Lög um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja tóku gildi fyrir tíu árum síðan. Í úttekt sem Heimildin hefur gert árlega á þeim áratug sem liðinn er frá þeim tímamótum kemur fram að hlutfall kvenna sem stýra fjármagni á Íslandi hefur farið úr því að vera sjö prósent í að vera 14,7 prósent. Af 115 störfum sem úttektin nær til gegna konur 17 en karlar 98. Hægt er að lesa um þá úttekt hér til hliðar.
Í desember 2022 birtust niðurstöður nýrrar rannsóknar á reynslu 22 stjórnarkvenna í skráðum félögum af forystuhæfni, tengslaneti og stuðningi við konur til að gegna forstjórastöðu í grein í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál. Rannsóknin var unnin af fjórum konum sem starfa við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, þeim Ástu Dís Óladóttur dósent, Sigrúnu Gunnarsdóttur prófessor, Þóru H. Christiansen aðjúnkt og Erlu S. Kristjánsdóttur prófessor.
Helstu niðurstöður þeirra voru að konur séu hæfar til að gegna forstjórastöðum í skráðum félögum, en þegar kemur til ráðninga forstjóra skráðra félaga eru þær þó ekki ráðnar til starfanna þar sem áhrif karla, tengslanet og íhaldssamar staðalímyndir af forystuhæfni kvenna og árangursríkri forystu virðast ráða ákvörðunum. Þar með aukast líkur á því að horft sé fram hjá hæfum konum við forstjóraval.
Rannsóknin fór þannig fram að notast var við ítarspurningar til að fá greinargóðar lýsingar og reynslusögur um upplifun og reynslu kvennanna 22. Viðtölin fóru fram 15. júní til 6. júlí 2020, í gegnum Microsoft Teams, tóku 60 til 130 mínútur, voru hljóðrituð, rituð frá orði til orðs, geymd í læstum tölvum rannsakenda og eytt að úrvinnslu lokinni. Viðmælendum voru gefin gervinöfn til að tryggja nafnleynd þeirra.
Í svörum kvennanna er meðal annars rætt um persónuleg tengsl milli karla, sem virðast hafa meiri áhrif en fagleg umræða: Ein þeirra sagði: „Ég átti von á miklu faglegri umræðu og svoleiðis en þetta er svolítið svona íslenska leiðin, þú vilt kunna vel við fólk, helst þekkja það eða þekkja vel til þess áður en þú tekur svona ákvarðanir. … þá eiga karlarnir, virðist vera, meiri sjéns því að þeir eru oftast í meirihluta í stjórnunum og þeir eru með reynslu sem konurnar eru ekki með og þeir eru með tengsl við hina karlana. ... þá ertu svolítið búin að taka þetta úr svona einhverju faglegu ferli yfir í bara, ég þekki hann og hann er rosa fínn.“
Konurnar töluðu líka um mun á áherslum karla og kvenna í sambandi við tengslamyndun og ein þeirra sagði að áherslur karla henti ekki alltaf konum: „Strákarnir eru rosa öflugir í því en við erum það ekki, við nennum ekkert að fara alltaf í bjór eftir vinnu … við viljum bara frekar fara heim til barnanna okkar.“
Önnur talaði líka um þennan mun á áherslum sem hún taldi að gæti tengst gildismati: „Ég held að konur til dæmis eru ekki stundum nógu duglegar að … búa til tengslanetin … við erum að nýta bara tímann í annað. Og svo má líka alveg velta fyrir sér … er ekki bara hins vegar kominn tími á annað gildismat yfirhöfuð? Þarna erum við að reyna að aðlaga konur að gildismati karla. Er það endilega svo frábært að við þurfum að aðlaga okkur að því?“
Á meðal eftirtektarverðustu ummælum viðmælanda voru svo eftirfarandi: „Karlmenn eru sekir um það að þeim líður voða vel að hringja í einhvern Sigga vin sinn, því að þeir treysta honum og þeir skilja hvernig hann hugsar og finnst hann svo voða útreiknanlegur og svo fá þeir klapp á bakið frá hinum félögunum … þú veist svona við Pallarnir stöndum saman … því fleiri skipti sem þú getur greitt götu vina þinna, því stærri karl ertu.“
Athugasemdir