Ég á stráka. Segi stundum að ég hafi sérhæft mig í strákum.
Ég á þrjá yndislega drengi sem eru eins ólíkir og bræður geta verið en eiga það sameiginlegt að vera tápmiklir, skapandi, greindir og ljúfir.
Synir mínir eiga það jafnframt sameiginlegt að hafa fengið þau skilaboð frá skólakerfinu að þeirra styrkleikar séu í raun veikleikar. Að félagslyndi þeirra sé getuleysi til að hafa kyrrð í tímum, að sköpunargleði þeirra sé óvönduð umgengni við stílabækur og að tápsemi þeirra sé getuleysi til að sitja lengi kyrr í tíma.
Bannað að teikna í stílabækurnar
Vandinn hefur með misjöfnum hætti byrjað þegar faðmur fyrsta skólastigsins er yfirgefinn og alvara lífsins tekur við í 1. bekk. Fyrst um sinn, þegar ég sem ungt foreldri sat fundi með kennurum þar sem drengir mínir fengu þessi ofangreindu skilaboð, tók ég þátt. Ég sýndi vandanum skilning, fór á uppeldisnámskeið að ráðleggingum skólans og tók undir í því að segja við drengina að þeir ættu að hafa hljótt, teikna ekki í stílabækurnar og sitja kyrrir.
„Skömmu síðan kom í ljós að bitfarið var ímyndað og að vampíra hafði ráðist á drenginn.“
Uppákomurnar voru margar skemmtilegar. Eitt sinn í miðju Hobbitafárinu mættu tveir bræður heim berfættir með loðnar tær en þá höfðu þeir komist í skæri og UHU lím og löbbuðu heim úr skólanum eins og Hobbitar. Það var ekki hægt að skamma þá, þó það stórsæi á hárinu. Önnur eftirminnileg uppákoma var þegar skólahjúkrunarfræðingurinn hringdi til að tilkynna að sonur okkar hafi verið bitinn á skólalóðinni. Skömmu síðar kom í ljós að bitfarið var ímyndað og að vampíra hafði ráðist á drenginn.
Neitaði að fara upp úr sundlauginni
Drengir mínir hafa allir upplifað gæði og skjól á þeim frístundaheimilum sem þeir sóttu, þar er unnið faglegt starf sem oft fær ekki nægilega viðurkenningu. Í lok 2. bekkjar urðu vatnaskil í samskiptum okkar við skólann og á afstöðu minni í garð þess hlutverks sem ég hef sem foreldri drengs í grunnskóla.
Atvikið var í raun einfalt. Sonur minn hafði notið þess svo mjög að vera í skólasundi að hann vildi ekki koma upp úr. Því meira sem hann var rekinn upp úr, því meira forhertist hann í leik sínum og á endanum stóð hópur fullorðinna starfsmanna á bakkanum að hrópa á drenginn á meðan eldri bekkur beið í klefanum að komast ofan í. Skólastjórinn hringdi í mig og ég kom úr vinnu, hentist ofan í laugina með símann í vasanum, tók drenginn upp úr og fór með hann heim að þurrka barn, föður og síma.
Styrkleikar sagðir veikleikar
Mentor-færslunum fjölgaði og nefndu aldrei þá fjölmörgu kosti sem drengur okkar býr yfir, einungis það sem skólinn vildi breyta í hans fari. Ég naut aðstoðar sálfræðings, tómstundafræðings frá Þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar og frá stjórn og starfsfólki ADHD-samtakanna í samskiptum við skólann, en allt kom fyrir ekki. Þegar útséð var um að sonur minn fengi þann skilning og stuðning sem hann þurfti, tókum við þá ákvörðun að flytja drenginn í annan skóla.
Í dag á ég á ný dreng í grunnskóla og sit enn fundi þar sem gefið er í skyn eða sagt berum orðum að stykleikar hans séu veikleikar. Líkt og forðum sit ég fundi þar sem vandinn er leystur með aðferðum sem gera meira ógagn en gagn.
Alvarleg staða drengja
Að undanförnu hefur verið vakin athygli á alvarlegri stöðu drengja í skólakerfinu og hversu mjög við skerum okkur úr í samanburði við nágrannalöndin. Ég hef hvorki þekkingu á því hvar vandinn liggur né hvaða lausnir eru færar í þeim efnum, það er menntayfirvalda að komast til botns í því. Reynsla mín hefur þó kennt mér að grunnskólakerfið mætir þörfum drengja ekki nægilega vel.
„Það sem ég hef lært“ er annars vegar það að sem foreldri ber mér skylda til að vera vakandi fyrir því viðmóti sem synir mínir mæta í skólakerfinu og hins vegar að mér ber að standa með og standa vörð um drengina mína. Til þess þurfti vatnaskil í skólasundlaug.
Ég hef líka sérhæft mig í strákum og man sérlega vel eftir síðasta foreldraviðtalinu vegna eldri sonar míns.
Ég man reyndar líka vel eftir fyrsta foreldraviðtalinu því þessi tvö viðtöl áttu það sameiginlegt að þá fékk ég að heyra hvað strákurinn minn væri frábær og hvað ég væri heppin að eiga einmitt svona strák. Í átta ár þar á milli var einblínt á ,,neikvæða” hluti, reynt að finna leiðir til að breyta barninu og öllu hrósi var strax drekkt í ,,en…”.
En svo var það þarna í 10. bekk sem nýbyrjaður umsjónarkennari brosti til mín og sagði mér hvað ég væri nú heppin að eiga svona dásamlegan strák og ég sat orðlaus og grét. Allt sem áður hafði verið talið honum til foráttu fannst kennaranum vera kostir.
Þetta viðtal hjálpaði mér að treysta eigin innsæi og standa betur með yngri drengnum sem hóf skólagöngu um haustið. Skólagöngu sem fór mjög brösuglega af stað en gekk svo alveg ljómandi vel eftir að hann skipti um skóla og komst í umhverfi þar sem ímyndunaraflið hans og sköpunargáfan voru álitin styrkleikar en ekki gallar, vesen og vandræði.
Takk.