Elizabeth Holmes hefur sagt skilið við svörtu rúllukragapeysuna og djúpu röddina sem hún beitti í þeirri trú að vera tekin alvarlega í Kísildalnum. „Ég trúði því að með þessu yrði ég góð í viðskiptum og tekin alvarlega, ekki sem litla stelpan sem hafði ekki góðar hugmyndir í tæknigeiranum,“ segir Elizabeth Holmes við blaðamann New York Times í nýbirtu viðtali, sem er það fyrsta sem hún veitir í sjö ár, eða frá því að lögmannateymi hennar ráðlagði henni að hafa hljótt um sig.
Í dag er hún Liz, ekki Elizabeth. Hún er tveggja barna móðir, eiginkona og ver tíma sínum meðal annars í að svara símtölum í hjálparsíma fórnarlamba nauðgana.
Holmes ætlaði að breyta og bjarga heiminum þegar hún stofnaði líftæknifyrirtækið Theranos aðeins 19 ára gömul og hélt því fram að hún hefði þróað byltingarkennda blóðskimunartækni sem gæti greint hundruð sjúkdóma. Það reyndist ekki rétt og reynir hún nú hvað hún getur til að fresta því að hefja afplánun 11 ára fangelsisdóms fyrir að blekkja fjárfesta.
En hún trúir því enn að hún geti breytt heiminum með nýrri uppgötvun í heilbrigðisvísindum. „Ég hef enn þá þessa sömu köllun og áður og ég finn að þörfin er enn til staðar,“ segir Holmes. Það breytir því þó ekki að hún hefur verið dæmd í 11 ára fangelsi, þótt enn sé óljóst hvenær afplánunin hefst þar sem beðið er eftir niðurstöðu áfrýjunardómstóls.
Athugasemdir