„Þó að mistök hafi verið gerð þá þýðir ekki að gefast upp núna,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar er hún spurði forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur hvað ríkisstjórnin hyggst gera vegna verðbólgu og yfirvofandi stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands á morgun.
Hafnar mistökum
Samkvæmt formanni Samfylkingarinnar er enn tími til þess að grípa til aðgerða sem gætu aukið stöðugleika og styrkt stöðu heimilanna áður en að Alþingi fer í sumarfrí eftir þrjár vikur. Þá spurði Kristrún sérstaklega um leigubremsu og vaxtabætur.
„Að sjálfsögðu eru stór mál undir sem er verið að ræða og kannski eitt af þeim stærstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem svo sannarlega eru boðaðar aðgerðir, bæði á tekju- og gjaldahlið, til að slá á þenslu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og hafnaði því að mistök hafi verið gerð af hálfu ríkisstjórnar.
Forsætisráðherra var sammála formanni Samfylkingarinnar um að verðbólgu þyrfti að lækka. Hins vegar minnti hún á aðgerðir ríkisstjórnar í heimsfaraldrinum COVID-19 sem skiluðu auknum kaupmætti meðal almennings og á lífskjarasamning frá 2019. „Þar voru ótal breytingar boðaðar og staðið við, hvort sem það var breyting á skattkerfinu og upptaka þrepaskipts skattkerfis, skattalækkun fyrir tekjulægstu hópana, uppbygging á húsnæðismarkaði, lenging fæðingarorlofs eða efling barnabótakerfisins.“
Kristrún hjó eftir skýrara svari og sagði þá forsætisráðherra fjármálaætlun vera til meðferðar á Alþingi og bætti við: „Við hækkuðum hér skerðingarmörk vaxtabóta um 50% um áramótin og hækkuðum húsnæðisstuðning“. Ráðherra sagði verkalýðshreyfinguna vera í hópi með innviðaráðherra sem væri að skoða „hvernig mætti skapa betri ramma um leigumarkað“.
„Sjaldan gengið betur“
Í fyrirspurn sinni til fjármálaráðherra spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar um verðbólguna. „Við erum að sjá að Seðlabanki Íslands hefur ítrekað sagt að það sé ófært að hann einn beri byrðarnar af því að berjast við verðbólguna.“ Í framhaldi spurði formaður Viðreisnar um stöðu frumvarps „[...]sem á að liðka fyrir og auka heimildir til ríkissáttasemjara[...].“
Fjármálaráðherra nefndi þá að atvinnuþátttaka hefði aukist en það var eitt af stærri markmiðum efnahagsstefnu ríkisins og brýndi ráðherra fyrir mikilvægi umbóta á ramma vinnumarkaðslöggjöf. Einnig sagði Bjarni að það hefði „sjaldan gengið betur“ að auka efnahagslega velsæld þjóðarinnar en þó vantar upp á stöðugleika.
Þorgerður Katrín gagnrýndi núverandi ríkisstjórn fyrir ákvarðanaleysi er kemur að málum sem hafa mikla vigt í samfélaginu. „[...] Ungt fólk, lágtekju- og millitekjufólk þarf að taka erfiðu samtölin heima í eldhúsi um það hvernig eigi að brúa bilið því það kemur ekkert frá ríkisstjórninni.“
„Ungt fólk, lágtekju- og millitekjufólk þarf að taka erfiðu samtölin heima í eldhúsi um það hvernig eigi að brúa bilið því það kemur ekkert frá ríkisstjórninni.“
Bjarni svaraði gagnrýninni og benti á mikilvægi þess að kæla hagkerfið sökum of mikillar þenslu. „Það er fullt atvinnustig. Kaupmáttur er mjög hár, hann er hærri en víðast annars staðar. Kaupmáttur lægstu launa er líka hár á Íslandi. En þessu er ógnað af verðbólgunni og verðbólguhorfum.“
Fjármálaráðherra telur vert að hafa áhyggjur af þeim heimilum sem eiga erfitt vegna greiðslubyrðar. „En við getum samt ekki horft fram hjá því á sama tíma að þrátt fyrir allt þá hafa verið hér neikvæðir raunvextir. Eignaverð hefur verið að hækka og lánin hafa borið neikvæða raunvexti sem er merkileg staðreynd. Og þegar reikningur heimilisins er gerður upp í heild sinni þá er staðan ekki jafn svört og ætla mætti af umræðunni.“
Seðlabankinn að fórna heimilunum
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokk fólksins telur líklegt að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti að minnsta kosti um eitt prósentustig í fyrramálið. Hún lét hörð orð falla í garð Seðlabankastjóra, gagnrýndi völd Peningastefnunefndar og taldi bankann fórna heimilum landsins vegna „eigin mistaka“.
„Það nær hreinlega ekki nokkurri átt að þrjár manneskjur í Seðlabankanum hafi meiri völd en ríkisstjórnin, alþingismenn, sveitarstjórnir og verkalýðshreyfingin samanlagt. Að kjörnir fulltrúar landsins hafi minni áhrif á fjárhag heimilanna en örfáir einstaklingar uppi í Seðlabanka.“
Spurði Ásthildur Lóa þá fjármálaráðherra: „Ætla fjármálaráðherra og ríkisstjórnin að standa áfram á hliðarlínunni á meðan þrír nefndarmenn peningastefnunefndarinnar leiða þúsundir heimila og fyrirtækja í glötun? Er einhver von til þess að hann og þessi ríkisstjórn axli einhvern tímann ábyrgð sína gagnvart heimilum landsins sem kjörnir fulltrúar eða eruð þið bara búin að gefa þetta eftir?“
„Er einhver von til þess að hann og þessi ríkisstjórn axli einhvern tímann ábyrgð sína gagnvart heimilum landsins sem kjörnir fulltrúar eða eruð þið bara búin að gefa þetta eftir?“
Bjarni svaraði fyrirspurninni á þá leið að ríkisstjórnin væri ekki búin að gefa neitt eftir. „Við höfum sagt frá upphafi að okkar aðgerðir myndu annars vegar snúast um það að nýta ríkisfjármálin til að styðja við lægri verðbólgu og hins vegar að grípa til aðgerða til að verja stöðu þeirra sem eru viðkvæmastir fyrir verðbólguhækkun. Um það vitna aðgerðir okkar um síðastliðin áramót og nú höfum við boðað að á þessu þingi verði lögð til breyting á almannatryggingakerfinu til þess að hækka bætur í takt við verðhækkanir sem eru umfram forsendur fjárlaga.“
Sjálstæður seðlabanki
Um stöðu Seðlabankans sagði Bjarni: „Hér á þinginu hefur verið samstaða um að reka sjálfstæðan seðlabanka, hafa hér sjálfstæða peningastefnunefnd og fela Seðlabankanum það verkefni að vernda verðgildi peninganna og að stefnt skuli að því að verðbólga í landinu sé að jafnaði í kringum 2,5%, og að færa þurfi fram sérstaka greinargerð ef verðbólgan fer út fyrir vikmörk sem eru þá 4%. Þetta er það grundvallarkerfi sem við erum með.“
Ásthildur Lóa hélt gagnrýni sinni áfram og sagði meðal annars: „Ríkisstjórnin og peningastefnunefnd Seðlabankans bera fulla ábyrgð á þeim hörmungum sem brátt dynja yfir tugþúsundir heimila. Hversu langt ætlar ríkisstjórnin að leyfa þessu að ganga áður en hún grípur í taumana?“.
Bjarni ítrekaði mikilvægi Seðlabankans og þau stjórntæki sem hann hefur gegn verðbólgunni. „Ef það er verðbólga hér á landi, stöðug, og verðbólguhorfur eru slæmar mun það að sjálfsögðu bitna á heimilunum, fyrst á þeim sem hafa minnst milli handanna. Að sjálfsögðu mun það brjótast út í kjörum húsnæðislána og í öllum vaxtakjörum á markaðnum. Hækkanir Seðlabankans eru til þess að slá á væntingar um það hversu lengi þetta tímabil mun vara. En þetta er grundvallarumræða um það hvort við eigum yfir höfuð að láta Seðlabankann hafa vaxtaákvörðunartækið.“
Athugasemdir