseigenda jókst á sama tíma úr 36% og upp í um 43% á þessu ári og búa fyrirtækin nú almennt við methagnað.
Það er sem sagt beint samband milli aukins hlutar fyrirtækja af þjóðarkökunni og aukinnar verðbólgu, en neikvætt samband milli hlutar launafólks og verðbólgu.
Láglaunafólk fékk mestu kaupmáttaraukninguna út úr Lífskjarasamningnum 2019-2022 vegna hinna flötu krónutöluhækkana sem þar var beitt, en aukning heildar launakostnaðar fyrirtækja varð samt hófleg, því hlutfallsleg hækkun meðal og hærri launa var lægri en hjá láglaunafólki. Raunar var launahækkunin þó almennt of lítil miðað við góðan gang í verðmætasköpuninni. Það sýnir myndin á skýran hátt.
Þó Seðlabankinn birti tölur um að laun hafi hækkað hlutfallslega meira hér en í grannríkjunum þá er það eðlilegt, vegna þess að verðmætasköpunin hefur verið meiri hér og verðlag hærra. Ef áfram verður hlustað á áróður atvinnurekenda og hagfræðinganna í Seðlabankanum þá mun hlutur launafólks af verðmætasköpuninni minnka enn frekar. Verkalýðshreyfingin þarf því að lágmarki að halda sínu striki frá Lífskjarasamningnum.
Niðurstaðan er augljós. Verðbólgan nú er fyrst og fremst hagnaðardrifin en ekki launadrifin. Það eru því stjórnendur fyrirtækja sem eru sökudólgarnir en ekki verkalýðshreyfingin!
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.
----------------------
* Sjá ítarlega umfjöllun um þetta sjónarhorn og gögn því til stuðnings í bókinni „Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags" (kafla 5), sem kom út hjá Háskólaútgáfunni fyrir jól.
Athugasemdir (1)